Skip to main content
Fjölskylda

Unum því þótt allir í stjúpfjölskyldum elski ekki hver annan

  • Óraunhæft er að búast við að ást spretti af engu. Samvera  er forsenda þess að ást, væntumþykja, umhyggja og samstaða verði til. Ekkert er þó sjálfgefið í þessum efnum. Í stjúpfjölskyldum geta margvíslegir þættir haft áhrif, s.s. aldur barna. Því eldri sem börnin eru, þeim mun síður fella þau sig við breytingar. Misræmið á milli væntinga og raunveruleika er uppspretta ófullnægju og óhamingju. Þess vegna er hyggilegt að stilla væntingum í hóf og gera raunhæfar kröfur.
  • Jákvæð viðhorf og  raunhæfar hugmyndir hjálpa til við að byggja upp heilbrigð tengsl og uppbyggileg viðbrögð, það er hjálpar að vita hvaða tilfinningar eru eðlilegar í stjúpfjölskyldum. Ef stjúpforeldum er send þau skilaboð eða þeir gera þær kröfur á sjálfan sig, að það hljóti að vera eitthvað að þeim, að þykja vænna um eign börn en annarra  þarf engan að undra að margir veigri sér við að ræða líðan sína í stjúpforeldrahlutverkinu við maka sinn eða aðra. Það er því oft ekki fyrr en stjúpforeldrar hitta aðra í sömu sporum að þorað er að opna umræðuna og því fylgir mikill léttir fyrir marga að vera ekki „einn á báti“.
  •  Í umræðuhópi með stjúpmæðrum sagði ein stjúpan frá því að mesti léttirinn fyrir hana varð að heyra að hún þurfti ekki að elska stjúpson sinn eins og hennar eigin börn.  Þá fyrst gat hún slakað á. „Mér leið allaf eins og tapara fram og því og pirraðist endalaust bæði út í hann og sjálfa mig  fyrir að elska hann ekki eins og mín eigin börn. Ég var með stanslaust samviskubit og sektarkennd sem bitnaði á okkar sambandi . Núna er ég bæði ánægðari sjálf og slakari gagnvart honum. Strákurinn er fínn, en ég viðurkenni það fúslega nú að ég hef aðrar tilfinningar til minna barna en hans“.
  •  Það getur verið töluverð vinna að mynda góð tengsl sérstaklega þegar haft er í huga þann grunn sem stjúpfjölskyldur byggja á, og því  ánægjulegt þegar smásigrar  koma í ljós. Það hjálpar að hafa réttu „verkfærin“  eða upplýsingar og mikið magn af þolinmæði!
  • Fjölskyldur sem leyfa mörkum og hlutverkum að þróast smám saman í stað þess að krefjast „“tafarlausrar ástar” eiga auðveldara með að skapa náin tengsl sín á milli með tímanum . Vinátta, virðing og kurteisi er grundvöllur fyrir góðum  tengslum milli stjúpforeldra og stjúpbarna. En  þeir stjúpforeldrar,, sem eiga auðveldast með að eiga samskipti við  stjúpbörn sín og eru í góðum tengslum við þau, taka hlutina rólega,  sýna þeim hlýju, stuðning og taka hlutina ekki of persónulega.

E. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram