Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Börn í stjúpfjölskyldum þurfa samveru við foreldra

Eftir Stjúpforeldrar

“Mér finnst leiðinlegast að ég fékk aldrei að vera ein með pabba, konan hans var alltaf með okkur!”

Börn geta orðið afbrýðissöm út í stjúpforeldra sína og fundist sér vera ýtt til hliðar ef ekki er lögð sérstök rækt við samband þeirra við kynforeldrana. Nýtt samband er ekki alltaf sama gleðiefnið fyrir þau og hið ástfangna par, einkum og sér í lagi ef það hefur í för með sér að draumurinn um að mamma og pabbi taki saman aftur fjarar út og verður að engu. Kynforeldrið elur aftur á móti þá von í brjósti að þeir sem standa hjarta þess næst, börnin og nýr maki, nái vel saman og úr verði hamingjusöm fjölskylda.

Umgengni við kynforeldra

Fáir efast um þýðingu þess að börnin umgangist báða kynforeldra sína, þótt þeir hafi slitið samvistir og búi hvor í sínu lagi. Hinsvegar er það mörgum hausverkur hvernig þeirri umgengni á að vera háttað, þegar faðir eða móðir hefja nýja sambúð. Hvert er hlutverk nýja makans í uppeldinu? Við hverju má búast af börnunum? Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Því miður hefur skort mjög á fræðslu og umræðu um sérstöðu stjúpfjölskyldunnar til þessa.

Stjúpfjölskyldur hafa alla burði til að bera til að verða uppspretta hamingju og öryggis eins og aðrar fjölskyldur, en að ýmsu þarf að huga. Mikilvægi parasambandsins er síst minna en í öðrum fjölskyldugerðum, en það er töluverður munur á því að stofna fjölskyldu þar sem annar eða báðir aðilar eiga barn eða börn úr fyrri samböndum eða þar sem þeir eru barnlausir í upphafi.

Alltaf upptekin

Ekki er óalgengt umkvörtunarefni barna að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með kynforeldri sínu í umgengni, að pabbi eða mamma sé alltaf upptekin með nýjum maka sínum. “Mér finnst ég vera eins og gestur heima hjá pabba,” sagði 10 ára barn sem ræddi við mig um helgarheimsóknir til pabba síns. “Hann spyr alltaf [konuna sína] fyrst ef ég bið hann um eitthvað. Það er eins og hún ráði öllu.” Við, sem búum í stjúpfjölskyldu, verðum að verja tíma saman og læra að virða og meta hvert annað, þannig að tengsl og vonandi væntumþykja skapist smám saman. En það þarf ekki að vera á kostnað sambandsins við börnin sem var til löngu fyrir stofnun nýrrar fjölskyldu. Þeim mun ánægðari sem þau eru, því ánægjulegra verður fjölskyldulífið. “Mér finnst ókurteist gagnvart sambýliskonu minni að halda henni og börnum hennar utan við það sem við erum að gera,” svaraði faðir í viðtali við mig um hvers vegna honum þætti erfitt að verða við óskum barna sinna af fyrra sambandi um að þau færu stundum ein saman í ferðalög eða bíó.

Samráð mikilvægt

Orð eru til alls fyrst og skiptir miklu að makarnir í stjúpfjölskyldum ræði af hreinskilni saman um verkefnin og vandamálin og geri sér grein fyrir að aðrar forsendur gildi að sumu leyti um þeirra fjölskyldu en hefðbundna kjarnafjölskyldu. Í því felst m.a. að bæði stjúpforeldrar og kynforeldrar skilji þörf barna fyrir samveru með kynforeldri sínu og gefi þeim næði til að rækta tengslin, s.s. með sund- eða hjólreiðaferðum, bíltúrum þar sem hægt er að spjalla um heima og geima, heimsóknum til afa og ömmu og þannig mætti áfram telja. Samráð um þetta verður líka til þess að stjúpforeldrinu finnst því ekki alfarið “haldið utan við” það sem maki þess og börn hans eru að gera – og það styrkir sambandið. Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Ekki er raunhæft að ætlast til að stjúpforeldri komi í stað kynforeldris, sama hversu gott og velviljað stjúpforeldrið er. Að sama skapi er tæplega hægt að ætlast til að börn uni því að fá ekki að verja tíma eitt með kynforeldri sínu. Hætt er við að kynforeldrið verði eins og milli steins og sleggju taki það sér stöðu milli þeirra sem honum eru kærastir, maka síns og barna sinna. Að skilja og læra um verkefni stjúpfjölskyldunnar auðveldar henni að halda velli. Viðurkennum sérstöðu okkar, bæði styrkleika og takmörk, – og gleymum ekki húmornum þegar allt annað bregst.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir, áður birt í Uppeldi 5. tbl. 17. árg. vetur 2004

Hver á að borga hvað fyrir hvern í stjúpfjölskyldum – viðtal

Eftir Fjölskylda

Texti: Björk Eiðsdóttir – Það mæðir ýmislegt á foreldrum sem búa sitt í hvoru lagi. Eitt algengt þrætuepli er hver skal bera kostnað af hinu og þessu er tengist barninu. Hver borgar fótboltann eða ballettinn og hvar eiga fötin að vera? Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og  ritstjóri vefsíðunnar stjuptengsl.is hefur víðtæka reynslu af þessum málum enda hefur hún alla sína ævi búið í einhverri tegund stjúpfjölskyldu.

Valgerður segir mikilvægt að taka upp umræðuna um fjármál því peningar séu alltaf í umræðunni hvort sem mikið eða lítið sé til af þeim. Hún segir umræðuna um hver skuli borga hvað oft verða til ósættis á milli foreldra. Spurningin um hvers vegna skuli borga meira en meðlagið komi reglulega upp. Af hverju þurfi að borga aukalega fyrir utan það. „Það er svo margt sem getur haft áhrif og oft er þetta einfaldlega þannig að fólk upplifi þetta þannig að fyrrverandi maki hafi stjórn í gegnum peningamálin og þetta getur orsakað ósætti á milli foreldrisins og nýja maka þess. Ef þú finnst fyrrverandi maki, maka þíns sífellt vera að gera einhverjar kröfur á heimilið varðandi fjármál getur það valdið pirringi, jafnvel þó peningurinn sé til. Þannig getur sú tilfinning blossað upp að fyrrverandi maki sé farin/n að stýra heimilishaldinu og þá er mikilvægt að setja einhvers konar mörk,“ útskýrir Valgerður.

Fjárhagsstaða foreldra oft mjög ólík

„Mikilvægasta spurningin ætti þó alltaf að vera: Hvernig lítur þetta út fyrir krökkunum? Þeir vilja einfaldlega að þetta fólk sem að þeim stendur veiti þeim ákveðinn stöðugleika og hjálpi þeim að halda áfram með líf sitt óháð hjúskaparstöðu foreldranna.“ En ætli það sé réttmæt krafa að það foreldri sem greiði meðlag með barni sínu leggi einnig fram aukið fjármagn, t.d. til tómstundaiðkunnar barnsins eða barnanna? Valgerður bendir þar á að það fari vissulega eftir aðstæðum. „Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að fjárhagsstaða foreldra sé jöfn og það er ekkert sem bannar að foreldri sem þyggi meðlag með barni óski eftir meiru ef aðstæður og fjárhagsstaða er þannig. Við erum nú rækilega minnt á þessa hluti núna þegar margir eru að missa vinnuna að nú geti orðið erfitt um vik hjá mörgum,“ segir Valgerður. „Fólk verður einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þegar skilnaður verður þar sem börn eiga í hlut þá fylgir því viss ábyrgð foreldra. Þegar börn verða í kjölfar skilnaðar að flakka á milli heimili er það skylda foreldra að hjálpa þeim til að það verði á sem friðsamlegastan hátt.

Ósanngjarnt að þurfa að skilja fötin sín eftir

Færst hefur í vöxt að foreldrar í þessari stöðu komi sér upp sitt hvorum fataskápnum og eru þess dæmi að börn eigi sitt hvort settið af fatnaði, æfingafatnaði og útifatnaði á hvoru heimilinu. Þetta getur aftur á móti valdið vissri togstreitu hjá börnunum og það er spurning hvort slíkt fyrirkomulag skapi fleiri vandamál en það leysi. „Hvaða skilaboð ertu að senda barninu þínu ef þú ætlast til að það strípi sig á tröppunum heima hjá þér og fari í öðrum fötum heim? Hvað ætli okkur fullorðna fólkinu fyndist t.d. ef við fengjum gjöf frá vini okkar sem við einungis mættum nota þegar við nytum samvistum við þennan tiltekna vin? Staðreynd málsins er sú að oft er verið að nota svona tæki hvort sem það eru gjafir eða peningar sem ákveðið stjórntæki,“ segir Valgerður og ítrekar mikilvægi þess að fólk hafi hagsmuni barnsins að leiðarljósi. „Vissulega hef ég oft heyrt t.d. stjúpmæður kvarta yfir því að börnin komi í ljótum fötum og þau föt sem keypt séu skili sér svo ekki aftur  á það heimilið. Því það er auðvitað ekki tryggt að börnin passi upp á að fötin skili sér tilbaka. Í mínum huga þá er það einfaldlega ein birtingarmynd ólokins skilnaðar, að setja börnin í þá stöðu að þau þurfi að skilja allt eftir á hvoru heimili fyrir sig vegna þess eins að foreldrarnir geta ekki komið sér saman um hvernig þau koma fötunum á milli. Ég vil meina að þegar fólk hagar sér á þann hátt er það aldrei að hugsa um hagsmuni barnsins. Við getum nú flest sett okkur í spor segjum 10 ára barns sem er voða lukkulegt með nýju buxurnar sem það var að fá. Og ímyndað okkur svo að við hefðum þurft að geyma þær í einhverju húsi og nota þær hálfsmánaðarlega,“ segir Valgerður. „Þegar börnin eru lítil er fullkomlega eðlilegt að þau eigi t.d. sokkabuxur og jogginggalla og einhverjar nauðsynjar þar sem þau eru ekki með lögheimili en um leið og þau fara að eldast hafa þau sínar sérþarfir og eru með skoðanir á því í hverju þau eru. Það er augljóslega alveg út í hött að kaupa t.d. sitt hvorar merkjabuxurnar til að hafa á hvoru heimilinu. Það er einfaldlega rangt að setja hlutina í  þennan farveg og okkur ber skylda til að hjálpa þeim að fara með þetta dót á milli. Það er eðlilegt að börn séu með t.d. tannbursta og náttföt og aðrar nauðsynjar en það er ekkert gaman að fá flotta peysu um helgina en mega ekki fara í henni í skólann á mánudaginn því þá er ég að fara til pabba eða mömmu.“

Lágmarksmeðlag svipað og lágmarkslaun

Aðspurð út í meðlag og hvort því sé ætlað að duga fyrir útlögðum kostnaði vegna barns ásamt framlagi hins foreldrisins viðurkennir Valgerður að oft gangi það einfaldlega ekki eftir, tómstundir barna séu líka misdýrar. „Mér finnst aftur á móti ekki sanngjarnt að sem dæmi ef ég tek ákvörðun um það upp á mitt einsdæmi að dóttir mín skuli fara að æfa skíði upp í Bláfjöllum um helgar. Námskeiðið kostar eitthvað og svo kaupi ég skíðagræjur og ætlast svo til að það sé borgað til helmings við mig. Svona lagað verður að vera sameiginleg ákvörðun.“ Einnig minnist Valgerður á  hvernig svona mál geta líka orðið til vandræða inni á heimilum þegar foreldrar eru t.d. búnir að taka ákvörðun um að verja fjármunum í einhvers konar tómstund fyrir barnið sitt og nýr maki er því mótfallinn. „Þessi nýji maki er þá kannski ósáttur við að einu barni sé veitt slíkt meðan kannski hans börnum er ekki boðið slíkt. En þá kemur upp spurningin um hvernig er fjármálum þessara hjóna háttað? Þarf að bera allt slíkt undir makann? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við upphaf nýrrar sambúðar séu fjármálin öll á borðinu. Því oft er það einfaldlega feluleikurinn sem veldur leiðindum en ekki sú staðreynd að peningum sé varið í þetta eða hitt barnið.“

Þegar Valgerður er spurð hvort það sé mikilvægt að barn hafi sérherbergi á báðum heimilum segir hún svo ekki vera. „Ef fólk aftur á móti hefur tök á að veita öllum sérherbergi er það auðvitað hið besta mál, en það er auðvitað ekki hægt að gera þá kröfu. Það sem hins vegar þarf að tryggja er að barnið hafi á heimilinu einhvers konar kommóðu eða skáp sem er þeirra og ekki er gengið í án leyfis þegar barnið er fjarri. Jafnvel fólk sem á öll börnin sín saman getur oft ekki veitt öllum börnunum sínum sérherbergi.

Fermingarveislur og tannréttingar má sækja um hjá sýslumanni. Skilaboðin eiga að vera þannig að við eigum þessi börn saman og okkur ber skylda til þess að framfleyta þeim og tryggja þeim það sem við getum. Auðvitað er fjárhagsstaðan mjög ólík og börn taka það vissulega nærri sér ef t.d. pabbi hefur það rosalega gott í nýja húsinu með nýju konunni og börnunum á meðan mamma er að berjast í bökkum. Við getum ekki leyft okkur  það sem pabbi og hans fjölskylda leyfir sér og þarna verða foreldrar svolítið að vanda sig. Hvernig get ég, jafnvel þó ég hafi samið um eitt meðlag á sínum tíma tryggt það að börnin  mín njóti þess sem ég á. Hugsa frekar að maður sé að borga fyrir börnin heldur en að maður sé að borga fyrir mömmu þeirra. Ef maður geti horft á það með þeim hætti að barnið njóti góðs af því sem hitt foreldri geti gert með það en maður þarf alls ekki að óttast þessa samkeppni því ást barnsins er ekki keypt með utanlandsferðumt.d.

Hvernig hagar fólk sér? Ef þú kaupir buxur á son þinn verðurðu líka alltaf að kaupa buxur á stjúpsoninn. Heldur á fólk að taka ákvörðun um að fjárhagsstaða sambýlisfólks sé á borðinu og þetta sé sameiginlegt verkefni.

Það er erfitt að sjtórna jólagjöfum en það sem er virðingarvert er að fólk gefi sameiginlegar jólagjafir. Því sem barn segirðu: þetta er frá mömmu jafnvel þó Siggi hafi gefið þetta líka og jafnvel valið gjöfina. En með því að gefa sameiginlega jólagjöf erum við að senda börnunum viss skilaboð: þið skiptið okkur máli og við ætlum að standa vörð um ykkur í sameiningu. Það veitir líka stjúpforeldrinu svigrúm til að kaupa það sem það langar til og gjöfin verður persónulegri. En auðvitað skiptir þarna máli hvenær fólk skilur. Ef ég er 14 ára og f´æ skyndilega pakka frá pabba og Guddu þá er pakkinn bara frá pabba en ef ég fengi einn frá pabba og mömmu og annan frá Guddu þá væri  það allt öðruvísi. Þetta breytist oft þegar nýr aðili kemur inn í myndina og það held ég að séu mikil mistök, þó segi ég ekki að það séu alltaf mistök en af hverju þarf að breyta því? Ef maður er kannski búinn að gefa barninu sameiginlega gjöf í 10 ár? Þarna eru foreldrarnir það mikið fólk að það getur a.m.k .gefið mér jólagjöf saman.

Börn telja ekki klukkustundir eða daga, og þau vilja ekki strípa sig á tröppunum það sem þau vilja er að samskiptin séu í lagi. Þau vilja að mamma og pabbi leysi málin – það á ekki að ræða fjármálin við börnin. Það er allt í lagi að við höfum ekki ráð á öllu það má ræða það en ekki ræða hver á að borga hvað. Hjóna á milli skiptir máli að hafa hlutina uppi á borðinu. Það veldur kannski ekki gremju að eitthvað sé borgað heldur að það sé farið á bakvið mann. Þó að meðlagið eigi að dekka þá bara gerir það það ekki alltaf. Þegar börnin eru viku og viku er hávær krafa um að báðum aðilum sé gert kleyft að annast börnin, þ.e. barnabætur og annað. En í þessu fullkomna jafnrétti þá má ekki gleyma að fjárhagsstaðan er misjöfn og þegar annar aðilinn býr við bágari stöðu er oft nauðsynlegt fyrir hinn að gera meira en lágmarkið. Því þetta er lágmarksmeðlag eins og lágmarkslaun og það má borga meira. Það má ekki fara niður fyrir þett og vill ég borga lágmark þegar ég hef tök á að borga meira og tryggja hagsmuni barnanna minna betur. Stjúpfjölskkyldur eru oft stórar og með mikið af börnum.

Við erum að tala um börn sem búa á tveimur heimilum en það foreldri sem hefur lögheimili barns fær þessar opinberu bætur og meðlagið.

 

Áður birt í Vikunni 2009 Texti: Björk Eiðsdóttir

Foreldrsamningar við skilnað – viðtal 2009

Eftir Foreldrasamvinna

Flestir foreldrar sem fara í gegnum sambúðaslit eða skilnað vilja vanda sig. barnanna vegna. Við skilnað er fólk hinsvegar oft í tilfinningalegu uppnámi og á stundum erfitt með að greina á milli þess að vera áfram foreldrar og svo að ljúka hjónabandi/sambúð og eignaskiptum,“ segir Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi. „Samningurinn er leiðarljós foreldra um það hvernig þau vilja haga málunum eftir skilnaðinn varðandi börnin og með hvaða hætti þau telja að hagsmunir þeirra verði best tryggðir. Samningurinn þarf að vera lifandi plagg sem tekur mið af þörfum barnanna út frá þroska þeirra og aldri. Það sem hentar þriggja ára barni þarf alls ekki að henta átta ára gömlu barni, hvað þá unglingi. Foreldrasamninga þarf að skoða með regluleg millibili en bæði aðstæður og foreldra breytast og gera þarf ráð fyrir þeim.

Valgerður segist í auknum mæli fá til sín foreldra sem vilji hjálp við gerð samninga varðandi umgengni. Hún segir að slíkir samningar séu persónubundnir en þeir eiga það sameignlegt að tekið er fyrir með hvaða hætti relguleg umgengni eigi að vera og fyrirkomulag á stórhátíðum og fríum. En einnig er að finna samkomulag foreldra um að fela börnum sínum ekki að bera skilaboð á milli þeirra, með hvaða hætti tengsl við báðar stórfjölskyldur verða tryggð o.f.v.

Börn vilja ramma og fá að vita hvað verður um þau þegar foreldrar þeirra skilja. Þau vilja fá að vita m.a. hvar þau eiga að búa, hvernig samskipti við foreldra verður háttað, hvort þau verði áfram í sama skóla og hvort þau geti hitt áfram vini sína. Þau verða að finna að foreldrarnir vinni saman að hagsmunum þeirra og skapi þeim öryggi á tímum mikilla breytina eins og skilnaður er. Foreldrar eru hinsvegar misvel í stakk búnir á sama tíma og þeir eru sjálfir í mikilli óvissu og oft í miklu ójafnvægi.

“ Valgerður segir flesta upplifa ótta um að missa tengslin við börnin sín og margir óttist að stjúpforeldri komi í þeirra stað. Sá ótti er í raun óþarfur því rannsóknir hafa sýnt fram á að stjúpforeldrar koma ekki í stað foreldra í þeirri merkingu þó þeir geti verið ágæt viðbót þegar vel tekst til. Börn geta átt margar foreldrafyrirmyndir,“ segir hún. „Það er hinsvegar ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að tengsl foreldra og barna breytast við skilnað en hægt er að tryggja góð tengsl á marga vegu og er góð foreldrasamvinna lykilatriði. Jafnframt að hvort foreldri um sig geri sér grein fyrir mikilvægi sínu í lífi barnanna. „Við höfum tæknina með okkur og eigum við að nýta okkur hana í samskiptum þegar öðrum er ekki auðveldlega við komið eða þau erfið. Foreldrar eiga að hafa það að leiðarljósi að fela börnum sínum ekki það hlutverk að vera skilaboðaskjóða á milli þeirra, er það afskaplega vond leið til samskipta sem börnin líða fyrir. Þó krefst hugrekkis og þroska sem við búum öll yfir að bæta slæma samkipti og við þurfum öll að velta því fyrir okkur hvað við getum gert til að bæta þau séu þau erfið.

Valgerður segir henni finnist að öll hjón sem stefni á skilnað ættu að mæta í skilnaðarráðgjöf. „Þú ert ekki bara að kveðja einhvern einstakling heldur ertu líka að breyta til og taka upp nýtt líf en það tekur að meðal tali tvö til þrjú ár að jafna sig eftir skilnað. Eftir skilnað upplifa margir vantraust og samningur skapar ákveðð öryggi þótt það geti verið sárt að ræða þessi mál og gera sér grein fyrir að þú munt ekki lengur vera með börnin öll Aðfangadagskvöld héðan í frá,“ segir Valgerður og bætir við í lokin að fólk verði að muna að það séu fleiri en ein leið til þess að lifa lífinu. „Ef þú getur ekki haft börnin hjá þér á Gamlárskvöld geturðu haldið Þréttándann hátíðlegan í staðinn. Við erum oft of mjög ósveigjanleg þegar miklar breytingar ganga yfir en þá þurfum við á sveigjanleikann að halda. Við þurfum að gera ráð fyrir breytingum og skapa smá saman nýjar hefðir. Hvernig aðlögun á sér stað eftir skilnað getur haft sýn áhrif hvernig til tekst síðan þegar stjúpfjölskylda er stofnuð“

Viðtal DV 2009

Instagram