Félagsráðgjafinn og fjölskyldufræðingurinn Valgerður Halldórsdóttir er einn okkar fremstu sérfræðinga þegar kemur að tengslum stjúpfjölskyldna. Hún segir okkur geta verið mikið betur undir stjúpforeldrahlutverkið búin.
Valgerður Halldórsdóttir heldur úti vefsíðunni stjúptengsl.is og býður bæði upp á námskeið og viðtöl fyrir stjúfjölskyldur. Í síðustu viku fór af stað nokkurra þátta samstarf hennar og Viðju uppeldisfærni sem halda úti hlaðvarpinu Uppeldisspjallið.
„Þar er að finna aðgengilega uppeldisráðgjöf sem uppeldisfræðingar og sálfræðingur veita. Í ljós kom að það var mikið hlustað á þáttinn og þörfin fyrir hendi. Við ákváðum því að gera nokkra þætti saman sem snúa að börnum. Hlustendur geta sent inn spurningar sem ég ætla að reyna svara. Með vorinu mun hlaðvarpið „Stjúptengsl“ fara í loftið en fólk í stjúpfjölskyldum er á öllum aldri og viðfangsefnin óþrjótandi,“ segir Valgerður en þættirnir eru aðgengilegir í gegnum Soundcloud. Viðtalið má lesa í heild HÉR
Stundum hreykir fólk sér af frændsemi og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr. Hafi viðkomandi til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur viðkomandi, en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni. Það er þó ekki algilt frekar en annað. Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi. Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma. Stundum var eini „glæpur“ þeirra, fátækt.
Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði okkar og fjölskyldu vefst það síður fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu. Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir fjölskyldu barna sinna. Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan. Makar, tengdaforeldrar og tengdabörn, teljast líka venjulega til fjölskyldunnar hvort sem samskiptin þykja góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.
Endurskilgreinum fjölskyldutengsl
Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna. Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans, sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt.
Er stjúpforeldrið í fjölskyldunni?
Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella. Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum. Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim, upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin. Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist barnið og allt sem því viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.
Ólík en jafngild
Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður, séu þau ekki í lagi.
Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður
„Mér finnst svo ósanngjarnt að við skulum vera látin borga tvöfalt meðlag með stráknum sem er aðra hvora viku hjá okkur. Það er ekkert pælt í því hvaða tekjur mamma hans hefur eða maðurinn hennar, en þau eru mun betur stæð en við“.
Óhætt er að fullyrða að flestir foreldrar vilja sjá um framfærslu barna sinna og margir stjúpforeldrar greiða ýmislegt fyrir stjúpbörn sín eins og tómstundir, sumarfrí, fatnað og mat og fleira. Jafnvel þó bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að stjúpforeldrar séu síður tilbúnir til þess að styðja stjúpbörn sín en eigin börn. Ef tengsl stjúpforeldra og stjúpbarna eru góð er líklegra að þeim langi til að veita þeim fjárhagslega stuðning en ef þau eru erfið eða engin.
Lagaleg skylda
Foreldrum ber lagalega skylda til að framfleyta börnum sínum. Skiptir engu hvort þeir fari með forsjá þeirra eða ekki. Annað á við um stjúpforeldra og í raun hefur minnihluti þeirra framfærsluskyldu gagnvart stjúpbörnum sínum. Ástæðan er sú að um 90% foreldra fara með sameignlega forsjá við skilnað. Þýðir það að minnihluti stjúpforeldra hefur forsjá stjúpbarna sinna. Hafi þeir hana, fellur hún niður við skilnað.
Því er hinsvegar ekki að neita ákveðnar væntingar eru til stjúpforeldra um framfærslu stjúpbarna. Hvað varðar hið opinbera þá virðist sem að lögheimili barns sé látið ráða en ekki hvort stjúpforeldrið hafi forsjá þess eða ekki. Eða er hið opinbera ekki að gera ráð fyrir því að stjúpforeldri sem á sama lögheimili og stjúpbarn taki þátt í framfærslu barnsins, þar sem bætur tengdar börnum skerðast og afsláttur fellur niður þegar breytingar verða á hjúskaparstöðu foreldrisins?
Ég er að reyna átta mig á þessu en það virðist einhver önnur hugsun í gangi þegar kemur að stjúpforeldri sem er maki meðlagsgreiðanda. Í því tilviki virðast tekjur stjúpforeldrisins ekki skipta máli þegar verið er að ákvarða hvort foreldri geti greitt eitthvað umfram einfalt meðlag með barni sínu eða ekki. Auk þess sem það foreldri telst ekki foreldri samkvæmt skattalögum og nýtur engra bóta tengda börnum sem greitt er með meðlag, jafnvel þó það dvelji hjá því aðra hvora viku. Ég velti fyrir mér af hverju sumir telja það þurfi að breyta lögheimilislögum til að jafna betur opinberar bætur á milli heimila. Af hverju eru umgengnissamningar eða foreldrasamningar eins og ég kýs að kalla þá, ekki látnir ráða?
Skiptar skoðanir
Meðal almennings eru skiptar skoðanir um það hvort stjúpforeldri eigi að sjá um framfærslu stjúpbarna sinna eða ekki. Í könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna í fyrra taldi 52% svarenda að stjúpforeldrar ættu að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu.
En þegar tölurnar voru greindar nánar kom í ljós mikill munur á afstöðu fólks til þessa máls eftir samsetningu stjúpfjölskyldunnar. En 65% þeirra sem áttu börn saman og báðir komu með börn í sambandið voru sammála jafnri framfærslu forelda og stjúpforeldra en aðeins 25% stjúpforeldra sem ekki átti börn sjálfir. Tölurnar benda til þess að eignast barn saman skipti töluverðu um afstöðu bæði foreldra og stjúpforeldra varðandi þátttöku stjúpforeldris í kostnaði vegna barna sem búsett eru á heimilinu. Önnur afstaða virðist vera gagnvart börnum sem koma í „umgengni“ samkvæmt upplýsingum í nýlegri MA ritgerð í félagsráðgjöf. Þau börn virðast fá minni fjárhagslega aðstoð en börnin sem teljast búsett á heimilinu. En hvenær teljast börn búa á heimili og hvenær eru þau í umgengni?
Jafnframt kom í ljós í fyrrgreindri könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna að 25% svarenda voru þeirra skoðunar að foreldri ætti ekki að borga meðlag með barni sem býr með foreldri og stjúpforeldri. Þessi hugmynd hefur ekki farið hátt í umræðunni um meðlagsmál hér á landi – enda spurning hversu raunhæf eða sanngjörn hún er.
Hvað sem því líður þarf að skoða framfærslu barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum svo tryggja megi þeim góð lífsskilyrði óháð hjúskaparstöðu foreldra og draga úr deilum sem kerfið skapar. Líklega þarf að endurskoða kerfið frá grunni sem virðist taka mið af öðrum veruleika en við búum við í dag.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður.
Áður birt 2015
Fjölskyldur eru mismunandi – og það á líka við um stjúpfjölskyldur þar sem parið á börn úr öðrum samböndum. Það getur verið á framhaldsskólaaldri með ung börn eða á gamals aldri eins og afi minn sem flutti út af elliheimilinu og hóf sambúð að nýju við mismikla gleði aðstandenda. Fólk getur verið gagnkynhneigt eða samkynhneigt af íslenskum eða erlendum uppruna svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir margbreytileika þeirra benda rannsóknir til að að þær eiga margt sameignlegt og glíma við svipaðar áskoranir.
Útundan
Að upplifa sig útundan er algeng tilfinning bæði hjá börnum og fullorðum sem getur haft óheppileg áhrif á fjölskyldulífið sé ekki brugðist við á uppbyggilegan máta. Gegnir kynforeldri þar lykilhlutverki að tengja saman börn og maka, miðla upplýsingum og tryggja góð samskipti við fyrrverandi maka eða barnsföður/móður.
Algengt er hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir fólki og upp komi óraunhæfar hugmyndir um að hægt sé að endurskapa kjarnafjölskylduna. Jafnvel að stjúpforeldrið geti alfarið komið í staðinn fyrir það foreldri sem ekki er búsett á heimilinu. Það býður hættunni heim, sérstaklega ef stjúpforeldri tekur að sér agamálin án þess að tengsl hafi náð að myndast við börnin. Óhjákvæmilega fylgja líka nýjar hefðir og venjur nýju fólki sem deilir saman heimili og á sér aðra sögu. Hvort á að gera ráð fyrir að börnin sjái sjálf um nestið eins og mín börn eða smyrja fyrir þau eins og hann/hún gerir fyrir sín börn? Er nauðsynlegt að samræma hlutina? Sætaskipan við eldhúsborðið breytist þegar börnin eru aðeins viku í senn á heimilinu og foreldrar reyna gjarnan að aðlaga vinnutíma sinn svo þeir geti sinnt börnunum þann tíma sem þau eru hjá þeim. Hvað gerist þegar parið eignast síðan sameignlegt barn?
Foreldrið „úti í bæ“
Fyrrverandi maki eða barnsfaðir/móðir getur líka haft sín áhrif á fjölskyldulífið, bæði viljandi og óviljandi með hegðun sinni og unnið gegn aðlögun barna sinna að stjúpfjölskyldunni með sífelldri truflunum og inngripi í aðstæður á hinu heimilinu. Þegar tekist er á við missi og breyttar aðstæður hjálpar að hafa ríflegan skammt af þolinmæði og sveigjanleika sem virkar eins höggdeyfir. Líkt og brjóskið í líkamanum. Öll samskipti verða liprari og viðnám minna hjá fjölskyldumeðlimum sem eru kannski ekki eins spenntir fyrir stjúpfjölskyldulífinu í fyrstu og parið.
Það eflir stjúpfjölskyldur að vita hvað eru klassísk verkefni fyrir þær í stað þess að reyna nota kjarnafjölskyldur sem fyrirmynd. Sé það reynt er það eins og að spila Matador með Lúdóreglum. Vænta má fleiri stórsigra í Matador, en einfaldar lúdóreglur duga ekki til.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA, sáttamaður.
Jóna Hrönn Bolladóttir prestur og Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi ræddu sorg við skilnað, og breytingar sem gjarnan fylgja nýjum stjúpfjölskyldum. Horfa má á myndbandið hér
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, rekur fyrirtækið stjuptengsl.is. Nú er hún að fara að halda námskeið fyrir stjúpmæður og líka fyrir pör í stjúpfjölskyldum. Hún segir að samfélagsmiðlar hafi áhrif á samskipti stjúpforeldra við stjúpbörn og það geti verið auðvelt fyrir börn að upplifa að þau séu „útundan“ þegar verið er að pósta látlaust þegar börnin eru ekki með í för.
Hvers vegna ertu að halda námskeið fyrir stjúpmæður og pör í stjúpfjölskyldum?
„Flestar stjúpfjölskyldur og margar stjúpmæður upplifa svipaða hluti sem eru oft mjög fyrirsjáanlegir en fæstir þekkja. Með því að læra um stjúptengsl má koma í veg fyrir algengar uppákomur og vanlíðan sem getur fylgt þeim. Ég hef rekið mig á að þegar fólk þekkir ekki til þá er tilhneiging til að fólk „kenni hvað öðru um“ sem eykur enn frekar á vandræðin. Flestum finnst sjálfsagt að fara á foreldranámskeið fyrir verðandi foreldra eða sækja nokkur hundaþjálfunarnámskeið til að takast á við nýjar áskoranir á uppbyggilegan hátt. Það sama á við um stjúptengsl,“ segir Valgerður.
Hvað er það sem stjúpmæður eru oft að gera vitlaust?
„Að setja ekki á sig súrefnisgrímuna og reyna of mikið að þóknast öðrum á sinn eigin kostnað. Konur eru oft hræddar við að „vera leiðinlegar“, reyna að þóknast öllum og rugla því saman við að setja heilbrigð mörk til dæmis gagnvart maka sínum og taka of mikið að sér gagnvart börnunum í fyrstu. Jafnvel þótt enginn hafi beðið þær um það, sumar halda jafnvel að þær eigi að vera einskonar mæður á heimilinu án þess að hafa „umboð“ til þess frá stjúpbörnum sínum eða maka. Nú svo getur makinn og stjúpforeldrið verið sammála en stjúpbörnin láta óspart vita að „hún er ekki mamma mín“. Það eru til ýmsar útgáfur á þessu.
Það er líka möguleiki á að öllum líki mjög vel við hana sem stjúpu og það sem hún stendur fyrir á heimilinu en hún sjálf er að koðna niður innan frá. Birtist það meðal annars í því að allir vinkonuhittingar, saumaklúbbar eða aukavinna er sett á þann tíma sem stjúpbörnin eru á heimilinu,“ segir Valgerður.
Valgerður bendir á að það fylgi þessu verkefni mikil óvissa.
„Sérstaklega þegar fólk hefur litla sem enga hugmynd um hvernig dýnamík stjúpfjölskyldna er. Allt of margar konur spyrja hvort þær megi hafa svona og hinsegin tilfinningar gagnvart hlutverkinu í stað þess að virða sínar tilfinningar og skoða hvað megi gera til að þeim líði betur. Þessi óvissa og löngun til að öllum líki við hana veldur því m.a. að aðrir skilgreina hlutverk stjúpunnar en ekki hún sjálf. Við ræðum þessa hluti og fleira meðal annars á örnámskeiðinu þann 28. október. Þann 22. október verður í boði fyrir þær konur 6 vikna námskeið sem kallast Stjúpuhittingur.“
Hvers vegna verða samskipti stjúpmæðra og stjúpbarna oft svona stirð?
„Það vantar oftast upp á tengslamyndunina milli stjúpmæðra og barna í slíkum tilvikum. Við þurfum að einblína meira á maður á mann samskipti og kynnast hvert öðru áður en við förum að beita okkur. Oft og tíðum vantar líka upp á samvinnu parsins t.d. um reglur á heimilinu. Stjúpmæðrum/feðrum finnst foreldrið ekki vera að fylgja eftir reglum heimilisins og fer þá „beint í börnin“ sem taka því illa. En stundum samþykkir foreldrið einhverja reglu sem það er í raun ekki tilbúið að fylgja eftir, í stað þess að ræða það við stjúpforeldrið og móta reglur sem henta öllum. Skortur á samstarfi bæði á milli stjúpforeldra og foreldra á heimili og á milli heimila bitnar því mjög oft á börnunum. Jafnvel finnst börnum að stjúpforeldrið stjórni foreldri þeirra og stjúpforeldrinu að börnin stýri foreldrinu þegar þau eru á heimilinu.“
Ef þú ættir að gefa stjúpmóður eitt ráð, hvað væri það?
„Lærðu um stjúptengsl og hlúðu vel að sjálfri þér.“
Svo ertu líka með paranámskeiðið. Hvað græða pör á því að fara á svona námskeið?
„Það sem flestir segja að þeir hafi grætt mest á er að hitta önnur pör í svipuðum sporum. Jafnframt með því að læra um helstu áskoranir stjúpfjölskyldna er eins og að fá gott landakort til að fara eftir.
En skorti mörk, samstarf og skilning á stöðu bæði foreldra og stjúpforeldra sem og barna er hætta á að pirringur og árekstrar verði tíðir. Upplýsingar um námskeið er að finna á www.stjuptengsl.is
Finnst þér stjúptengsl verða flóknari með tilkomu samfélagsmiðla?
„Það er stundum viðkvæmt mál þegar stjúpforeldrar birta myndir af sér með stjúpbörnum sínum á Facebook eða öðrum miðlum en alls ekki í öllum tilvikum. Foreldrum barnanna á hinu heimilinu getur fundist að sér vegið sem foreldri en við þurfum sjaldnast að óttast að börn skipti foreldrum sínum út fyrir stjúpforeldra.
Í öðrum tilvikum birtist mynd af foreldri með stjúpbörnum sínum, og fer það fyrir brjóstið á börnunum á hinu heimilinu sem ekki eru með. Stundum hafa ungmenni lokað á stjúpforeldra sína á samfélagsmiðlum án útskýringa af þeirri einföldu ástæðu að slíkar myndir geta sært. Tilfinningin að vera „útundan“ er sterk.
Samfélagsmiðlar geta líka auðveldað fólki að fá yfirsýn yfir líf barna sinna og stjúpbarna, sem gjarna glatast við það að eiga börn sem tilheyra tveimur heimilum,“ segir Valgerður.
„Ég veit ekki hvort og þá hvað á að gefa dóttur Selmu, nýju kærustu Kela í jólagjöf. Ég er ekki viss hvort hún teljist sem barnabarn eða ekki, en hún er orðin 12 ára og á bara sínar ömmur. Hvað finnst þér?“, sagði Sigrún í áhyggjufullum tón við Helgu vinkonu sína í þeirra reglulegu kóvít göngu í Elliðaárdalnum.
Sigrún fann hvað það gerði henni gott að hitta vinkonu sína reglulega á röltinu og spjalla. Satt að segja þá öfundaði hún Helgu pínulítið af því að eiga engin fyrrverandi tengdabörn né aukabörn sem fylgdu nýjum tengdabörnum. Skilnaður Kela, sonar hennar hafði breytt miklu varðaði aðgengi hennar barnabörnunum. Þau voru nú í viku hjá honum og svo viku hjá Fjólu, mömmu sinni. Keli var á móti því að Fjóla leitaði til mömmu hans með pössun eða væri að koma til hennar í heimsókn “í tíma og ótíma“ en Sigrúnu sjálfri hafði þótt vænt um það. Barnabörnin voru alltaf barnabörnin hennar, óháð því hjá hvoru foreldrinu þau voru hverju sinni. En Kela fannst það „ekki í lagi að þau Selma væru kannski að hitta Fjólu hjá henni“. Sigrún beið ekki eftir svari Helgu og bætti við „Finnst þér ég þurfi að gefa dóttur Selmu gjafir eins og mínum eigin barnabörnum?“
Óhætt er að segja að skilnaður uppkominna barna hristir oft upp í tilveru afa og ömmu . Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin sem eiga tvö heimili í stað eins, og nýjar spurningar vakna. Má bjóða þeim í mat eða á skauta þegar þau eru hjá fyrrverandi tengdadóttur eða bara þegar þau eru hjá syninum? Mega þau gista eins og áður? Í sjálfu sér þarf eldri kynslóðin ekki leyfi uppkominna barna til að bjóða fyrrverandi tengdadóttur eða -syni í mat með barnabörnin, eða hvort hún megi leyfa þeim að gista að beiðni fyrrverandi tengdadóttur. Hinsvegar á meðan sumum kann að finnast það bara skemmtileg og góð hugmynd, finnst öðrum uppkomnum börnum það vera svik við sig og vilja að haft sé samráð við þau varðandi börn þeirra og samskipti við fyrrverandi maka. Sérstaklega ef samskipti þess við hitt foreldrið eru ekki góð. Það þarf því að finna einhverjar leikreglur sem allir eru sáttir við, en er það efni i annan pistil. En skapist mikill ágreiningur milli uppkominna barna og foreldra er hætta á að samskiptin verða minni við barnabörnin, jafnvel engin í sumum tilvikum. Sem er mikill missir fyrir alla.
Ný tengdabörn með börn
Flestir samgleðjast uppkomnum börnum sínum þegar þeir finna sér nýjan maka, en sumir telja að hlutirnir gerast oft ansi hratt. Stundum eru kröfur gerðar um skjóta aðlögun að nýjum tengdabörnum með börn, á sama tíma og tengsl við eigin barnabörn hafa jafnvel minnkað. Það þurfa allir tíma, bæði börn og fullorðnir til að aðlagast nýjum aðstæðum og til að viðhalda eldri tengslum og búa til ný tengsl. Það er því alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa og faðma stjúpömmu eða -afa bless eins og hin barnabörnin gera eða amma og afi vilji eyða meiri tíma með stjúpbarnbarni en barnabarni. Gefa þarf eldri kynslóðinni tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, og stundum að hrista hópana saman. Þegar fólk hefur myndað tengsl við stjúpbarnabörnin er sjaldnast efi í huga þess hvort það eigi að gefa þeim gjafir eða ekki.
Viðurkenning virkar vel – bæði á fullorðna og börn
Það þarf engin að gefa jólagjafir eða aðrar gjafir, en flestum langar til að gefa barnabörnum sínum gjafir hvort sem þau búa á einu eða tveimur heimilum. Hvað varðar stjúpbarnabörnin, þá er það ekki nokkur vafi í huga margra að þau eigi að fá gjafir eins og hin börnin í fjölskyldunni en aðrir er óvissir, sérstaklega þegar tengsl eru lítið sem engin. Sumum kann að finnast það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, jafnvel þótt börnin eigi sameiginlegt hálfsystkini. Hætta er á að slík viðhorf geti ali á afbrýðisemi í systkinahópnum og deilum milli uppkomins barns og maka þess, sem og milli þess og foreldra.
Ræðum saman
Séum við óviss, má ræða málið við uppkomið barn og tengdabarn. Slíkt samtal gæti mögulega afhjúpað þeirra eigin óvissu um hvort þau/þær/þeir ætli að gefa börnum hvors annars saman eða sitt í hvoru lagi. Jafnvel áfram með hinu foreldrinu „eins og þau hafa alltaf gert“.
Allt er í sjálfu sér „leyfilegt“ en með því að gefa stjúpbarnabarni gjöf, felst viðurkenning á tilvist þess í fjölskyldunni, sem okkur öllum er mikilvægt. Deili börnin jólunum saman er vænlegra að hafa gjafirnar af svipuðum toga. Þegar mikill aldursmunur er á börnunum er ekki víst að stjúpbörnin ætlist til að fá gjafir eða sambærilegar gjafir og hin börnin frá nýjum stjúpöfum og -ömmum.
Besta gjöfin er hinsvegar sú að einsetja sér að gefa stjúpbarnabörnum tíma og athygli, sem og eigin barnabörnum á komandi ári- og þessar áhyggjur eru frá um næstu jól!
Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi, Birt á Mannlif.is
Tíðni hjónaskilnaða hefu aukist síðustu áratugi og skilnaðir hafa mikil áhrif á börn og foreldra þeirra. En stundum upplifa afar og ömmur einnig að samband þeirra við barnabörnin breytist þegar foreldrar þeirra skilja. Þegar börnin eru aðra hvora viku hjá hvoru foreldri, þýðir það þá líka að afar og ömmur hafi einungis samband við þau aðra hvora viku, eða þá vikuna sem þau eru hjá þeirra „barni“? Þannig þarf það ekki að vera.
Erfitt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra
Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi hefur sérhæft sig í stjúptengslum. Hún gerði könnun fyrir tveimur árum, en í henni kom fram að um 40% fráskilinna forelda þætti ekki alltaf auðvelt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra um aðstoð með börnin. Það kom einnig fram í könnuninni að fólki þótti heldur ekki auðvelt að biðja eigin foreldra um aðstoð með stjúpbörn, þar sem þeim er til að dreifa.
Reyna að fókusera á barnabörnin
„Það er tilhneiging í þá átt að stuðningsnet fjölskyldunnar gisnar við skilnað og ný stjúptengsl geta gert það enn götóttara en áður“, segir Valgerður. Hún segir að ástæðurnar fyrir þessu geti verið margvíslegar en það sé mikilvægt að blanda sér ekki í deilur fólks sem er að skilja og reyna að fókusera á börnin. „Afi og amma geta skapað mikilvæga festu og samfellu í lífi barna sem eru að fara í gegnum skilnað foreldra sinna og það gerir þeim gott“.
Ekki láta samskiptin „frjósa“
Og Valgerður heldur áfram „Besta leiðin til að tryggja aðkomu að barnabörnum er að halda sig fyrir utan deilur og vera í góðu sambandi bæði við eigin börn og fyrrverandi tengdabörn. Þau stýra aðkomu að barnabörnunum. Þó það sé ákveðið umrót í kringum skilnaði og ýmislegt sé látið flakka er mikilvæg að láta samskiptin ekki „frjósa“ í áratugi, eða taka upp þykkjuna fyrir hönd eign barna og skera á samband við fyrrum tengdabörn, þó eðlilega breytist það . Það er alltaf hægt að bæta samskipti“, segir hún.
Eldri kynslóðin þarf að sýna frumkvæði
Hún segir að eldri kynslóðin þurfi líka að eiga frumkvæði og bjóða fram aðstoð og stuðning með barnabörnin, þar sem fyrrum tengdabörn eigi oft í erfiðleikum með að biðja um hann. Það þurfi að taka umræðuna um þetta, en það sé afar mikilvægt fyrir afa og ömmur að fara ekki frammúr eigin börnum. Það sé rétt að segja þeim frá því að ætlunin sé að hafa samband við fyrrverandi maka þeirra, fá barnabörnin í heimsókn, bíltúr og svo framvegis. Þetta sé sérstaklega mikilvægt ef mikið ósætti sé á milli foreldra barnabarnanna .
Stjúptengsl segja ekkert til um gæði tengsla heldur hvernig þau eru til komin.
Jól og áramót er spennandi tími fyrir marga. Skipts er á litríkum pökkun, farið er í heimsóknir og matarboð til vina og ættingja, flugeldar sprengdir þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað. Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði. Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti við matarborðið minnir á brostna drauma og fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag eigi og ekki síst sveigjanleika sem er allt annað en eftirgjöf í mínum huga. Sveigjanleiki er hæfni til að breyta þegar nauðsynlegt er til að hlutirnir gangi en með eftirgjöf erum við að gefa eftir geng betri vitund og fórnum okkur fyrir friðinn. Hætta er á að það muni koma í bakið á fólki fyrr eða síðar.
Gera þarf ráð fyrir fyrrverandi maka og stjúpforeldri barnanna í skipulagningu jólanna og áramóta en flest börn sem ekki búa með báðum foreldrum eiga tvö heimili, sem mikilvægt er að mun bæði um jól og á öðrum árstíma. Jafnvel þó fyrrverandi makar skilgreini ekki hvort annað sem hluti af fjölskyldu þeirra eru þeir í fjölskyldu sameignlegra barna. Í stað þess. Sum börn eiga tvær stjúpfjölskyldur og nokkur setta af öfum og ömmum. Stundum eiga þau líka stjúpafa og – ömmur sem geri skipulag jólasamveru enn flóknara eigi að reyna að koma fyrir matarboðum og heimsóknum til allra.
Samskipti foreldra
Allt þetta kallar á gott samstarf og samráð milli heimila barsins. Mörgum gengur þetta mjög vel og er í raun ekki neitt eitt rétt hvernig á að haga þessu tíma eða hvar börnin eigi að vera. Aðalmálið er að samkomulag sé til staðar og allir leggi sig fram við að gera þennan tíma sem bestan fyrir börnin og þau viti hvað er framundan. Gott að ákveða fyrirfram hvernig hlutirnir verða og að börnunum sagt frá því „Við mamma þín höfum ákveðið eða …“ eða „Við pabbi þinn höfum ákveðið að …..
Ágætt er að þeir foreldrar sem eiga í erfiðleikum með samskipti sín leiti aðstoðar vina og ættingja til að ferja börnin milli staða ef þeir treysta sér ekki til þess sjálf án þess að neikvæð orðaskipti eigi sér stað. Stundum er nauðsynlegt að leita aðstoðar fagfólks. Það er ágætt að hafa í huga að börn telja ekki daga og mínútur eins og algengt er hjá foreldrum sem deila, heldur meta þau góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.
Samráð nauðsynlegt
Stundum truflar það samskiptamynstur sem var á milli einhleypra fyrrverandi maka aðlögunar stjúpfjölskyldunnar. Nefna má dæmi um mikla vináttu þar sem varla er pláss fyrir nýja makann í sambandinu eða þegar öll mál eru leyst þeirra á milli án samráðs við makann. Eins og hver eigi að vera hvar, og hvenær um jól og áramót? Algengt er að ef skorti slíkt samráð finni fólk fyrir stjórnleysi í lífinu sem sem elur á pirringi og reiði, stundum vonleysi sem er ekki holt veganesti eigi að byggja upp tengsl milli stjúpforeldis og barns. Verkefnið getur verið nógu flókið fyrir stjúpfjölskyldur að koma á skipulagi sem hentar svo ekki sé verið að flækja það með því að flaska á því grundvallaratriði að eiga samráð við maka.
Hver á að gefa hverjum jólagjöf?
Fyrsta reglan er auðvitað að gefa eftir efnum og það er engin ástæða til að fara í samkeppni við hitt foreldrið um jólagjafirnar. Stundum gefa foreldrar saman gjafir þó svo þeir búa ekki saman og í sjálfu sér engin ástæða til að hætt því komi nýr maki til sögunnar sé um það samkomulag. Það þekkja það margir stjúpforeldrar að eyða lögnum tíma í að velja jólagjafirnar handa stjúpbörnum sínum en þegar þau eru spurð segja þau að gjöfin sé bara frá pabba eða mömmu í stað „pabba og Siggu“ eða „mömmu og Stebba“. Það er ekki laust við að sumir stjúpforeldrar upplifi vanþakklæti stjúpbarna sinna. Sumir stjúpforeldrar hafa kosið að gefa stjúpbörnum sínum sér gjöf og skapað sér með því sérstöðu í pakkaflóðinu. Í sumum tilvikum gefa báðir foreldrar og stjúpforeldrar saman stærri gjafir sem er auðvitað líka í góðu lagi.
Afa og ömmukynslóðin getur verið mikilvæg fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar en það þykir í góðu lagi að eiga nokkur sett af öfum og ömmum. En það getur flækst fyrir stjúpættingjum hvor þeir eigi að gefa börnum gjafir og þá hve stórar. Ágætt er að eiga samráð við foreldra og stjúpforeldra barnanna um jólagjafirnar en ósjaldan getur vanhugsuð ákvörðun um að gefa ekki stjúpbarnabarninu á heimilinu gjöf eða allt annars konar gjöf, valdið særindum að óþörfum. Það má kannski segja að það sé ágæt regla gefa börnum sem eru á sama staða á sama tíma og á svipuðum aldrei sambærilegar gjafir. Það þarf að bæta upp fjarveru foreldra eða afa og ömmu í lífi barna með meiri samveru en ekki gjöfum. Auðvitað skiptir aldur barna máli og eiga eldri börn auðveldra með að skilja að þau fái ekki eins og hin börnin þar sem þau eigi eftir fá gjafir frá hinni fjölskyldunni. Þau kunna hinsvegar að meta að tekið sé eftir þeim og þurfa ekki að fá allt eins. Sumir kjósa að gefa stjúpbörnum fyrrverandi maka smá pakka. Það er hinsvegar aldrei hægt að koma í veg fyrir mismunun og kannski ekki ástæða til þar sem börnin eigi tvær ólíkar fjölskyldur. Mikilvægt er hinsvegar að þau upplifi sanngirni í þeim báðum.
Skilyrðislausar gjafir og jólaföt
Okkur þætti líklega óeðlilegt ef vinkona gæfu okkur geisladisk eða peysu sem við mættum bara nota þegar við værum með henni. Stundum eru börn sett í þá stöðu að mega ekki fara með gjafir á milli heimila og þeim jafnvel ætlað að skilja eftir jólafötin eftir á öðru heimilinu. Oft er ástæða fyrir því að fólk grípi til þessa ráðs þegar föt eða hlutir sjást ekki aftur á heimilu og börnin jafnvel send illa klædd til baka. Auðvitað getur um einfalda gleymsku að ræða en sé um síendurtekna hegðun er ástæða til að bregðast við of finna leið til að bæta samskipti milli heimila. Í slíkum aðstæðum sem öðrum þar sem samskipti eru slæm og jaðrar við „kalt stríð“ bitnar það á líðan barnsins. Ágreiningur foreldra og samviskubit bitnar líka á buddu foreldra en það kostar sitt að eiga tvennskonar gallabuxur eða ipod á tveimur heimilum sem tilheyra sama barni.
Í hvaða jólaboð á að fara?
Það er eins og með annað þá þarf að skipuleggja þessa daga með hagsmuni barnsins að leiðarljósi en það má ekki gleyma því að þau þurfa hvíld eins og aðrir og ekki nauðsynlegt að öll samskipti við vini og ættingja eigi sér stað á örfáum jóladögum. Við höfum líka hina 360 dagana á árinu til þess og margar leiðir eru til að halda jól. Ljóst er að ekki er hægt að vera á sama tíma á tveimur stöðum í einu en það má borða ákveðinn mat, opna pakka eða sprengja flugelda á hvaða degi sem er. Þeim stjúpfjölskyldum sem gengur best sýna sveigjanleika og opna pakka á jóladag þegar barnið er hjá þeim og hafa sitt „gamlárskvöld“ á þrettándanum. Þurfi að velja á milli boða til dæmis hvort barnið fari í jólaboð til nýju tengdaforeldra móður sinnar eða föðurafa og ömmu þá er tel ég eðlilegar að barnið fari til föðurfólksins en nýju stjúpafa –og ömmu. Það má nota aðra tíma til að rækta þau tengsl og svo má líka hafa í huga að þó eitthvað sé með ákveðnum hætti þessi jól þurfi það ekki að vera með sama hætti næstu jól. Mikilvægt er að við séum jafnupptekin af því að styrkja fjölskyldubönd barna og þá um leið tengslanet þeirra, rétt eins og fullorðinna.
Þar er hjálplegt að að láta sér vera meira á sama hvað öðrum finnst að „eigi“ að vera eða gera þegar kemur að stjúpfjölskyldum. Hver og ein stjúpfjölskylda verður að fá að finna út það fjölskyldulíf sem henni hentar og fjölskyldum barna þeirra sem oftast eru tvær. Það þurfa allar fjölskyldur óháð gerð þeirra öðru hvoru að stokka upp í hefðum sínum til að mynda þegar börnin eignast maka og eigin börn. Hefðir eru okkur mikilvægar og skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðum hópi. Það er því ekki vænlegt að skipta öllum eldri hefðum út fyrir nýjar í stjúpfjölskyldum á það við um jólahefðir sem aðrar.
Hvaða matur?
Margir eru með ákveðnar hugmyndir hvað sé jólamatur og hvað ekki. Það er ekkert að því í stjúpfjölskyldum að hafa tvíréttað um jólin sé fólk sátt. Ætla má að það sé meira virði en að annar barnahópurinn upplifi sig útundan þar sem ekkert af þeirra jólahefðum séu virtar og framandleikinn verði allsráðandi. Það má frekar reyna sameinast um nýjan desert eða forrétt – eða hafa forréttinn eins og annar aðilinn hefur alltaf haft það og desertinn eins og hinn aðilinn kýs.
Það eru margar leiðir til að halda jól, en fólk þarf að vera útsjónarsamt og tilbúið til að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman, og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hvoru til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum.
Það er kannski ágætt að spyrja sig „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi