Skip to main content
Stjúpforeldrar

Stjúpur – Öskubuskur samtímans?

Ég má laga til, elda, keyra og sækja stjúpdóttur mína í leikskólann og aðstoða stjúpson minn við að heimanám en svo þegar kemur að skemmtun í leikskólanum eða skólanum þá virðist það nú ekki alveg sjálfsagt að ég mæti. Það nefnir það engin að minnsta kosti!

Flestir eru sammála um það í dag að stjúpforeldrum er ekki ætlað að ganga börnum í föður- eða móðurstað. Enda er sjaldnast nokkur þörf á þar sem flest börn eiga báða foreldra á lífi og eru í reglulegum samskiptum við þá.

Stjúpforeldar taka hinsvegar oft að sér verkefni, bæði óumbeðnir og beðnir,  sem yfirleitt teljast í verkahring foreldra.   Það eru hlutir eins og að elda matinn,  smyrja nesti fyrir börnin,  þvo af þeim þvott, aðstoða  við heimanám,  minna á íþróttafötin og  koma þeim í leikskólann svo fátt eitt sé nefnt.

Þessi verkefni geta reynt á önnun kafna foreldra og þó svo að börnin láti ganga á eftir sér,  þá efast þeir sjaldnast um ást barna sinna eða óttast að missa hana þó eitt og annað gangi á, á önnum sömum vetrarmorgni.  Þeir fá bæði  brosið frá barninu  í lok skóladags  og  eru boðnir  hjartanlega velkomnir á „ kaffihúsadaginn“ eða „mömmu/pabbamorguninn“  í leikskólanum.

Þessi sömu verkefni geta reynt enn  frekar á stjúpforeldra,  sem oft eru óvissir um hvað þeir mega eða eiga að gera þegar kemur að stjúpbörnunum.  Þeir geta  verið  í því hlutverki að sjá um uppeldi og umönnun stjúpbarns en á sama tíma eiga að halda ákveðinni fjarlægð við það og skipta sér sem minnst af. Línan milli þess sem telst góð afskipi og síðan afskiptasemi er því oft þunn í stjúpfjölskyldum. Við slíkar aðstæður er auðvelt að „misstíga“ sig og verða pirraður og finnast maður vera vanmetin.

Við þurfum öll,  öðru hvoru,  á að halda viðurkenningu og stuðning í lífinu  bæði frá okkar nánustu sem og í nærumhverfi okkar.  Vel upplýst starfsfólk  t.d. skóla og heilsugæslu getur því skipt sköpum og verið mikilvægur stuðningur fyrir fjölskyldur sem glíma við óvæntar uppákomur í lífinu.

Um daginn spurði ég nokkrar stjúpmæður um hvað þeim fannst gott og hvað betur mætti fara í samskiptum við leikskóla stjúpbarna þeirra en töluverð umræða hafi verið um það í hópnum hvort þær mættu mæta á svokallaða „mömmumorgna“ eða ekki.

Svörin létu ekki á sér standa. Ein kunni vel að meta það frumkvæði leikskólakennarans að bjóða henni að vera á póstlista skólans. Önnur nefndi að skólinn stæði sig vel í því að koma skilaboðum á bæði heimila barnsins og boðið væri upp á tvenn foreldraviðtöl . Taldi hún það  mikilvægt í ljósi þess að samskipti foreldrana voru ekki góð.  Aðrar kvörtuðu hinsvegar undan því að engar upplýsingar bærust nema á lögheimili barnsins. Það hefði orðið til þess að ein mætti með barnið  í leikskólann á „dótadegi“ án nokkurs  leikfangs með tilheyrandi vonbrigðum fyrir barnið.  Margar tóku það nærri sér að engar gjafir voru stílaðar á þær, bara pabbann og svo virtist sem að enginn gerði ráð fyrir þeim á skemmtanir  tengda börnunum. Boðin væru oftast stíluð á foreldra og forráðamenn. Fannst þeim það skrýtið þar sem flestir foreldrar í dag færu sameiginlega með forsjá barna sinna. Þær væru því ekki forráðamenn þeirra.

Aðspurðum  um þetta  mál fannst flestum kennurum það sjálfsagt  að þær mættu  á þær skemmtanir og annað í skólanum  sem þær vildu,  þó það sé ekki tekið sérstaklega fram.  Það ætti jafnvel ekki að þurfa þess heldur.  En í ljósi þess að hlutverk stjúpforeldra er oft óljóst í fyrstu þá kann það að vera nauðsynlegt.  Annars er hætta á að stjúpan upplifi sig í hlutverki Öskubusku – hún má strita við uppeldi og umönnun stjúpbarna sinna en fær ekki boð á „ballið“.  Hvað gera álfkonur þá?

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram