Skip to main content
Flokkur

Hátíðir

Frestaði brúðkaupinu ítrekað vegna foreldra sinna – Mbl Smartland

Eftir Fjölskylda, Hátíðir

Sæl Val­gerður.

Ég er að fara að gifta mig í sept­em­ber, sem ætti að vera mikið gleðiefni. Und­ir­bún­ing­ur­inn geng­ur von­um fram­ar en eina vanda­málið eru for­eldr­ar mín­ir. Þau skildu fyr­ir tólf árum og var skilnaður­inn mjög erfiður og sár­in virðast aldrei ætla að gróa. Þau eiga bæði nýj­an maka og það er nán­ast ómögu­legt að sjá fyr­ir sér þær aðstæður að þau geti hrein­lega hist í brúðkaup­inu en þau hafa bæði sagt að þau komi. Það eru hins veg­ar ótelj­andi hliðar á því sem valda mér kvíða. Satt að segja hef ég frestað því lengi að gifta mig út af þessu ástandi á þeim, en ætla ekki að gera það leng­ur. Hvað get ég gert?

Kveðja,

Helga

Sæl Helga.

Það er sorg­leg staðreynd að sum­ir virðast ekki ná að vinna úr sín­um skilnaði. Sér­stak­lega í ljósi þess að djúp­stæður ágrein­ing­ur er ekki einka­mál for­eldra og hef­ur áhrif á alla þá sem að þeim standa. Rétt eins og þú seg­ir sjálf þá hef­ur þú fram til þessa frestað því að gifta þig út af erfiðum sam­skipt­um þeirra.

Já­kvæðu frétt­irn­ar eru að for­eldr­ar þínir virðast ætla að mæta í brúðkaupið þitt þótt það muni ör­ugg­lega valda þeim kvíða og streitu að óbreyttu. Það má gefa þeim plús fyr­ir það. Mik­il­vægt er að þú og til­von­andi maki þinn haldið ykk­ar striki og leyfið þeim ekki að hafa frek­ari áhrif á áform ykk­ar varðandi brúðkaup. Sjá meira Hér

Þarf ég að gefa dóttur kærustu sonar míns jólagjöf?

Eftir Hátíðir

„Ég veit ekki hvort og þá hvað á að gefa dóttur Selmu, nýju kærustu Kela í jólagjöf. Ég er ekki viss hvort hún teljist sem barnabarn eða ekki, en hún er orðin 12 ára og á bara sínar ömmur. Hvað finnst þér?“, sagði Sigrún í áhyggjufullum tón við Helgu vinkonu sína í þeirra reglulegu kóvít göngu í Elliðaárdalnum.

Sigrún fann hvað það gerði henni gott að hitta vinkonu sína reglulega á röltinu og spjalla. Satt að segja þá öfundaði hún Helgu pínulítið af því að eiga engin fyrrverandi tengdabörn né aukabörn sem fylgdu nýjum tengdabörnum. Skilnaður Kela, sonar hennar hafði breytt miklu varðaði aðgengi hennar barnabörnunum. Þau voru nú í viku hjá honum og svo viku hjá Fjólu, mömmu sinni. Keli var á móti því að Fjóla leitaði til mömmu hans með pössun eða væri að koma til hennar í heimsókn “í tíma og ótíma“ en Sigrúnu sjálfri hafði þótt vænt um það. Barnabörnin voru alltaf barnabörnin hennar, óháð því hjá hvoru foreldrinu þau voru hverju sinni. En Kela fannst það „ekki í lagi að þau Selma væru kannski að hitta Fjólu hjá henni“. Sigrún beið ekki eftir svari Helgu og bætti við „Finnst þér ég þurfi að gefa dóttur Selmu gjafir eins og mínum eigin barnabörnum?“
Óhætt er að segja að skilnaður uppkominna barna hristir oft upp í tilveru afa og ömmu . Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin sem eiga tvö heimili í stað eins, og nýjar spurningar vakna. Má bjóða þeim í mat eða á skauta þegar þau eru hjá fyrrverandi tengdadóttur eða bara þegar þau eru hjá syninum? Mega þau gista eins og áður? Í sjálfu sér þarf eldri kynslóðin ekki leyfi uppkominna barna til að bjóða fyrrverandi tengdadóttur eða -syni í mat með barnabörnin, eða hvort hún megi leyfa þeim að gista að beiðni fyrrverandi tengdadóttur. Hinsvegar á meðan sumum kann að finnast það bara skemmtileg og góð hugmynd, finnst öðrum uppkomnum börnum það vera svik við sig og vilja að haft sé samráð við þau varðandi börn þeirra og samskipti við fyrrverandi maka. Sérstaklega ef samskipti þess við hitt foreldrið eru ekki góð. Það þarf því að finna einhverjar leikreglur sem allir eru sáttir við, en er það efni i annan pistil. En skapist mikill ágreiningur milli uppkominna barna og foreldra er hætta á að samskiptin verða minni við barnabörnin, jafnvel engin í sumum tilvikum. Sem er mikill missir fyrir alla.

Ný tengdabörn með börn

Flestir samgleðjast uppkomnum börnum sínum þegar þeir finna sér nýjan maka, en sumir telja að hlutirnir gerast oft ansi hratt. Stundum eru kröfur gerðar um skjóta aðlögun að nýjum tengdabörnum með börn, á sama tíma og tengsl við eigin barnabörn hafa jafnvel minnkað. Það þurfa allir tíma, bæði börn og fullorðnir til að aðlagast nýjum aðstæðum og til að viðhalda eldri tengslum og búa til ný tengsl. Það er því alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa og faðma stjúpömmu eða -afa bless eins og hin barnabörnin gera eða amma og afi vilji eyða meiri tíma með stjúpbarnbarni en barnabarni. Gefa þarf eldri kynslóðinni tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, og stundum að hrista hópana saman. Þegar fólk hefur myndað tengsl við stjúpbarnabörnin er sjaldnast efi í huga þess hvort það eigi að gefa þeim gjafir eða ekki.
Viðurkenning virkar vel – bæði á fullorðna og börn
Það þarf engin að gefa jólagjafir eða aðrar gjafir, en flestum langar til að gefa barnabörnum sínum gjafir hvort sem þau búa á einu eða tveimur heimilum. Hvað varðar stjúpbarnabörnin, þá er það ekki nokkur vafi í huga margra að þau eigi að fá gjafir eins og hin börnin í fjölskyldunni en aðrir er óvissir, sérstaklega þegar tengsl eru lítið sem engin. Sumum kann að finnast það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, jafnvel þótt börnin eigi sameiginlegt hálfsystkini. Hætta er á að slík viðhorf geti ali á afbrýðisemi í systkinahópnum og deilum milli uppkomins barns og maka þess, sem og milli þess og foreldra.

Ræðum saman

Séum við óviss, má ræða málið við uppkomið barn og tengdabarn. Slíkt samtal gæti mögulega afhjúpað þeirra eigin óvissu um hvort þau/þær/þeir ætli að gefa börnum hvors annars saman eða sitt í hvoru lagi. Jafnvel áfram með hinu foreldrinu „eins og þau hafa alltaf gert“.
Allt er í sjálfu sér „leyfilegt“ en með því að gefa stjúpbarnabarni gjöf, felst viðurkenning á tilvist þess í fjölskyldunni, sem okkur öllum er mikilvægt. Deili börnin jólunum saman er vænlegra að hafa gjafirnar af svipuðum toga. Þegar mikill aldursmunur er á börnunum er ekki víst að stjúpbörnin ætlist til að fá gjafir eða sambærilegar gjafir og hin börnin frá nýjum stjúpöfum og -ömmum.
Besta gjöfin er hinsvegar sú að einsetja sér að gefa stjúpbarnabörnum tíma og athygli, sem og eigin barnabörnum á komandi ári- og þessar áhyggjur eru frá um næstu jól!

Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi, Birt á Mannlif.is

Jól í stjúpfjölskyldum

Eftir Hátíðir

 Stjúptengsl segja ekkert til um gæði tengsla heldur hvernig þau eru til komin.

Jól og áramót er spennandi tími fyrir marga. Skipts er á litríkum pökkun,  farið er í heimsóknir og matarboð til vina og  ættingja, flugeldar sprengdir þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað.  Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði. Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti  við  matarborðið minnir á brostna drauma og fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag eigi og ekki síst sveigjanleika sem er allt annað en eftirgjöf í mínum huga. Sveigjanleiki er hæfni til að breyta þegar nauðsynlegt er til að hlutirnir gangi en með eftirgjöf erum  við að gefa eftir geng betri vitund og fórnum okkur fyrir friðinn.  Hætta er á að það muni koma í bakið á fólki fyrr eða síðar.

Gera þarf ráð fyrir fyrrverandi maka og stjúpforeldri barnanna í skipulagningu jólanna og áramóta en flest börn sem ekki búa með báðum foreldrum eiga tvö heimili,  sem mikilvægt er að mun bæði um jól og á öðrum árstíma. Jafnvel þó fyrrverandi makar skilgreini ekki hvort annað sem hluti af fjölskyldu þeirra eru þeir í fjölskyldu sameignlegra barna.  Í stað þess. Sum börn eiga tvær stjúpfjölskyldur og nokkur setta af öfum og ömmum. Stundum eiga þau líka stjúpafa og – ömmur sem geri skipulag jólasamveru enn flóknara eigi að reyna að koma fyrir matarboðum og heimsóknum til allra.

Samskipti foreldra

Allt þetta kallar á gott samstarf og samráð milli heimila barsins. Mörgum gengur þetta mjög vel og er í raun ekki neitt eitt rétt hvernig á að haga þessu tíma eða hvar börnin eigi að vera. Aðalmálið er að samkomulag sé til staðar og allir leggi sig fram við að gera þennan tíma sem bestan fyrir börnin og þau viti hvað er framundan. Gott að ákveða fyrirfram hvernig hlutirnir verða  og að börnunum sagt frá því „Við mamma þín höfum ákveðið eða …“   eða „Við pabbi þinn höfum ákveðið að …..

Ágætt er að þeir foreldrar sem eiga í erfiðleikum með samskipti sín leiti aðstoðar vina og ættingja til að ferja börnin milli staða ef þeir treysta sér ekki til þess sjálf án þess að neikvæð orðaskipti eigi sér stað. Stundum er nauðsynlegt að leita aðstoðar  fagfólks.  Það  er ágætt að hafa í huga að börn telja ekki  daga og mínútur eins og algengt er hjá foreldrum sem deila, heldur meta þau góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.

Samráð nauðsynlegt

Stundum truflar það samskiptamynstur sem var á milli einhleypra fyrrverandi maka aðlögunar stjúpfjölskyldunnar. Nefna má dæmi um mikla vináttu þar sem varla er pláss fyrir nýja makann í sambandinu eða þegar öll mál eru leyst þeirra á milli án samráðs við makann. Eins og hver eigi að vera hvar, og hvenær um jól og áramót? Algengt er að ef skorti slíkt samráð finni fólk fyrir stjórnleysi í lífinu sem sem elur á pirringi og reiði, stundum vonleysi sem er ekki holt veganesti eigi að byggja upp tengsl milli stjúpforeldis og barns.  Verkefnið getur verið nógu flókið fyrir stjúpfjölskyldur að koma á skipulagi sem hentar svo ekki sé verið að flækja það með því að flaska á því grundvallaratriði að eiga samráð við maka.

Hver á að gefa hverjum jólagjöf?

Fyrsta reglan er auðvitað að gefa eftir efnum og það er engin ástæða til að fara í samkeppni við hitt foreldrið um jólagjafirnar. Stundum gefa foreldrar saman gjafir þó svo þeir búa ekki saman og í sjálfu sér engin ástæða til að hætt því komi nýr maki til sögunnar sé um það samkomulag.  Það þekkja það margir stjúpforeldrar að eyða lögnum tíma í að velja jólagjafirnar handa stjúpbörnum sínum en þegar þau eru spurð segja þau að gjöfin sé bara frá pabba eða mömmu í stað „pabba og Siggu“ eða „mömmu og Stebba“.  Það er ekki laust við að sumir stjúpforeldrar upplifi vanþakklæti stjúpbarna sinna.  Sumir stjúpforeldrar hafa kosið að gefa stjúpbörnum sínum sér gjöf og skapað sér með því sérstöðu í pakkaflóðinu. Í sumum tilvikum gefa báðir foreldrar og stjúpforeldrar saman stærri gjafir sem er auðvitað líka í góðu lagi.

Afa og ömmukynslóðin getur verið mikilvæg fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar en það þykir í góðu lagi að eiga nokkur sett af öfum og ömmum. En það getur flækst fyrir stjúpættingjum hvor þeir eigi að gefa börnum gjafir og þá hve stórar. Ágætt er að eiga samráð við foreldra og stjúpforeldra barnanna um jólagjafirnar en ósjaldan getur vanhugsuð ákvörðun um að gefa ekki stjúpbarnabarninu á heimilinu gjöf eða allt annars konar gjöf,   valdið særindum að óþörfum.  Það má kannski segja að það sé ágæt regla gefa börnum sem eru á sama staða á sama tíma og á svipuðum aldrei sambærilegar gjafir. Það þarf að bæta upp fjarveru foreldra eða afa og ömmu í lífi barna með meiri samveru en ekki gjöfum.  Auðvitað skiptir aldur barna máli og eiga eldri börn auðveldra með að skilja að þau fái ekki eins og hin börnin þar sem þau eigi eftir fá gjafir frá hinni fjölskyldunni.  Þau kunna hinsvegar að meta að tekið sé eftir þeim og þurfa ekki að fá allt eins. Sumir kjósa að  gefa stjúpbörnum fyrrverandi maka smá pakka. Það er hinsvegar aldrei hægt að koma í veg fyrir mismunun og kannski ekki ástæða til þar sem börnin eigi tvær ólíkar fjölskyldur. Mikilvægt er hinsvegar að þau upplifi sanngirni í þeim báðum.

Skilyrðislausar gjafir og jólaföt

Okkur þætti líklega óeðlilegt ef vinkona  gæfu okkur geisladisk eða peysu sem við mættum bara nota þegar við værum með henni. Stundum eru börn sett í þá stöðu að mega ekki fara með gjafir á milli heimila og þeim jafnvel ætlað að skilja eftir jólafötin eftir á öðru heimilinu. Oft er ástæða fyrir því að fólk grípi til þessa ráðs þegar föt eða hlutir sjást ekki aftur á heimilu og börnin jafnvel send illa klædd til baka.  Auðvitað getur um einfalda gleymsku að ræða en sé um síendurtekna hegðun er ástæða til að bregðast við of finna leið til að bæta samskipti milli heimila. Í slíkum aðstæðum sem öðrum þar sem samskipti eru slæm og jaðrar við „kalt stríð“  bitnar það á líðan barnsins. Ágreiningur foreldra og samviskubit bitnar líka á buddu foreldra en það kostar sitt að eiga tvennskonar gallabuxur eða ipod á tveimur heimilum sem tilheyra sama barni.

Í hvaða jólaboð á að fara?

Það er eins og með annað þá þarf að skipuleggja þessa daga með hagsmuni barnsins að leiðarljósi en það má ekki gleyma því að þau þurfa hvíld eins og aðrir og ekki nauðsynlegt að öll samskipti við vini og ættingja eigi sér stað á örfáum jóladögum. Við höfum líka hina 360 dagana á árinu til þess og margar leiðir eru til að halda jól. Ljóst er að ekki er hægt að vera á sama tíma á tveimur stöðum í einu  en það má borða ákveðinn mat, opna pakka eða sprengja flugelda á hvaða degi sem er. Þeim stjúpfjölskyldum sem gengur best sýna sveigjanleika og opna pakka á jóladag þegar barnið er hjá  þeim og hafa sitt „gamlárskvöld“  á þrettándanum. Þurfi að velja á milli boða til dæmis hvort barnið fari í jólaboð til nýju tengdaforeldra móður sinnar eða föðurafa og ömmu þá er tel ég eðlilegar að barnið fari til föðurfólksins en nýju stjúpafa –og  ömmu. Það má nota aðra tíma til að rækta þau tengsl og svo má líka hafa í huga að þó eitthvað sé með ákveðnum hætti þessi jól þurfi það ekki að vera með sama hætti næstu jól. Mikilvægt er að við séum jafnupptekin af því að styrkja fjölskyldubönd barna og þá um leið tengslanet þeirra,  rétt eins og fullorðinna.

Þar er hjálplegt að að láta sér vera meira á sama hvað öðrum finnst að „eigi“ að vera eða gera þegar kemur að stjúpfjölskyldum. Hver og ein stjúpfjölskylda verður að fá að finna út það fjölskyldulíf sem henni hentar og  fjölskyldum barna þeirra sem oftast eru tvær. Það þurfa allar fjölskyldur óháð gerð þeirra öðru hvoru að stokka upp í hefðum sínum til að mynda þegar börnin eignast maka og eigin börn.  Hefðir eru okkur mikilvægar og skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðum hópi. Það er því ekki vænlegt að skipta öllum eldri hefðum út fyrir nýjar í stjúpfjölskyldum á það við um jólahefðir sem aðrar.

Hvaða matur?

Margir eru með ákveðnar hugmyndir hvað sé jólamatur og hvað ekki. Það er ekkert að því í stjúpfjölskyldum að hafa tvíréttað um jólin sé fólk sátt. Ætla má að það sé meira virði en að annar barnahópurinn upplifi sig útundan þar sem ekkert af þeirra jólahefðum séu virtar og framandleikinn verði allsráðandi. Það má frekar reyna sameinast um nýjan desert eða forrétt – eða hafa forréttinn eins og annar aðilinn hefur alltaf haft það og desertinn eins og hinn aðilinn  kýs.

Það eru margar leiðir til að halda jól, en fólk þarf að vera útsjónarsamt og tilbúið til að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman, og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hvoru til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum.

Það er kannski ágætt að spyrja sig „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

 

 

Bara einn fermingardagur – viðtal

Eftir Hátíðir

Deilur fráskilinna foreldra skyldu ætíð látnar lönd og leið á fermingardegi barna og gleði fá í staðinn stærstan sess.

„Aðeins einn dagur í ævi barns heitir fermingardagur. Því þurfa foreldrar að hafa hagsmuni barns síns að leiðarljósi og setja eigin ágreining til hliðar, sé hann til staðar. Við getum haldið mörg jól og farið í mörg sumarfrí, en hvaða sögu viljum við að barn okkar segi af fermingardegi sínum? Minningarnar munu lifa og því skal hafa í huga að deilur foreldra bitna mest á börnunum,“ segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, spurð um heillaráð til handa foreldrum barna sem eiga tvö heimili.

„Stundum er í góðu lagi að halda tvær fermingarveislur, sé samkomulag um það, en æskilegt er að foreldrar geti staðið saman á þessum degi í lífi barnsins. Foreldrar þurfa að vera börnum sínum góð fyrirmynd því deilur fylgja kynslóð eftir kynslóð, og því þroskamerki að geta brotið odd af oflæti sínu til að ná samkomulagi um að halda skemmtilegt boð,“ segir Valgerður og útskýrir að foreldrum beri einnig að hugsa til framtíðar því börn þeirra eigi eftir að gifta sig og eignast fjölskyldu.

„Ætla þeir þá ekki að mæta í brúðkaup barna sinna eða skírn barnabarna af því fyrrverandi maki verður þar líka? Hversu lengi ætla þeir að láta börn sín líða fyrir ágreininginn? Stundum þarf að setja punkt og vinna úr samskiptavandanum ef ekki á að smita komandi kynslóðir, og ef við treystum okkur ekki til að haga okkur eins og manneskjur í einn dag þurfum við að endurskoða margt í sjálfum okkur,“ segir Valgerður, sem ráðleggur fólki að setja sig í spor hins aðilans þegar leysa á deilur.

„Gæta þarf þess að vera ekki eigingjarn þegar ákveða á hverjum og hversu mörgum á að bjóða. Ef fólk upplifir ákveðna samkeppni er skynsamlegt að nýi makinn sýni foreldrunum stuðning og gefi þeim það pláss sem þau þurfa, því fleiri tækifæri munu gefast síðar á lífsleiðinni til að sýna velvilja og stuðning,“ segir Valgerður og leggur einnig áherslu á samráð um fermingargjafir.

„Fermingargjafir eru eign barnsins sem það á að geta tekið milli heimila að vild, sem og fermingarföt sín og fleira,“ segir Valgerður, sem bendir á þriðja aðila, eins og vin, skynsaman fjölskyldumeðlim eða félagsráðgjafa, ef samráð gengur illa.

„Ferming er einstakur atburður og góð skilaboð til barns ef foreldrar geta gefið barninu gjöf saman. Auðvitað mega stjúpforeldrar vera með í gjöfinni, en líka er gott að þeir gefi sér gjöf og skapi sér þannig sérstöðu. Í sameiginlegri gjöf felast skilaboð um að mamma og pabbi séu tilbúin að standa með barni sínu þegar þarf á að halda; alveg sama hvernig hjónabandi þeirra var háttað. Börnum er nauðsynlegt að finna þetta bakland, því baklandið gliðnar oft með tilkomu stjúpfjölskyldna, jafnvel þótt fjölskyldumeðlimum fjölgi.“ -þlg

Ein eða tvær fermingarveislur?

Eftir Hátíðir

Helena var með kvíðahnút í maganum. Hún vissi ekki hvort hún fengi að hitta pabba sinn eða afa og ömmu að athöfn lokinni. Mamma hennar og pabbi töluðu ekki saman. Veislan var aðeins með fólkinu hennar mömmu og stjúpa. Pabbi hennar ætlaði að hafa boð helgina á eftir.

Hvernig fólk haga sínum veisluhöldum er að sjálfsögðu einkamál hvers og eins. Það er ekkert óalgengt að fólk haldi fleiri en eina afmælisveislu fyrir barn, hvort sem foreldrar búa saman eða ekki. Það eru haldin bekkjarafmæli, fjölskylduafmæli og vinaafmæli ef því er að skipta. Af hverju ætti eitthvað annað gilda um fermingarveisluna?

Halda má eina veislu eða fleiri. Aðalatriðið er að barnið og þeir sem að því standa séu sáttir. Hvað svo sem öllum öðrum finnst um fyrirkomulagið.

Óhjákvæmilega er það dýrara að hafa margar veislur en hver og einn verður að gera það upp við sig hvað hann hefur ráð á. Ætli fólki hinsvegar að halda veislu saman þarf að komast að samkomulagi um kostnað, vinnuframlag og þess háttar. Góð regla er að ráðstafa hvorki tíma né peningum annarra án samráðs við viðkomandi vilji fólk eiga góð samskipti. Muna þarf líka eftir að eiga samráð við stjúpforeldra séu þeir til staðar.

Það er örlítið flóknara með ferminguna sjálfa hvort heldur um sé að ræða kirkjulega – eða borgarlega athöfn. Ferming er einstakur atburður og verður ekki endurtekinn. Spurningin er, hvaða minningar viljum við að börnin eigi um athöfnina og það sem henni fylgir?

Rétt eins og langvarandi áhyggjur og ótti hafa neikvæð áhrif á heilsu og velferð barna og fullorðinna, þá hefur það jákvæð áhrif að finna ást og öryggi hjá þeim sem næst okkur standa. Við verðum betur í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem lífið leggur okkur á herðar. Börn læra að verða vongóð í stað þess að líta a sig sem fórnarlömb sem lítil áhrif geta haft á líf sitt.

Skilnaður foreldra er yfirleitt börnum áfall í fyrstu en flest jafna sig smám saman nái foreldrar að leysa sín mál á uppbyggilegan máta. Takist það ekki er líklegt að mikill og langvarandi ágreiningur valdi börnunum streitu og kvíða. Á það líka við um börn sem búa með báðum foreldrum sínum. Erfið samskipti fyrrverandi maka geta líka haft áhrif á aðlögun barna í stjúpfjölskyldum þar sem koma barnsins verður kvíðvænleg vegna þeirra deilna, sem ósjaldan fylgja inn á heimilið.
Þegar deilur eru miklar er börnum stundum bannað að tengjast stjúpforeldri sínu og ræða það sem gerist á öðru heimilinu á hinu heimilinu. Ekki veit ég hvað fullorðnu fólki þætti um að mega hvorki ræða vinnunna eða vinnufélaga sína heima eða fjölskyldu sína í vinnunni? Eða það lenti í sífelldum yfirheyrslum um hvað gerðist á hvorum staðnum um sig. Hvað þá ef það mætti ekki tengjast ákveðnum vinnufélaga sem væri bara viðkunnanleg manneskja?
Hætta er á að foreldrar missi traust barna sinna og staða barnanna verður í senn einmannaleg og flókin. Hvort haldin verði ein eða tvær veislur er því kannski ekki stóra málið fyrir barnið heldur laskað traust til foreldra og stjúpforeldra séu þeir til staðar.

Þegar kemur að athöfninni sjálfri eiga börn ekki annarra kosta völ, mæti báðir foreldra og fjölskyldur, en að hafa þau á sama stað á sama tíma. Það er því mikilvægt að athöfnin sé undirbúin – og þau viti hvað bíði þeirra í stað þess að ala á kvíða og óvissu. Enn er tími til stefnu vilji fólk finna út úr hlutunum og setja má sér það markmið að enda deilur eða a.m.k. finna leið til að lágmarka áhrif þeirra á börnin. Börnin eiga líklega eftir að gifta sig og skíra í framtíðinni og æskilegt að þau séu ekki að glíma við skilnað foreldra sinna langt fram á fullorðins ár – hvað þá ófædd barnabörn.
Þeir sem sjá um athöfnina og undirbúning hennar geta gengt mikilvægu hlutverki í aðstoða forelda og börn sem eru í þessum aðstæðum – það þarf bara að opna umræðuna og sjá hvað hentar hverjum og einum.

Ættum við ekki frekar að hafa áhyggjur af kvíðahnút barnsins en hvort það fær eina eða tvær fermingarveislur?

Valgerður Halldórsdóttir fjölskyldu -og félagsráðghafi MA
www.stjuptengsl.is

Gerum ráð fyrir breytingum- líka um jólin!

Eftir Hátíðir

„Hvernig eigum við að hafa þetta um jólin?“ spurði Einar sambýliskonu sína en þetta voru þeirra fyrstu jól saman. Það vottaði fyrir áhyggjum í röddinni. Hún svarði því til að hún vildi vera hjá foreldrum sínum eins og venjulega. Hann var ekki viss um hvað mömmu hans fyndist um það en hún bjó ein síðan foreldrar hans skildu. Jóladagurinn var alltaf með pabba hans.

Breytingar í lífinu, hvort sem þær teljast af hinu góða eða ekki, kalla gjarnan á uppstokkun hefða og venja sem við erum mis tilbúin til að takast á við. Það á við um jólahefðirnar sem annað. Það sem sumum kann að finnast léttvægt, eins og hvað eiga að borða á aðfangadag, getur öðrum fundist stórmál og talið engin jól vera án hreindýrasteikarinnar hans pabba eða að hnetusteikin hennar mömmu sé á borðum.

Flestir vilja hafa sína nánustu hjá sér og hefur stórfjölskyldan ósjaldan hugmyndir um hvar hver eigi að vera hvar um jólin. Ætli einhver að bregða út af vananum er hætta á að sumir reyna að höfða til samvisku viðkomandi með athugasemdum eins og „við erum alltaf hjá ömmu á jóladag, þú getur ekki sleppt því að koma“ eða „ætlar þú að vera eina systkinið sem ekki ert hjá okkur á aðfangadag?“

Málið getur flækst töluvert ef sambýlingarnir eiga báðir fráskilda foreldra og stjúpforeldra sem líka gera kröfur um að haldið sé í „hefðirnar“. Nú ef sambýlingarnir eiga að auki börn úr öðrum samböndum og koma þarf til móts við þeirra þarfir, sem og foreldra og stjúpforeldra barnanna á hinum heimilum vandast málin enn frekar. Geri allir kröfu um að halda í sínar hefðir krefst skipulagning jólanna líklega doktorsgráðu í stærðfræði sem ég efast að myndi duga til. Líklega þyrfti töfrasprota.

Fjölskylduhefðir og venjur eru yfirleitt okkur mikilvægar. Þær skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðnum hópi. Nærvera okkar og annarra skiptir máli. Þær eru líka mikilvægir þegar tekist er á við sorg og missi; þær eru græðandi og skapa öryggi. Hinsvegar ef við höldum of fast í þær og gerum ekki ráð fyrir eðlilegum breytingum í lífinu geta þær orðið eins og „þröngur og óþægilegur jakki “ sem heftir hreyfingar okkar.

Breytingar eiga sér stað í öllum fjölskyldum. Nýir fjölskyldumeðlimir fæðast og aðrir hverfa á braut, sumir missa heilsuna, aðrir fá stöðuhækkun eða flytja til útlanda. Einhverjir eignast ný tengdabörn, stjúpbörn og stjúpforeldra, á meðan aðrir gifta sig og skilja.Það sem greinir hins vegar á milli fjölskyldna er hvernig er tekist á við þær breytingar sem lífið færir okkur.

Aðlögunarhæfni og sveigjanleiki skiptir sköpum í að finna út úr nýjum aðstæðum. Í sveigjanleikanum felst hæfni til að breyta þegar breytinga er þörf svo halda megi áfram á uppbyggilegan máta. Hann felur hinsvegar ekki í sér að annar aðilinn gefi allar sínar fjölskylduhefðir eftir og aðlagi sig í einu og öllu að hefðum hins aðilans. Rétt eins og hann hafi verið ættleiddur af viðkomandi en ekki farið í sambúð á jafnréttisgrundvelli, þar sem lítið eða ekkert svigrúm er gefið til að rækta eldri tengsl eða lagt sig fram við að búa til nýjar hefðir þar sem gert er ráð fyrir öllum.

Verkefnin sem fylgja breytingum eru auðvitað mis krefjandi. Á barn að fara með móður og nýjum stjúpa í jólaboðið hjá foreldrum stjúpans eða í jólaboðið með pabba hjá föðurömmu og afa sem er á sama tíma? Annars vegar snýst þetta um að búa til tengsl og nýja hefð, hinsvegar að rækta eldri tengsl og fylgja hefð. Við þurfum að finna jafnvægi þar á milli.

Sjálfsagt er það smekksatriði en að mínu mati er eðlilegra, sé það venjan, að barnið fari til föðurafa og -ömmu. Það má nota alla hina 364 dagana á árinu til að og búa til ný tengsl, jafnvel skipuleggja næstu jól á nýjan hátt. Hafa „aðfangadag“ á jóladag og „gamlárskvöld“ á þrettándanum eða halda jólasveinahátíð í júní. Varla flókið sé viljinn fyrir hendi, fólk gerir þetta víða um heim.

Vanti umræðuefni í jólaboðið má kanna tilurð ýmissa fjölskyldhefða sem er verðugt rannsóknarefni í sjálfu sér. Það kemur örugglega ýmislegt áhugavert í ljós. Gerum ráð fyrir breytingum – lífið verður léttara!

 

Höfundur: Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Gerum ráð fyrir breytingum og lífið verður léttara

Eftir Hátíðir

Óhjákvæmilega breytist jólahaldið þegar fólk skilur og stofnar stjúpfjölskyldur,  rétt eins og þegar það fer í sambúð, eignast börn, tengdaforeldra eða tengdabörn. Stokkar þarf upp venjur og hefðir sem fólk er misviljugt eða tilbúið til að takast á við og  búa þarf til nýjar með fólki sem þekkir illa sögu hvers annars. Með sögur lærum við að kynnast okkur sjálfum og öðrum og sköpum líka samfellu og tilfinninguna að tilheyra.

Hvernig eigum við að hafa jólin?

Í sambúð þarf fólk að finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum og ætla má að margir sem eru nú saman sín fyrstu jól velti því fyrir sér hvort og þá hvar eigi að vera á aðfangadagskvöld eða að aðra hátíðisdag?  Að öllum líkindum vill það halda í eitthvað af sínum jólahefðum s.s. að borðaðar eru rjúpurnar sem pabbi skaut eða hnetusteikina hennar mömmu þar sem „ engin jól eru án hennar!“
Stórfjölskyldan hefur líka sínar hugmyndir um hvar parið á að vera um jólin og ætli einhver að bregða út af vananum er hætt á að sumir fái að heyra  „við erum alltaf hjá ömmu á jóladag, þú getur ekki sleppt því að koma“ eða „Ætlar þú að vera eina systkinið sem ekki ert hjá okkur á aðfangadag?“
Málið getur flækst töluvert ef sambýlingarnir eiga báðir fráskilda foreldra og stjúpforeldra sem líka gera kröfur um að haldið sé í „hefðirnar“  (spurning er síðan hvenær?).  Nú ef sambýlingarnir eiga að auki börn úr öðrum samböndum og koma þarf á móts við foreldra og stjúpforeldra barnanna á hinum heimilum,  krefst jólahaldið líklega doktorsgráðu í sáttamiðlum og verkefnastjórnun ef reyna á að koma á móts við þarfir allra um að halda vilja  í hefðirnar.
Það er ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja í lífi fólks. Þær veita okkur öryggi, skapa samfellu í lífinu og tilfinninguna  „að tilheyra“  sem reynst mörgum stjúpfjölskyldum erfitt í fyrstu enda á fólk ólíka sögu sem það þekkir misvel.  Hinsvegar geta þær virkað eins og „þröng og óþægileg peysa“ ef ekki er gert ráð fyrir að „barnið stækki“ eða með öðrum orðum að hlutirnir breytist – alveg óháð fjölskyldugerð.

Sveigjanleiki er lykillinn

Til að geta tekist á við breytingar sem er eðlilegur hluti af lífinu þurfum við að geta sýnt sveigjanleika sem felur í sér þá hæfni til að breyta og breytast til að hlutirnir gangi upp og fólki líði vel – ekki bara sumum.  Að festast í þrasi um hvaða hefð er rétt eða best um jólin kemur fólki ekkert áfram og skemmir fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar sem og annarra fjölskyldna sem eru að fara í gegnum breytingar.  Stundum þurfum við að sætta okkur við aðra eða þriðju skástu lausnina. En ef fólk hefur það í huga að einn af þeim þáttum sem spáir fyrir um hvort samband verði langlíft eða ei er ekki hvort upp komi ágreiningur heldur hæfnin að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt ætti það að vera verðugt áskorunarefni að takast á við að breyta hefðum sem ekki henta lengur.
Verkefnið er stærra hjá stjúpfjölskyldum en mörgum öðrum og mikilvægt er að hafa í huga að halda í þær hefðir sem hægt er að halda í, breyta öðrum og skapa nýjar fyrir stjúpfjölskylduna. Ef það þýðir tvíréttað á aðfangadag eða ef  pabbi og mamma vilja áfram  gefa börnum sínum saman jólagjafir þrátt fyrir að þau eru komin með nýja maka þá er það í góðu lagi. Sumir hafa „gamlárskvöldið“ á þrettándanum  og jólaboðin á aðventunni. Stjúpfjölskyldur rétt eins og aðrar fjölskyldur geta notað alla daga ársins til að skapa hefðir sem þétta hópinn – það er hinsvegar lykilatriði að muna að mörg börn eiga tvö heimili sem taka þarf tillit til sama á hvaða tíma ársins það er. Ef við höfðum það í huga að jólin koma og það eru til margar leiðir til að halda og skapa hefðir – verður lífið bæði léttara og skemmtilegra!

Munum að breytingar eru hluti af lífinu og því eðlilegt að hefðir breytast og nýjar verða til.

• Hvernig við höldum upp á jól og aðrar hátíðir – er valkvætt.
• Leyfum okkur að prófa – höldum í það sem okkur líkar en sleppum örðu.
• Í stjúpfjölskyldum eru nokkur „við“ sem er fullkomlega eðlilegt – sérstaklega í fyrstu.
• Kynnum okkur sögu hvers annars – það má gera með því t.d. að setja spurningar undir diska í jólaboðunum eða hafa myndaalbúmin aðgengileg.  Við munum komast að mörgu óvæntu og skemmtilegu.
• Hefðir eru mikilvægur þáttur í að takast á við sorg og missi, þau eru græðandi og  það sama á við um nýjar hefðir í nýjum aðstæðum.
• Höldum í þær hefðir sem hjálpa og sleppum öðrum.

Valgerður Halldórsdóttir félags-og fjölskylduráðgjafi, MA

„MIKILVÆGT AÐ BÖRN EIGI ÁTAKALAUS JÓL“ Viðtal

Eftir Hátíðir

„Hvernig eigum við að hafa þetta um jólin?“ er spurning sem margir í stúptengslum þekkja vel. Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, þekkir þetta af eigin raun og í daglegu starfi sínu. Hún segir sveigjanleika og útsjónarsemi vera afar mikilvæg er kemur að samveru stjúpfjölskyldna á hátíðum eins og framundan eru.  

Fyrir marga sem gengið hafa í gegnum skilnað eða sambúðarslit minnir tómi stóllin við matarborðið á brostna drauma eða fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er jafnvel sestur nýr aðili og kannski þarf fleiri stóla við borðið. Með breytingum fylgja nýjar hefðir sem getur tekið mislangan tíma að aðlagast. „Ég er fædd á jóladag og foreldrar mínir lögðu á það áherslu, bæði fyrir og eftir skilnað þeirra, að halda upp á afmæli mitt. Lengi vel hafði aðeins verið eitt boð í minni fjölskyldu þennan dag. Allt í einu voru þau orðin þrjú. Fjölgun jólaboðana í fyrstu hafi ekkert með það að gera að ég hafði gifst og eignast tengdafjölskyldu. Ég hafði eignast stjúpforeldra báðum megin rúmlega tvítug,“ segir Valgerður. 

Bjó til nýjar eigin hefðir

Valgerður fékk léttan kvíðahnút og samviskubit yfir því hve södd hún var, þegar hún mætti í jólaboð foreldra og stjúpforeldra sinna og hélt afmælisveislu sama daginn. Hún þakkaði fyrir í huganum að fyrrum tengdaforeldrar hennar voru enn giftir hvor öðrum og bjuggu auk þess úti á landi. „Eftir ein jólin safnaði ég í mig kjarki og sagðist framvegis vilja vera heima hjá mér á jóladag. Ef fólk vildi hitta mig á afmælisdaginn minn væri það auðvitað velkomið í heimsókn. Ég gat ekki fylgt áfram jóla- og afmælishefðum sem foreldrar mínir höfðu búið til þegar ég var barn. Það merkilega var að ég þurfti kjark til að breyta. Ég bjó bara til nýjar hefðir, mínar hefðir.“

Nýtt skipulag og sveigjanleiki

Valgerður tekur fram að ekki sé þó hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja. Þær skapi samfellu í lífinu og tilfinninguna að tilheyra sem sé öllum mikilvæg. „Breytingar kalla á nýtt skipulag og sveigjanleika. Gera þarf ráð fyrir að fyrrverandi mökum og stjúpforeldrum í skipulagningu hátíða sem fólk er mistilbúið til. Það skiptir börn miklu máli að eiga átakalaus jól með sínum nánustu. Þegar börn eiga foreldra á tveimur heimilum og kannski stjúpforeldra á þeim báðum er nánast öruggt að þau skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en foreldar þeirra. Skoðanir og þarfir barna eru því stundum aðrar en foreldris eða stjúpforeldris þegar kemur að jólaboðunum, gjöfum og öðru. Það þarf að vera vilji til að finna lausn sem hentar öllum, ekki bara sumum. Stundum er jafnvel óskað eftir nærveru barna á fleirum en einu stað á sama tíma.“

Þarf ekki að gera allt saman

Valgerður segir að ágætt sé að hafa í huga að margar leiðir séu til að halda jól. „Það þarf að vera tilbúinn að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Skapa góðar minningar og sýna hvert öðru umhyggju. Börn þurfa hvíld og það má líka nota alla hina daga ársins til að rækta tengsl og skapa nýjar hefðir. Hæfni til að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt er mikilvægast af öllu.“ Það séu margar leiðir til að halda jól, en fólk þurfi að vera útsjónarsamt. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hverju til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum. Svo er alltaf ágætt að spyrja sig: „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“

 Mynd/OBÞ Tekið af https://hafnfirdingur.is/

Jólaskipulagið er öðruvísi í stjúpfjölskyldum – MBL.is

Eftir Hátíðir

Gísli Ólafs­son er tveggja barna faðir sem legg­ur áherslu á að njóta jól­anna í faðmi fjöl­skyld­unn­ar. Hann seg­ir skýr­an ramma og vænt­umþykju mik­il­væga á jól­un­um og mæl­ir með því að setja börn­in í for­grunn um jól­in. Gísli býr í Laug­ar­daln­um ásamt unn­ustu sinni Helenu og börn­um þeirra tveim­ur. Gísli á son­inn Þórð Óla, sex ára, og stjúp­dótt­ur­ina Vikt­oríu, átta ára. Hann er for­stöðumaður á frí­stunda­heim­ili og hef­ur unnið með börn­um og ung­ling­um á frí­stunda­heim­il­um og fé­lags­miðstöðvum hjá Reykja­vík­ur­borg síðastliðin tíu ár. Hann seg­ir að jól­in séu fjöl­skyldu­hátíð.  Lesa má viðtalið í heild sinni hér

Instagram