Skip to main content
Flokkur

Börn og ungmenni

Eru til fyrrverandi börn – eins og fyrrverandi maki?

Eftir Börn og ungmenni

Ég þoli ekki hvernig stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi og vill ekki segja hvað er að þegar hann er hjá okkur. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu og leiðindum. Af hverju ætti hann að fá einhverja aðra athygli eða þjónustu en hin börnin á heimilinu? Ég er viss um að mamma hans talar illa um okkur.

Það sannarlega til að foreldri tali illa um stjúpforeldri og fyrrum maka í eyru barns. Illt umtal og langvarandi ágreiningur foreldra er barni skaðlegur. Líkur eru á að barn hætti að treysta foreldrum sínum fyrir líðan sinni ef það verður til þess að deilur þeirra magnast og geri hlutina jafnvel enn verri en áður. Yfirsýn foreldris yfir líf barna sinna minnkar enn frekar. Fyrir utan að börnin dvelji kannski aðra hvora viku á heimili fyrrverandi maka og hans maka eru líkur á að foreldrar fái hvorki að vita um gleðistundir eða erfiðleika sem tengjast hinu heimilinu. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“. Í stað þess að vera með puttann á hinu foreldrinu og maka þess má kannski spyrja sig, hvað er í mínu valdi til að bæta samskiptin barnanna minna vegna? Nú svo er fátt meira óspennandi og dregur allt súrefnið úr parasambandinu en deilur maka við hans/hennar fyrrverandi. Takist fólki ekki að finna út úr deilunum sjálft má alltaf leita til fagfólks.

Það getur hinsvegar verið gagnlegt að áður en „fyrrverandi“ er dreginn inn í samtalið og honum kennt um hvernig gangi að skoða með opnum huga aðstæður barna á eigin heimili. Sérstaklega í ljósi þess að það reynist mörgum börnum erfiðara að verða hluti af stjúpfjölskyldu en skilnaður foreldra. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en jafnvel þó svo að börnum líki ágætlega við stjúpforeldri sitt upplifa þau margvíslegan missi. Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, það sé ekki gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt, foreldrið virðist vera undir hælnum á stjúpforeldrinu og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu nýjar reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli þeirra og annarra barna sem tilheyra fjölskyldunni. Auk þess sem þau fái síður að vita „hvað er í gangi“ á heimilinu en hálf – og stjúpsystkini þeirra. En efinn um ást foreldris og að það standi með því þegar á þarf að halda, reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Finni þau sig velkomin og eru örugg um ást foreldrisins og vingjarnlegt viðmót stjúpforeldrisins eru meiri líkur á að þau aðlagist vel. Börn sem sýna hinsvegar erfiða hegðun lenda sum í hlutverki blórabögguls á heimilinu. Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum, um að eitthvað sé að barninu. Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn“ vandans komi hann upp, felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið. Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum er vert að hafa í huga að stærsti hluti þeirra hafa áður upplifað missi og breytt tengsl við foreldra sína, sérstaklega við feður.

boð

Koma börnin aðeins boðin?

Eftir Börn og ungmenni

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við pabba þegar hann hringir. Það er oft svo vandræðaleg þögn í símanum þegar hann er búinn að spyrja um þetta vanalega: Hvernig er í skólanum? Alltaf í fótboltanum? Það er meira eins og að hann hringi af skyldurækni en að honum langi til þess“ sagði Palli við mömmu sína.

Einu sinni fannst honum að hann skipti pabba sinn máli en það er langt síðan. Allur tími pabba hans fór í vinnu, Heru og hennar fjölskyldu sem hann var ekki hluti af. Honum fannst pabbi sinn hafa svikið sig.

„Ég reyni að vera í sambandi við Palla, en hann er alltaf svo upptekin þegar ég hringi og ekki hringir hann í mig. Það er kannski ekki skrýtið enda á lokaári í menntaskóla og upptekinn af vinunum. Mér sýnist á feisbúkk að hann sé kominn með kærustu, en er ekki viss. Skrýtið hvernig hlutirnir þróast, við sem vorum svo nánir“ sagði pabbi Palla við Heru. Honum fannst eins og að hann væri að horfa á líf fjara út þegar hann fann hvernig tengslinn milli þeirra feðga voru að rofna. Hann varð hræddur.
Áhrif skilnaðar á tengsl uppkominna barna og foreldra

Í huga flestra eru börnin okkar eru alltaf börn okkar, líka þegar þau verða fullorðin. Hinsvegar breytast samskiptin og áhyggjurnar verða aðrar. Þó stóru börnin þurfi ekki daglega leiðsögn foreldra skiptir þau áfram máli að finna ást, hlýju og stuðning þeirra. Foreldrar uppkominn barna veita þeim oft mikilvægan tilfinningalegan – og ekki síður hagnýtan stuðning eins og húsnæði, peninga og pössun barnabarna. Fyrir utan allar góðu stundirnar sem hægt er að eiga saman. Vonandi njóta síðan foreldrar stuðnings þeirra á efri árum þegar þar að kemur. Það er hinsvegar ekki alltaf hægt að ganga að gagnkvæmum stuðningi eins vísum, ef til skilnaðar kemur.
Rannsóknir sýna að skilnaður foreldra í æsku getur haft áhrif á tengsl foreldra og barna á fullorðinsárum. Jafnvel þó skilnaðir eru jafn algengur og þeir eru, hefur tengslarof milli foreldra og barna í kjölfar skilnaðar fengið of litla athygli.

Þekktustu ástæður þess að foreldri og barn missa tengsl er þegar annað foreldrið meinar hinu að hafa samskipti við barnið með tálmunum eða þegar foreldrar eiga í miklum og langvarandi deilum eftir skilnað. Hætt er á að tengsl barna við foreldra skaðist í deilum. Þau læra smá saman að ekki er hægt að treysta þeim fyrir líðan sinn og löngunum án þess að þær virki eins og olía á eld í deilum þeirra.

Börnin láta þá gjarnan í ljós vanlíðan sína með erfiðri hegðun eða með því loka allt inni. Þetta mjög einmannaleg og skaðleg staða fyrir barn og elur á kvíða og óöruggi. Stundum langt fram á fullorðins ár. „Mig hefur alltaf dreymt um að gifta mig en satt að segja hef ég alltaf frestað því, þar sem ég veit ekki hvernig mamma og pabbi munu haga sér“ sagði ung kona við mig um daginn, sem var fórnarlamb forsjárdeilu fyrir 19 árum.

Mikilvægt er að foreldrar fái aðstoð við að leysa deilur sínar með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ég efast hinsvegar um að að það sé heppilegast leiðin að fá lögfræðinga til að leysa samskiptavanda foreldra. Í mörgum tilvikum ætti að meðhöndla slíkar deilur sem barnaverndarmál. Andleg líðan foreldra í þessum aðstæðum er of mjög slæm og getur m.a. bitnað starfi þeirra, heilsu og foreldrahæfni. Eða eins og ein mamman sagði „ég er aldrei eins léleg mamma og þegar þegar ég hef rifist við minn fyrrverandi“.

Góð samskipti foreldra en slitrótt tengsl

Oft eiga foreldra ágæt samskipti eftir skilnað og aðlagast lífinu vel sem einhleypir foreldrar. Þegar hlutirnir róast, upplifa börn oft góðan tíma með foreldrum sínum eftir skilnað. Þau fá oft óskipta athygli og tíma foreldra. Sumir einhleypir foreldrar falla í þá gryfju að eiga ýmisskonar samráð við börn sín um hluti sem þeir áttu áður við maka sinn eins og hvað eigi að kaupa í matinn eða fara í frí. Sum taka upp á því að sofa aftur upp í, þó þau hafi verið löngu hætt því fyrir skilnað. Flest börn kunna vel að meta þessar breytingar. Hinsvegar er óvíst að þau verði jafn spennt þegar foreldri þeirra fer í nýtt sambandi og nýja kærastan eða kærastinn vill hafa eitthvað um það að segja hvað er í kvöldmatinn. Eftir skilnað verða til nýjar venjur í lífi foreldris og barna. Sund á föstudögum, bíóferðir eða göngutúr með hundin svo eitthvað sé nefnt. Svona venjum er hinsvegar mikilvægt aðl halda áfram í nýju sambandi.

Þegar barn fær tíma og athygli er engin ástæða að efast um um ást foreldris. Það finnur að það skiptir máli, er öruggt með tengslin og getur leitað til foreldris í gleði og sorg. Á þessum tímapunkti er lítið sem bendir til að tengslin sem fráskildir foreldra óttasta hvað mest að missa, geti breyst. Jafnvel þó komi að því unglingurinn vilji að vera meira á öðru heimilinu en hinu, vill hann áfram báða foreldra í lífi sínu. Það þarf bara að finna nýjan takt sem passar.

Finnum ástina – og töpum barninu?

Sem betur fer missum við ekki trú á ástinni þó svo við förum í gegnum skilnað. Flest okkar fara í samband á ný og sum fleiri en eitt. Þegar vel tekst til geta stjúptengsl verið góð viðbót og gert líf bæði foreldra og barna innihaldsríkara en ella. Rannsóknir benda reyndar til að aðlögun að stjúpfjölskyldu krefst tíma og er oft meiri áskorun fyrir börn, en að aðlagast skilnaði foreldra. Þar sem flækjustigið er töluvert hærra, mælist oft meiri streita og álag í stjúpfjölskyldum en í kjarnafjölskyldum.

Ýmsar ástæður geta legið þar að baki. Ætla má að það sem skiptir mestu máli, eru þau áhrif sem stjúptengsl geta haft á tengsl foreldra og barna. Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að börn sem hafa upplifað skilnað foreldra sinna fá minni fjárhagslegan og tilfinningalegan stuðning en þau sem búa með báðum foreldrum sínum. Erlendar rannsóknir sýna jafnframt að fráskildir feður sem fara í samband að nýju, eiga sjaldnar samskipti við börn sín úr fyrra sambandi og veita þeim síður fjárhaglega aðstoð en fráskyldir einhleypir feður. Stundum réttlæta foreldrar og stjúpforeldrar minni stuðning og afskiptaleysi með því að börnin eru orðin svo stór eða fullorðin að þau þurfi ekki á þeim að halda. Það sama virðist ekki eiga við um sameiginleg börn þeirra eða þau sem teljast búa á heimilinu skv. rannsóknum.

Það er því ekki óeðlilegt að barn, geti efast um ást foreldrisins og um mikilvægi sitt í lífi þess þegar fókus foreldrisins fer nánast alfarið á nýjan maka , sem jafnvel tekur heimilið og foreldrið „yfir“ af mikilli röggsemi. Þau fá ekki upplýsingar eða þeim ekki boðið með í sumarfrí eða annað. Stutt er í reiði, höfnun og að barn viliji forðist aðstæður ef ekkert er að gert. Yngri börn ráða oftast engu um veru sína og þurfa að hlýða ákvörðunum foreldra sinna hvar þau eru hverju sinni. Fullorðin börn geta komið og farið að vild. Það má því velta fyrir sér, ef uppkomnu börnin okkar koma aðeins þegar þeim er boðið – hvort við megum leggja okkur meira fram við að rækta tengslin? Maður á mann samskipti eru mikilvæg, líka fullorðnum börnum.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamiðlari

 

Börn hafa plön!

Eftir Börn og ungmenni

Ertu hjá pabba þínum eða mömmu um helgina?“ spurði Anna Helgu vinkonu sína sem svaraði því til að hún yrði hjá pabba sínum frá föstudegi til fimmtudags. Anna gat ekki leynt vonbrigðum sínum og spurði hvort hún yrði að fara. „Já þetta er vikan hans pabba“ svarði Helga sem hlakkaði til að hitta hann, en hún vildi líka leika við Önnu. Hún þekkti engan í nýja hverfinu hans pabba en hann hafði kynnst konu sem átti börn og vildi hún ekki flytja úr sínu hverfi. Það gekk vel hjá börnunum hennar í skólanum og svo bjó pabbi þeirra líka í sama hverfi.

Ástin spyr ekki um skólahverfi

Ástin spyr ekki um skólahverfi barnanna en hún getur flækt veruleiki barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum. Fyrir utan þá staðreynd að þau sjálf þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum þá þurfa vinir þeirra að gera það líka. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir vinina og foreldra þeirra að átta sig á hvar þau eru frá dag til dags eða við hvern á að hafa samband þegar á þarf að halda. Eiga þeir að tala við báða foreldra eða á að vera í sambandi við stjúpforeldrið – annað eða bæði?

Vinátta er mikilvæg 

Vinátta er börnum mikilvæg. Vinir eru ekki eingöngu uppspretta skemmtunar, þeir eru líka ómetanlegur stuðningur þegar á móti blæs. Þó vináttusambönd grunnskólabarna eru sterk eru þau ekki alltaf þau áreiðanlegustu. Til að vinatengslin haldi þarf sífellt að endurnýja þau. Meiri hætta er á að besti vinurinn snúi sér eitthvað annað ef aðeins er hægt að leika eftir skóla aðra hvora viku, með tilheyrandi sorg og vanlíðan. Að vera útundan í vinahópnum er vond tilfinning – en hún er líka algeng í stjúpfjölskyldum í fyrstu. Það er því mikilvægt að foreldrar styðji börn sín og auðveldi þeim að hitta reglulega vini sína óháð því hvort vinirnir eru í pabbahverfi eða mömmuhverfi. Aðeins hluti barna búa í göngufæri við báða foreldra sína en í rannsókn á íslenskum ungmennum frá 2008 kom í ljós að aðeins 20% barna bjó í göngufæri við báða foreldra sína, 45% í 10-30 mínútna akstursfjarlægð og 35% í mikilli fjarlægð.

Sum hætta íþrótta- og tómstundastarfi

 

Fjarlægðir kalla á að báðir foreldrar séu tilbúnir stundum til að skutla börnum sínum á milli hverfa og að þeir kenni þeim á strætó þegar þau hafa aldur til. Séu heimilin opin fyrir vinum barnanna og þeim stundum boðið með í heimsókn og ferðir, auðveldar það þeim að halda vináttunni gangandi og aðlögun í nýjum aðstæðum. Það þarf líka að tryggja að börn komist áfram í tómstundir og í íþróttir óháð hvar þau eru hverju sinni. Rannsóknir benda til að meiri líkur eru á því að börn hætti íþróttastarfi hafi vinir þeirra hætt að mæta svo hér hafa allir foreldrar og börn óháð fjölskyldugerð, hagsmuna að gæta.

Við þurfum að taka höndum saman. Það eru ekki bara skólar, íþróttafélög eða foreldrar sem hafa plön – börn hafa þau líka. Spurningin er hvort við áttum okkur alltaf á því?

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Fæðist barnið í pabbavikunni?

Eftir Börn og ungmenni

Óhætt er að fullyrða að börn taka fréttir um væntanleg systkini  misvel.  Sum kæra sig ekki um neinar breytingar og kunna því vel að fá ein alla ást og athygli foreldra sinna á meðan önnur bíða spennt eftir  að verða stóra systir eða stóri bróðir. Jafnvel þó spenningur sé fyrir hendi eru nokkuð góðar líkur á afbrýðissemi  eldri systkina þegar barnið er fætt.  Sum eru líka kvíðin á meðgöngunni og óttast hreinlega að foreldrarnir muni gleyma þeim þegar þar að kemur.   Flestir foreldrar  eru meðvitaðir um líðan barna sinna og  leyfa þeim að taka þátt í undirbúningunum og  umönnun nýburans eins og kostur er.  Ekki vilja foreldrarnir að eldra barn þeirra  finni sig útundan þó það eignist systkini.  Ætla má að það sama eigi við um foreldra  sem komnir eru í nýtt samband og eiga barn með stjúpforeldri barna sinna.  Stundum er sameiginlega barnið í stjúpfjölskyldunni kallað „límið“ eða „litli brúarsmiðurinn“.  Ástæðurnar eru einkum tvær. Annars vegar sú að allir fjölskyldumeðlimir tengjast  því líffræðilegum böndum og hins vegar  er sameignlegt barn talið geta gefið fólki ástæðu til að halda út erfið tímabil í stjúpfjölskyldunni  í stað þess að gefast upp og halda hvort í sína áttina.

Eins og gefur að skilja eru hálfsystkinin í annarri stöðu en „litli brúarsmiðurinn“  á heimilinu þar sem þau eiga foreldra á tveimur heimilum.  Oft eiga þau líka stjúpforeldra, hálf- og stjúpsystkini á þeim báðum.  Mörg börn eignast því hálf-   og stjúpsystkini án þess að það komi öðru foreldri þeirra nokkuð við í sjálfu sér. Stundum á báðum heimilum  á sama tíma. Það er því ekki víst að alltaf sé sami skilningur á þörfum hálfsystkina  og svo alsystkina þau eignast systkini .

Hálfsystkinið,  þarf ekki  minni skilning og en  önnur börn. Sumum finnst staða sín í fjölskyldunni veikjast,   þar sem nýja barnið á bæði pabba og mömmu á heimilinu og kann það að vera rétt í sumum tilvikum. Algengt er að pörum finnst „ allt“  mun auðveldara sem snýr að sameiginlegu barni þeirra en þeim sem þau eiga úr fyrra sambandi.

Stjúpforeldri eru venjulega  minna tengdir stjúpbörnum sínum en eigin börnum, sem eðlilegt er, en séu tengslin mjög veik  eru þeir enn síður tilbúnir til að veita þeim stuðning en eigin börnum.  Skiptir ekki máli hvort það sé tilfinningalegur, fjárhagslegur eða annar stuðningur.  Það getur því verið ólíkur skilningur innan stjúpfjölskyldunnar hversu mikinn stuðning á að veita eða hvort þörf er á einhverjum stuðningi.

Hálfsystkini nýburans þurfa hinsvegar rétt eins og önnur börn fullvissu um ást foreldra sinna og að stjúpforeldrinu sé annt um velferð þeirra og líðan. Þau þurfa að fá að vera þátttakendur eins og kostur er. Við undirbúning og eftir fæðingu skapast ný tækifæri  til efla tengsl milli stjúpforeldris og barns. Skoða má gamlar myndir af stjúpfor eldri og barni sem ungabarni, segja sögur úr æsku, aðstoða við val á fatnaði svo fátt eitt er nefnt.  Á sama tíma þarf barnið líka að fá tækifæri til að vera eitt með foreldri sínu en það dregur það úr afbrýðissemi  og samkeppni að skipta fjölskyldunni  reglulega upp, bæði eftir líffræðilegum línum og stjúptengslum.

Þarfir væntanlegar móður eða föður, stjúpforeldris barnsins geta verið aðrar en barnsins eða makans á þessum tímamótum. Sumum stjúpforeldrum finnst ekkert sjálfsagðara en að  stjúpbörnin séu  á heimilinu þegar barnið fæðist á meðan aðrir hafa miklar áhyggjur af því að það fæðist  í „pabbavikunni“ eða „mömmuvikunni“.  Að eiginmaðurinn verði t.d. meira upptekinn af því að stjúpbarnið verði ekki útundan en þörfum  móðurinnar fyrir stuðning. Jafnvel að stjúpbarnið verði með hávaða og kröfuhart á móður sína þegar hún kemur heim af fæðingardeildinni, sem nýbökuðum föður finnst kannski erfiðara að umbera en móðurinni.

Barneignum fylgir aukið álag, stjúptengsl eru viðkvæm.  Góður undirbúningur skiptir máli og mikilvægt að reynt sér að koma á móts við ólíkar þarfir vilji fólk byggja upp sterka fjölskyldu.  Vinir og vandamenn geta létt undir með því að bjóða eldri systkinum í heimsókn, næturgistingu, bæjarferðir eða annað, jafnframt verið nýbökuðu foreldri stuðningur þann tíma sem hitt foreldrið sinnir börnum sínum úr  fyrra samband. Finnum lausnir sem ganga –  bæði fyrir börn og fullorðna.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Er blóraböggull í fjölskyldunni?

Eftir Börn og ungmenni

Mér finnst óþægilegt þegar stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu, ekki hjálpar mamma hans til með illu umtali.

Það er nú flestum kunnugt að baknagg og langvarandi ágreiningur  foreldra og er ekki eingöngu til ama og leiðinda, hann er líka börnum beinlínis skaðlegur og flækir líf þeirra stundum langt fram á fullorðins ár. Geta þeir verið á sama tíma í afmæli barnabarnanna þegar þar að kemur?

Við skilnað hafa foreldrar ekki lengur sömu yfirsýn yfir líf barna sinna og áður, séu deilur á milli þeirra verður hún enn minni. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“ með umræðum um hvað eigi sér stað á hinu heimili þeirra.  Þó hlutirnir lagist eitthvað upplifa sum að þeim er ekki trúað. En hann var frekar daufur drengurinn sem var þreyttur á því að þurfa sífellt vera verja mömmu sína, þegar pabbi hans og stjúpa sögðu hana tala illa um þau.  „Það er ekki satt, ekki lengur“ sagði hann brostinni röddu. Mamma hans hafði talað illa um þau í fyrstu en hún var löngu hætt því og hvatti hann frekar en latti að fara til pabba síns.  Þeir feðgar  höfðu alltaf átt gott samband og fannst mömmu hans sorglegt að pabbi hans virtist sjaldan gefa sér tíma fyrir son sinn eftir að hann fór í nýtt sambandi.  Mamma hans hafið reynt að ræða um það við pabba hans en hann tók því illa og sagði hana ekki geta unnt sér þess að hann væri ástfangin. Hún yrði að hætta að beita syni þeirra gegn honum.  Strákurinn fann sig ekki lengur heima hjá pabba sínum eftir að hann fór í nýtt samband. Stjúpan hafið verið mjög skemmtilegt fyrst og pabbi hans glaður,  en nú var andrúmsloftið þrungið spennu þegar hann var hjá þeim.

Streitan og áreitið sem fylgir erfiðum samskiptum foreldra,  veldur líka ósjaldan kvíða og pirringi hjá stjúpforeldrinu. Koma stjúpbarna á heimilið, sem í fyrstu fylgdi eftirvænting og áhugi, breytist gjarnan í kvíðahnút á mánudegi sé von á þeim á föstudegi. Sé samstarf foreldris og stjúpforeldrisins á heimilinu ábótavant, fylgir veru barnanna  enn meiri streita og kvíði.  Börn, rétt eins og fullorðnir reyna að forðast slíkar aðstæður sé ekkert að gert.

Áður en fyrrverandi er kennt alfarið um að börn séu ósátt á heimilinu eða vilja ekki koma er ástæða til að skoða með opnum huga hvort framkoma okkar sjálfra ýti undir deilur,  sem og aðstæður barna/stjúpbarna á heimilinu.

Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, ekki sé gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli barna og þau fái litlar upplýsingar.  En efinn um ást foreldris og að það muni standi með því þegar á þarf að halda,  reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Sé lítill skilningur á stöðu þeirra og þeim fullorðnu skortir „verkfæri“ til að leysa málið á uppbyggilegan máta,  lenda sum hver í hlutverki blórabögguls á heimilinu.   Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum,  um að eitthvað sé að barninu.  Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn vandans“,  felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið.

Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum má hafa í huga að þau hafa upplifað margvíslegan missi og sum óttast að missa enn meira.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Maðurinn minn mismunar börnunum

Eftir Börn og ungmenni

Ég á eitt barn frá fyrra hjónabandi og 9 mánaða dóttur með núverandi manninum mínum sem hann fer með eins og “prinsessu”. Hún er eina barnið hans. Hann virðist lítið vilja vera með mínu barni og það er eins og að það sé fyrir honum. Í hvert sinn sem ég reyni að ræða þetta við hann finnst honum að eina lausnin sé að við skiljum. Hvað get ég gert til að halda fjölskyldunni saman?

 

Svar:

Komdu sæl

Auðvitað langar alla, sem fara að búa saman, til að hlutirnir gangi upp, sérstaklega þegar börn eru með í spilinu. Hinsvegar liggur ekki alltaf í augum uppi hvernig best sé að skapa ánægjulegt fjölskyldulíf. Mikill munur er á því að stofna stjúpfjölskyldu, þar sem fyrir eru tengsl milli foreldra og barna, eða hefðbundna kjarnafjölskyldu, sem börnin fæðast inn í og foreldrarnir mynda tengsl við samtímis.

Stjúpfjölskyldur geta ekki fylgt sama mynstri og hefðbundnar kjarnafjölskyldur þar sem börnin eru öll afsprengi sömu foreldra. Ég hef líkt því við bílstjóra sem reynir að rata um Reykjavík eftir korti yfir Kópavog!

Raunhæfar væntingar skipta sköpum fyrir stjúpfjölskylduna. Til dæmis er ekki hægt að búast við að stjúpforeldri elski stjúpbörn sín á sama hátt og kynforeldri eða að ætlast til að það komi í stað kynforeldris barnanna – þótt það geti auðvitað átt við í sumum tilvikum.

Þú segir að maðurinn þinn fari með dóttur sína eins og „prinsessu“. Þannig erum við flest gagnvart börnum okkar sem betur fer. Hann hefur fylgst með meðgöngunni, fæðingu hennar og uppvexti frá upphafi og myndað náin tengsl við hana.

Stjúpforeldrar og stjúpbörn þurfa góðan tíma til að mynda tengsl. Almenn kurteisi er upphaf góð sambands og setur samskiptunum eðlilegan ramma. Ágæt byrjun fyrir stjúpforeldra er að haga sér eins og velviljaður ættingi.

Óskastaða flestra er að samskiptin verði ánægjuleg og gjöful og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir við hverju sé að búast. Óraunhæfar væntingar eru uppskriftin að átökum og vonbrigðum. Fræðsla er því mikilvæg og viðurkenning.

Sumir stjúpforeldrar vilja fara hægar í sakirnar en aðrir. Kynforeldri getur túlkað slíkt viðhorf sem höfnun á börnunum. Þess háttar afstaða kynforeldris, sem er hugsanlega sprottin af óþarfa viðkvæmni, kann að auka á vandann. Parið í stjúpfjölskyldum þarf að ræða væntingar sínar varðandi börnin af hreinskilni og hreinsa loftið. Ríki gagnkvæmur skilningur er líklegra að kynforeldri og stjúpforeldri geti stutt hvort annað og forðast átök og togstreitu.

Af bréfi þínu að dæma kennir þú manninum þínum um það sem aflaga fer. Það getur vel verið rétt hjá þér. En er hugsanlegt að eitthvað vanti á samráð ykkar á milli? Það kemur ekki fram hvað barnið þitt er gamalt en því yngri sem stjúpbörnin eru þeim mun betur gengur stjúpforeldri að nálgast þau. Eldri börn hafa sjálf óskir og væntingar sem þarf að taka tillit til auk þess sem þau hafa oft vanist aðstæðum sem taka breytingum þegar kynforeldrarnir eignast nýjan maka. Breytingum fylgir oft óvissa.

Eigi að reyna að leysa vanda er ekki er vænlegt að nefna skilnað í hvert sinn sem eitthvað bjátar á. Slík viðbrögð grafa undan sambandinu og skapa óöryggi. Þau benda líka til að þið hafið um langt skeið tekist á um þetta atriði, kannski fleiri.

Ég held að það sé algert lykilatriði að þið reynið að ræða saman og ákveða að vera saman í liði í stað þess að hlaupa út af vellinum þegar illa gengur! Til að stjúpfjölskyldunni gangi vel má parið ekki gleyma að rækta samband sitt. Barnsfaðir þinn og maki þarf að endurskoða sína afstöðu og spyrja sig hvað hann sé raunverulega tilbúinn að leggja á sig til að samband ykkar gangi upp og fjölskyldan haldi velli.

Stundum er málum þannig háttað að nauðsynlegt er að ræða við fagmann s.s. félagsráðgjafa, sálfræðinga og presta til að leysa málin og draga úr þeirri spennu sem orðin er. Það er til mikils að vinna, bæði ykkar vegna og barnanna.

Með bestu kveðju Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Þú mátt ekki skamma mig – samband stjúpmæðra og dætra

Eftir Börn og ungmenni

Í BA rannsókn í félagsráðgjöf komu fram vísbendingar um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína.

Rannsóknina gerðu þær Jónína Rut Matthíasdóttir og Valgerður Rún Haraldsdóttir vorið 2015. Leiðbeinandi þeirra var Valgerður Halldórsdóttir aðjúnkt.

Ritgerðin ber heitið  „Þú mátt ekki skamma mig“ í félagsráðgjöf fjallar um upplifun stjúpdætra af sambandi sínu við stjúpmæður sínar. Hún er byggð á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtöl voru tekin við sex ungar konur í Háskóla Íslands sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið stjúpdætur. Aðstæður kvennanna voru að mörgu leyti frábrugðnar og kom því rannsakendum á óvart í hversu miklum mæli þær höfðu svipaða reynslu og sögu að segja. Rannsóknin gefur vísbendingu um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína, og væri því áhugavert að skoða það nánar. Samband stjúpmæðra og stjúpdætra er flóknasta samband innan stjúpfjölskyldunnar og niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að stjúpdætur á unglingsaldri eiga erfiðara með að mynda góð tengsl við stjúpmæður sínar heldur en þær sem yngri eru. Áhrif stjúp- og hálfsystkina spila einnig stóran þátt í upplifun stjúpdætra á að finnast þær tilheyra fjölskyldunni og sambandi þeirra við feður sína. Þátttakendurnir voru allir sammála um að helsta orsök þess að sambandið þróaðist á neikvæðan hátt mætti rekja til þess að stjúpmæðurnar reyndu of fljótt að gegna foreldrahlutverki í þeirra lífi og nálguðust þær ekki á þann hátt að mynda vinatengsl og traust í byrjun. Þær gagnrýndu það harðlega þegar stjúpmæður þeirra reyndu að fara inn á yfirráðasvæði mæðra þeirra.

Hér má lesa ritgerðina í heild sinni

http://skemman.is/stream/get/1946/21386/49430/1/%C3%9E%C3%BA_m%C3%A1tt_ekki_skamma_mig_lokaeintakpdf.pdf

Sama hegðun – ólíkt mat

Eftir Börn og ungmenni

„Mér finnst stundum eins og stjúpsonur minn vilji ekkert með mig hafa og hann stjórni öllu heimilinu. Hann hefur frekar fyrir því að finna pabba sinn, til að biðja hann um eitt eða annað,  en að leita til mín sé ég nálægt.  “

Sjálfsagt eru börn misvel undir það búin að eignast stjúpforeldra.  Sumum finnst það hið besta mál að á meðan önnur eru ósátt.  Stuttur tími frá skilnaði foreldra eða ónæmni foreldrar á þörfum barnsins í nýjum aðstæðum hefur sín áhrif.  Foreldrar gegna lykilhlutverki en stundum líður þeim eins og þeir eru á milli steins og sleggju viti þeir ekki hvernig þeir geti komið á móts við ólíkar þarfir makans og barnsins. Foreldri er því ekki síður óöruggt en stjúpforeldrið í upphafi. Að vita við hverju er að búast, hjálpar. Á heimasíðunni www.stjuptengsl.is má finna ýmislegt sem gæti gagnast.

Það kann að koma sumum á óvart, sem alist hefur upp við ævintýrin um vondu stjúpuna, að flestir stjúpforeldar vilja góð samskipti við stjúpbörn sín og viðurkenning þeirra skiptir þá máli. Í nýlegri íslenskri könnun á stjúpfjölskyldum kom til að mynda í ljós að um 77% stjúpforeldra voru mjög/sammála fullyrðingunni „Viðurkenning barna maka míns skiptir mig máli“.  Það getur því reynt verulega á stjúpforeldrana séu börnin ekki tilbúin og þeir vita ekki við hverju má búast.   Í könnuninni kom einnig fram að stjúpbörn leituðu frekar til foreldra sinna en í stjúpforeldra en aðeins 35% stjúpforeldra sögu stjúpbörn leita jafnt til þeirra og foreldra sinna.  Það er því óvíst að stjúpforeldrar fái alltaf þá viðurkenningu frá börnunum sem þeir óska.

Rétt eins og fordómar geta komið  í veg fyrir að stjúpforeldrar njóta sannmælis og stuðnings í krefjandi hlutverki þá er sumum stjúpbörnum ætlaðir eiginleikar sem ekki er ætlað börnum almennt. Í stað þess að horfa á erfiða hegðun þeirra sem viðleitni í að halda tengslum og ná tengslum við foreldra sína sem geta verið eins og áður segir ónæmir á þarfir þeirra, eru sum stimpluð stjórnsöm og undirförul. Ef fimm ára gutti ýtir mömmu sinni frá pabba sínum þar sem þau kúra í sófanum og segist eiga pabba einn þykir hann krútt og foreldrunum finnst hann skemmtilegur. Ef hann hinsvegar ýtir stjúpmóður sinni til hliðar og segist eiga pabba einn er hætta á að hann sé talinn stjórnsamur, stjúpan upplifi höfnun og pabbinn vandræðagang,  taki fólk hegðun hans of persónulega.

Ef við kjósum að túlka hegðun barns sem  „diss“ gagnvart stjúpforeldri,  leiti það frekar til foreldrisins en þess fyrrnefnda, er hætta á að við lendum í ógöngum í samskiptum með tilheyrandi vanlíðan.  Börn eiga nefnilega ýmislegt sameiginlegt með fullorðnum. Flestum þykir eðlilegra að biðja góðan vin um lán fyrir kaffibolla en vin hans,  sem við getum þó verið ágætlega kunnug.  Af hverju ætti börnum að líða á annan hátt séu þau ekki jafn nánum tengslum við stjúpforeldrið og við foreldrið?  Hvernig myndu samskiptin þróast ef vinur vinarins tæki það mjög persónulega að hann væri ekki beðinn um lán fyrir bollanum og  túlkaði það sem svo að við værum að reyna útiloka hann á einhvern hátt? Jafnvel skemma vináttu hans við sameignlegan vin? Í hvaða sporum væri sameignlegi vinurinn?

Það má líka hafa í huga að framkoma stjúpforeldra er oft dæmd harðar en foreldra, sérstaklega  þegar kemur að agamálum. Við beinum sjónum okkar að vondu stjúpmóðurinni í Hans og Grétu en faðirinn sem fer með börnin sín út í skóg og skilur þau eftir, ekki einu sinni heldur tvívegis sleppur við alla fordæmingu samfélagsins. Hann er álitin fórnarlamb eiginkonu sinnar rétt eins og börnin hans.

Stundum er nauðsynlegt að setja hegðun og viðhorf okkar í víðara samhengi. Við þurfum að muna að góðir hlutir gerast hægt og tengslamyndun tekur tíma.   Þegar við höfum tengst fólki langar okkur frekar að koma á móts við óskir þess en ella – það sama á við um börn. Það getur því stundum verið gagnlegt í stjúpfjölskyldum að spyrja sig – hvað myndum við hugsa eða gera ef við ættum þessi börn saman?

Hverjum þykir sinn fugl fagur …

Eftir Börn og ungmenni

Það er gagnlegt að hafa í huga að ekki er alltaf auðvelt að meta hvort hegðun sé ásættanleg eða ekki, aðstæður skipta máli.

Foreldar er líklegri til að dæma hegðun barna sinna á annan hátt en stjúpforeldar.Ef fimm ára gutti ýtir mömmu sinni frá pabba hans þar sem þau kúra í sófanum og segist eiga pabba einn einn, þykir hann bara sætur og foreldrarnir draga hann til sín og knúsa hann bæði. Hinsvegar ef hann ýtir stjúpmóður sinni til hliðar og segist eiga pabba einn er hætta á að  hann sé talinn stjórnsamur, stjúpan upplifir höfnun og pabbinn vandræðagang taki fólk hegðun hans persónulega. En það má líka hafa í huga að framkoma stjúpforeldar er oft dæmd harðar en foreldra. Í rannsókn Claxton-Oldfield (1992) kom í ljós að sambærileg hegðun stjúpforeldris og foreldris var dæmd ólíkt.  Agaaðferðir stjúpforeldra voru sagðar harðari en foreldra,  en engin munur á þegar sýnd var ást og hlýju.Það er því ýmislegt sem hafa þarf í huga þegar kemur að því að velja sér hlutverk,  setja reglur og meta hegðun fólks. Allir vilja upplifa sanngirni og því vænlegra að leyfa fólki að njóta vafans en að ætla því eitt eða annað.  Á það bæði við um börn og fullorðna.  Sé samkomulag á heimilinu um hlutverk stjúpforeldris, reglur skýrar og sanngjarnar er miklum árangri náð.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram