Ég er á leiðinni að sækja dóttur mína og er með kvíðahnút í maganum. Ég get ekki talað um þessi mál við konuna mína. Hún myndi strax segja að ég væri að stilla henni upp í hlutverk vondu stjúpunnar. Það gerir hún vanalega.
Dóttir mín og ég ræðum þetta líka sjaldan, hún er orðvör þegar ég geri það. Vill ekki staldra við þetta efni. Ég skil hana vel. Hún reynir að spila eins vel og hún getur úr spilunum sem hún er með á hendi. Hún vill ekki lenda á milli, veit ekki hvað ég gæti misst út úr mér í rifrildi. Vill ekki hætta á að fleiri neikvæðir straumar beinist að sér. Hún og ég vitum samt bæði hvernig andrúmsloftið er.
Ekki er víst að henni verði heilsað þegar heim kemur og ef það gerist þá verður það án áhuga og líklega í mæðutón. Sennilega fær hún strax aðfinnslur fyrir að leggja töskuna eða skóna á rangan stað. Það sama fer reyndar í taugarnar á konunni minni þegar hennar börn eiga í hlut en ekki á sama hátt. Sama gerist ef hún klárar ekki mjólkina úr skálinni með mjólkurkorninu og þannig mætti lengi telja.
Hún fær alltaf skilaboð um að hún tilheyri okkur ekki þótt aldrei sé það sagt berum orðum. Hún fær aldrei að eiga sitt rými í friði. Alltaf þykir sjálfgefið að hennar rúm sé lagt undir ef ættingjar utan af landi beiðast gistingar. Alltaf þykir sjálfsagt að önnur börn vaði í dótið hennar þótt hún sé ekki heima. Aldrei er því fagnað þegar hún kemur með skraut eða myndir úr skólanum. Alltaf eru verstu árekstrarnir á heimilinu þegar hún er hjá okkur.
Oft getur hún ekki sofnað og þá reyni ég að líta til hennar svo lítið beri á. Ég ræði þetta ekki við konuna mína. Ekki heldur þegar ég þarf að fara eitthvað á kvöldin sem ég reyni eins og ég get að koma mér hjá ef ég get. Yfirleitt tek ég hana þá með. Ég þarf reyndar ekki að minnast á það við dóttur mína, hún er alltaf á nálum ef hún sér fararsnið á mér. Ef ég get ekki haft hana með þá fæ ég oftast mömmu eða einhvern annan til að passa hana fyrir mig. Stundum skipti ég um dag við mömmu hennar undir því yfirskini að eitthvað skemmtilegt sé í vændum þann daginn. Bý þá til eitthvað leikrit í kringum það. Ég og dóttir mín ræðum hinar raunverulegu ástæður ekki og hún tekur þátt í leikritinu. Það sem hún er hinsvegar ekki jafn meðvituð um og ég er það að við erum ekki á jafnræðisgrundvelli í þessu leikriti. Ábyrgðin er mín.
Aðsend grein.