Skip to main content
Fjölskylda

Fjarstýring fyrrverandi maka?

„Hann hleypur eftir öllum hennar dyntum og ætlast til að ég spili bara með þar sem ég er barnlaus. Mér finnst konan alveg óþolandi og hann eins og strengjabrúða í höndunum á henni!“

Fyrrverandi makar geta haft töluverð áhrif á fjölskyldulíf hvors annars, bæði meðvitað og ómeðvitað. Að bregðast við beiðni fyrrverandi eiginkonu eða eiginmanns um að skipta um helgi með börnin getur verið túlkað sem góð foreldrasamvinna og sveigjanleiki hjá kynforeldrum, en sem stjórnsemi og tillitsleysi af hálfu stjúpforeldris sem hafði allt annað í huga um helgina, allra síst að láta fyrrverandi eiginkonu eða eiginmann stýra því hvernig lífi hún eða hann lifir!

Grundvallarþörfum eins og að vera elskaður og vel metinn, vera í samvistum við þá sem manni þykir vænt um og hafa stjórn á eigin lífi er misvel mætt í stjúpfjölskyldum. Samskipti við fyrrverandi maka valda oft árekstrum í nýju sambandi, sérstaklega þegar engir tilburðir eru hafðir uppi í þá átt að koma á móts við framangreindar þarfir með umræðu og samráði við nýja makann. Stjúpforeldrinu finnst því hafnað og kynforeldrið óttast höfnun. Óánægju er þá oft beint að fyrrverandi maka unnustans eða unnustunnar og þau vænd um ósanngirni og stjórnsemi – í stað þess að spjótunum sé beint að eigin maka.

Það er ekki neitt óeðlilegt við það þótt fyrrverandi makar beini óskum sínum hvort til annars þegar kemur að börnunum og sveigjanleiki er mikilvægur í samskiptum þeirra. Hinsvegar þurfa þeir að læra að staldra við og hugsa, í stað þess að segja hiklaust „já“. Ákvörðunin snertir fleiri. Það er ekkert að því að segja við sína fyrrverandi eða sinn fyrrverandi: „Ég hef samband eftir smástund, ætla að kanna hvort það gangi ekki upp heima fyrir.“

Flestum finnst óþægilegt að hafa ekki stjórn á eigin lífi. Stjúpforeldrar eru þar engin undantekning. Ótti og samviskubit Ýmsir þættir hafa áhrif á hegðun fráskildra foreldra og geta leitt til að þeir setji sínum fyrrverandi eða sinni fyrrverandi ekki mörk í samskiptum, s.s. ótti við að missa börnin, samviskubit yfir skilnaðinum og hugsanlega nýja sambandinu, tregða að lofa nýjum maka að tengjast börnunum og söknuður yfir því að hafa ekki eins mikið samband við börn sín og áður. Samviskubit er sársaukafullt bit. Það verður oft til þess að börnunum eru ekki sett viðeigandi mörk t.d. varðandi borðsiði og almenna kurteisi, sem veldur svo aftur ágreiningi milli foreldra og stjúpforeldra.

Með því að gera sér grein fyrir hvað geti legið að baki ákveðinni hegðun, eins og ótti og samviskubit kynforeldris, sem finnst hann missa tengslin við börnin, og ótti stjúpforeldris við að missa stjórn á eigin lífi, ætti að auðvelda þeim að finna lausnir og koma á móts við gagnkvæmar þarfir. Í því felst áskorun að treysta þau bönd sem fyrir eru og skapa rými fyrir ný tengsl. Kynforeldrið gegnir þar lykilhlutverki.

Höfundur Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram