Stjúptengsl segja ekkert til um gæði tengsla heldur hvernig þau eru til komin.
Jól og áramót er spennandi tími fyrir marga. Skipts er á litríkum pökkun, farið er í heimsóknir og matarboð til vina og ættingja, flugeldar sprengdir þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað. Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði. Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti við matarborðið minnir á brostna drauma og fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag eigi og ekki síst sveigjanleika sem er allt annað en eftirgjöf í mínum huga. Sveigjanleiki er hæfni til að breyta þegar nauðsynlegt er til að hlutirnir gangi en með eftirgjöf erum við að gefa eftir geng betri vitund og fórnum okkur fyrir friðinn. Hætta er á að það muni koma í bakið á fólki fyrr eða síðar.
Gera þarf ráð fyrir fyrrverandi maka og stjúpforeldri barnanna í skipulagningu jólanna og áramóta en flest börn sem ekki búa með báðum foreldrum eiga tvö heimili, sem mikilvægt er að mun bæði um jól og á öðrum árstíma. Jafnvel þó fyrrverandi makar skilgreini ekki hvort annað sem hluti af fjölskyldu þeirra eru þeir í fjölskyldu sameignlegra barna. Í stað þess. Sum börn eiga tvær stjúpfjölskyldur og nokkur setta af öfum og ömmum. Stundum eiga þau líka stjúpafa og – ömmur sem geri skipulag jólasamveru enn flóknara eigi að reyna að koma fyrir matarboðum og heimsóknum til allra.
Samskipti foreldra
Allt þetta kallar á gott samstarf og samráð milli heimila barsins. Mörgum gengur þetta mjög vel og er í raun ekki neitt eitt rétt hvernig á að haga þessu tíma eða hvar börnin eigi að vera. Aðalmálið er að samkomulag sé til staðar og allir leggi sig fram við að gera þennan tíma sem bestan fyrir börnin og þau viti hvað er framundan. Gott að ákveða fyrirfram hvernig hlutirnir verða og að börnunum sagt frá því „Við mamma þín höfum ákveðið eða …“ eða „Við pabbi þinn höfum ákveðið að …..
Ágætt er að þeir foreldrar sem eiga í erfiðleikum með samskipti sín leiti aðstoðar vina og ættingja til að ferja börnin milli staða ef þeir treysta sér ekki til þess sjálf án þess að neikvæð orðaskipti eigi sér stað. Stundum er nauðsynlegt að leita aðstoðar fagfólks. Það er ágætt að hafa í huga að börn telja ekki daga og mínútur eins og algengt er hjá foreldrum sem deila, heldur meta þau góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.
Samráð nauðsynlegt
Stundum truflar það samskiptamynstur sem var á milli einhleypra fyrrverandi maka aðlögunar stjúpfjölskyldunnar. Nefna má dæmi um mikla vináttu þar sem varla er pláss fyrir nýja makann í sambandinu eða þegar öll mál eru leyst þeirra á milli án samráðs við makann. Eins og hver eigi að vera hvar, og hvenær um jól og áramót? Algengt er að ef skorti slíkt samráð finni fólk fyrir stjórnleysi í lífinu sem sem elur á pirringi og reiði, stundum vonleysi sem er ekki holt veganesti eigi að byggja upp tengsl milli stjúpforeldis og barns. Verkefnið getur verið nógu flókið fyrir stjúpfjölskyldur að koma á skipulagi sem hentar svo ekki sé verið að flækja það með því að flaska á því grundvallaratriði að eiga samráð við maka.
Hver á að gefa hverjum jólagjöf?
Fyrsta reglan er auðvitað að gefa eftir efnum og það er engin ástæða til að fara í samkeppni við hitt foreldrið um jólagjafirnar. Stundum gefa foreldrar saman gjafir þó svo þeir búa ekki saman og í sjálfu sér engin ástæða til að hætt því komi nýr maki til sögunnar sé um það samkomulag. Það þekkja það margir stjúpforeldrar að eyða lögnum tíma í að velja jólagjafirnar handa stjúpbörnum sínum en þegar þau eru spurð segja þau að gjöfin sé bara frá pabba eða mömmu í stað „pabba og Siggu“ eða „mömmu og Stebba“. Það er ekki laust við að sumir stjúpforeldrar upplifi vanþakklæti stjúpbarna sinna. Sumir stjúpforeldrar hafa kosið að gefa stjúpbörnum sínum sér gjöf og skapað sér með því sérstöðu í pakkaflóðinu. Í sumum tilvikum gefa báðir foreldrar og stjúpforeldrar saman stærri gjafir sem er auðvitað líka í góðu lagi.
