Skip to main content
Hátíðir

Gerum ráð fyrir breytingum- líka um jólin!

„Hvernig eigum við að hafa þetta um jólin?“ spurði Einar sambýliskonu sína en þetta voru þeirra fyrstu jól saman. Það vottaði fyrir áhyggjum í röddinni. Hún svarði því til að hún vildi vera hjá foreldrum sínum eins og venjulega. Hann var ekki viss um hvað mömmu hans fyndist um það en hún bjó ein síðan foreldrar hans skildu. Jóladagurinn var alltaf með pabba hans.

Breytingar í lífinu, hvort sem þær teljast af hinu góða eða ekki, kalla gjarnan á uppstokkun hefða og venja sem við erum mis tilbúin til að takast á við. Það á við um jólahefðirnar sem annað. Það sem sumum kann að finnast léttvægt, eins og hvað eiga að borða á aðfangadag, getur öðrum fundist stórmál og talið engin jól vera án hreindýrasteikarinnar hans pabba eða að hnetusteikin hennar mömmu sé á borðum.

Flestir vilja hafa sína nánustu hjá sér og hefur stórfjölskyldan ósjaldan hugmyndir um hvar hver eigi að vera hvar um jólin. Ætli einhver að bregða út af vananum er hætta á að sumir reyna að höfða til samvisku viðkomandi með athugasemdum eins og „við erum alltaf hjá ömmu á jóladag, þú getur ekki sleppt því að koma“ eða „ætlar þú að vera eina systkinið sem ekki ert hjá okkur á aðfangadag?“

Málið getur flækst töluvert ef sambýlingarnir eiga báðir fráskilda foreldra og stjúpforeldra sem líka gera kröfur um að haldið sé í „hefðirnar“. Nú ef sambýlingarnir eiga að auki börn úr öðrum samböndum og koma þarf til móts við þeirra þarfir, sem og foreldra og stjúpforeldra barnanna á hinum heimilum vandast málin enn frekar. Geri allir kröfu um að halda í sínar hefðir krefst skipulagning jólanna líklega doktorsgráðu í stærðfræði sem ég efast að myndi duga til. Líklega þyrfti töfrasprota.

Fjölskylduhefðir og venjur eru yfirleitt okkur mikilvægar. Þær skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðnum hópi. Nærvera okkar og annarra skiptir máli. Þær eru líka mikilvægir þegar tekist er á við sorg og missi; þær eru græðandi og skapa öryggi. Hinsvegar ef við höldum of fast í þær og gerum ekki ráð fyrir eðlilegum breytingum í lífinu geta þær orðið eins og „þröngur og óþægilegur jakki “ sem heftir hreyfingar okkar.

Breytingar eiga sér stað í öllum fjölskyldum. Nýir fjölskyldumeðlimir fæðast og aðrir hverfa á braut, sumir missa heilsuna, aðrir fá stöðuhækkun eða flytja til útlanda. Einhverjir eignast ný tengdabörn, stjúpbörn og stjúpforeldra, á meðan aðrir gifta sig og skilja.Það sem greinir hins vegar á milli fjölskyldna er hvernig er tekist á við þær breytingar sem lífið færir okkur.

Aðlögunarhæfni og sveigjanleiki skiptir sköpum í að finna út úr nýjum aðstæðum. Í sveigjanleikanum felst hæfni til að breyta þegar breytinga er þörf svo halda megi áfram á uppbyggilegan máta. Hann felur hinsvegar ekki í sér að annar aðilinn gefi allar sínar fjölskylduhefðir eftir og aðlagi sig í einu og öllu að hefðum hins aðilans. Rétt eins og hann hafi verið ættleiddur af viðkomandi en ekki farið í sambúð á jafnréttisgrundvelli, þar sem lítið eða ekkert svigrúm er gefið til að rækta eldri tengsl eða lagt sig fram við að búa til nýjar hefðir þar sem gert er ráð fyrir öllum.

Verkefnin sem fylgja breytingum eru auðvitað mis krefjandi. Á barn að fara með móður og nýjum stjúpa í jólaboðið hjá foreldrum stjúpans eða í jólaboðið með pabba hjá föðurömmu og afa sem er á sama tíma? Annars vegar snýst þetta um að búa til tengsl og nýja hefð, hinsvegar að rækta eldri tengsl og fylgja hefð. Við þurfum að finna jafnvægi þar á milli.

Sjálfsagt er það smekksatriði en að mínu mati er eðlilegra, sé það venjan, að barnið fari til föðurafa og -ömmu. Það má nota alla hina 364 dagana á árinu til að og búa til ný tengsl, jafnvel skipuleggja næstu jól á nýjan hátt. Hafa „aðfangadag“ á jóladag og „gamlárskvöld“ á þrettándanum eða halda jólasveinahátíð í júní. Varla flókið sé viljinn fyrir hendi, fólk gerir þetta víða um heim.

Vanti umræðuefni í jólaboðið má kanna tilurð ýmissa fjölskyldhefða sem er verðugt rannsóknarefni í sjálfu sér. Það kemur örugglega ýmislegt áhugavert í ljós. Gerum ráð fyrir breytingum – lífið verður léttara!

 

Höfundur: Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Instagram