Skip to main content
Fjölskylda

Kostnaðarsöm sektarkennd

Konan mín sýnir því lítinn skilning þegar strákurinn er hjá okkur og segir mig láta allt eftir honum. Kannski er eitthvað til í því  en hann er nú bara stuttan tíma í einu hjá okkur og ég vil að honum líði vel.

Það hefur ekki talist góð uppeldisaðferð hjá foreldrum að annað bannar og hitt leyfir. Aðferðin verður ekkert betri þó stjúpforeldri og foreldri sjái um uppeldið. Jafnvel skaðlegri,  sé ætlunin að skapa samhenta stjúpfjölskyldu. Stjúpforeldrar hafa yfirleitt ekki sömu stöðu í augum barna og foreldrar, þess vegna geta orð þeirra vegið  léttar reyni þeir að banna það sem foreldrar leyfa.

Sjaldan sjá börn ástæðu til að setja diskinn í uppþvottavélina eða  þakka sérstaklega fyrir sig ef foreldri skeytir ekki um að  kenna þeim almenna kurteisi og reglur heimilisins. Það getur vel verið að barni þyki það ákjósanleg staða í einhver tíma að um það gilda aðrar reglur, en til lengdar hefur að áhrif á aðlögun þess í stjúpfjölskyldunni.   Sérstaklega ef þetta sama foreldri  er tilbúið til að fylgja reglunum af hörku gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum.

Er það umhugsunarvert að að sjá að mismunun gagnvart börnum í stjúpfjölskyldum virðist vera nokkuð algeng.  Í könnun sem m.a. var lögð fyrir félagsmenn í Félagi stjúpfjölskyldna voru 45% svarenda  mjög/sammála fullyrðingunni „Það gilda aðrar reglur um börn maka míns á heimilinu en mín börn (getur líka átt við barnabörn)“  og 38% voru mjög/sammála fullyrðingunni „Mér finnst maki minn gera meiri kröfur til minna barna en sinna eigin barna (getur líka átt við um barnabörn).

Það bætir ekki ástandið ef foreldri setur ofan í við stjúpforeldri sem reynir að fylgja eftir „samþykktum“ heimilisreglum eða  afsakar ókurteisi barnsins með vanlíðan eða það komi  svo sjaldan. Það þurfi  því ekki að gera svona mikið mál úr hlutunum. Hætta er á að heimilismenn  skiptist á svipstundu upp í tvær andstæðar fylkingar með tilheyrandi pirringi og vonbrigðum.  Í sumum tilvikum beinist pirringur stjúpforeldrisins gagnvart barninu sem talið er bera ábyrgð á líðan stjúpforeldrisins og aðstæðunum sem „það“ skapar í hvert sinn sem það kemur. Í stað þess að horfa á hegðun foreldrisins og samspil parsins.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að uppalendur í stjúpfjölskyldum eru ekki samstíga en stundum er það ekkert flóknara en svo að  heimilisreglur hafa aldrei verið ræddar. Nú svo leggur fólk áherslu á mismunandi hluti í uppeldinu og það getur tekið tíma að finna út hvaða reglur eigi að hafa að leiðarljósi á heimilinu. Það getur verið smekksatriði hvort nauðsynlegt sé að börnin gangi alltaf frá leikföngum eftir notkun í þar til gerðar hillur eða það sé látið duga að þau lagi til í herbergjum sínum einu sinnu í viku.  Að kunna þakka fyrir sig,  telst hinsvegar sjaldnast smekksatriði.

Flestir foreldrar, óháð hjúskaparstöðu eða fjölskyldugerð,  finna öðru hvoru til  sektarkenndar gagnvart börnum sínum og telja sig geta gert betur. Við skilnað og þegar farið er ný sambönd finna margir foreldrar mjög sterkt fyrir henni,  meðvitaðir um þau áhrif sem breytingarnar geta haft  á börn þeirra.Óánægja í svip barnanna ristir því djúpt í hjörtu sumra foreldra sem reyna hvað þeir geta til að má hana af og fá bros í hennar stað.  Margir verða því  eftirlátsamir á gjafir og peninga meira en góðu hófi gegnir eða horfa fram hjá ókurteisi og heimilisreglur látna fjúka út um gluggann af ótta við valda enn meiri leiðindum í lífi barna sinna. Oft umbuna foreldrar, venjulega ómeðvitað, slæma hegðun barna sinna í stað þess að veita þeim öruggi sem felst í kærleiksríkum reglum.

Láti stjúpforeldrið í ljós óánægju sína er það í sumum tilvikum jafnvel vænt um að þola ekki barnið. Í viðleitni sinni  að „vernda“ barnið gagnvart  „slíku“ stjúpforeldri getur foreldrið   orðið enn eftirgefanlegra.Sé þetta ástand viðvarandi er hætta á miklum pirringi og reiði á heimilinu. Það þarf  því ekki að undra að í sumum tilvikum er koma barnsins verði kvíðvænleg.

Óhófleg eftirlátssemi hvort sem það er í fjármálum eða á öðum sviðum er kostnaðarsöm og gerir hvorki börnum né sambandinu gott.  Flest jafna sig á breytingum. Sektarkenndina má nýta til góðs , með því læra nýja færni og  styrkja sig i foreldrahlutverkinu – en stundum er líka full ástæða til að spyrja sig: Hvað myndi ég gera ef hún væri ekki til staðar?“

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamaður

Instagram