Afa og ömmukynslóðin getur verið mikilvæg fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar en það þykir í góðu lagi að eiga nokkur sett af öfum og ömmum. En það getur flækst fyrir stjúpættingjum hvor þeir eigi að gefa börnum gjafir og þá hve stórar. Ágætt er að eiga samráð við foreldra og stjúpforeldra barnanna um jólagjafirnar en ósjaldan getur vanhugsuð ákvörðun um að gefa ekki stjúpbarnabarninu á heimilinu gjöf eða allt annars konar gjöf, valdið særindum að óþörfum. Það má kannski segja að það sé ágæt regla gefa börnum sem eru á sama staða á sama tíma og á svipuðum aldrei sambærilegar gjafir. Það þarf að bæta upp fjarveru foreldra eða afa og ömmu í lífi barna með meiri samveru en ekki gjöfum. Auðvitað skiptir aldur barna máli og eiga eldri börn auðveldra með að skilja að þau fái ekki eins og hin börnin þar sem þau eigi eftir fá gjafir frá hinni fjölskyldunni. Þau kunna hinsvegar að meta að tekið sé eftir þeim og þurfa ekki að fá allt eins. Sumir kjósa að gefa stjúpbörnum fyrrverandi maka smá pakka. Það er hinsvegar aldrei hægt að koma í veg fyrir mismunun og kannski ekki ástæða til þar sem börnin eigi tvær ólíkar fjölskyldur. Mikilvægt er hinsvegar að þau upplifi sanngirni í þeim báðum.
Skilyrðislausar gjafir og jólaföt
Okkur þætti líklega óeðlilegt ef vinkona gæfu okkur geisladisk eða peysu sem við mættum bara nota þegar við værum með henni. Stundum eru börn sett í þá stöðu að mega ekki fara með gjafir á milli heimila og þeim jafnvel ætlað að skilja eftir jólafötin eftir á öðru heimilinu. Oft er ástæða fyrir því að fólk grípi til þessa ráðs þegar föt eða hlutir sjást ekki aftur á heimilu og börnin jafnvel send illa klædd til baka. Auðvitað getur um einfalda gleymsku að ræða en sé um síendurtekna hegðun er ástæða til að bregðast við of finna leið til að bæta samskipti milli heimila. Í slíkum aðstæðum sem öðrum þar sem samskipti eru slæm og jaðrar við „kalt stríð“ bitnar það á líðan barnsins. Ágreiningur foreldra og samviskubit bitnar líka á buddu foreldra en það kostar sitt að eiga tvennskonar gallabuxur eða ipod á tveimur heimilum sem tilheyra sama barni.
Í hvaða jólaboð á að fara?
Það er eins og með annað þá þarf að skipuleggja þessa daga með hagsmuni barnsins að leiðarljósi en það má ekki gleyma því að þau þurfa hvíld eins og aðrir og ekki nauðsynlegt að öll samskipti við vini og ættingja eigi sér stað á örfáum jóladögum. Við höfum líka hina 360 dagana á árinu til þess og margar leiðir eru til að halda jól. Ljóst er að ekki er hægt að vera á sama tíma á tveimur stöðum í einu en það má borða ákveðinn mat, opna pakka eða sprengja flugelda á hvaða degi sem er. Þeim stjúpfjölskyldum sem gengur best sýna sveigjanleika og opna pakka á jóladag þegar barnið er hjá þeim og hafa sitt „gamlárskvöld“ á þrettándanum. Þurfi að velja á milli boða til dæmis hvort barnið fari í jólaboð til nýju tengdaforeldra móður sinnar eða föðurafa og ömmu þá er tel ég eðlilegar að barnið fari til föðurfólksins en nýju stjúpafa –og ömmu. Það má nota aðra tíma til að rækta þau tengsl og svo má líka hafa í huga að þó eitthvað sé með ákveðnum hætti þessi jól þurfi það ekki að vera með sama hætti næstu jól. Mikilvægt er að við séum jafnupptekin af því að styrkja fjölskyldubönd barna og þá um leið tengslanet þeirra, rétt eins og fullorðinna.
Þar er hjálplegt að að láta sér vera meira á sama hvað öðrum finnst að „eigi“ að vera eða gera þegar kemur að stjúpfjölskyldum. Hver og ein stjúpfjölskylda verður að fá að finna út það fjölskyldulíf sem henni hentar og fjölskyldum barna þeirra sem oftast eru tvær. Það þurfa allar fjölskyldur óháð gerð þeirra öðru hvoru að stokka upp í hefðum sínum til að mynda þegar börnin eignast maka og eigin börn. Hefðir eru okkur mikilvægar og skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðum hópi. Það er því ekki vænlegt að skipta öllum eldri hefðum út fyrir nýjar í stjúpfjölskyldum á það við um jólahefðir sem aðrar.
Hvaða matur?
Margir eru með ákveðnar hugmyndir hvað sé jólamatur og hvað ekki. Það er ekkert að því í stjúpfjölskyldum að hafa tvíréttað um jólin sé fólk sátt. Ætla má að það sé meira virði en að annar barnahópurinn upplifi sig útundan þar sem ekkert af þeirra jólahefðum séu virtar og framandleikinn verði allsráðandi. Það má frekar reyna sameinast um nýjan desert eða forrétt – eða hafa forréttinn eins og annar aðilinn hefur alltaf haft það og desertinn eins og hinn aðilinn kýs.
Það eru margar leiðir til að halda jól, en fólk þarf að vera útsjónarsamt og tilbúið til að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman, og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hvoru til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum.
Það er kannski ágætt að spyrja sig „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi