Að hafa hagsmuni barna sinna að leiðarljósi, þýðir í raun að foreldrar setji persónulegan ágreining sinn til hliðar og hafi hagsmuni barna sinna í forgrunni
Sáttameðferð skv. 33. gr. barnalagaSamkvæmt 33. gr. a barnalaga 76/2003, eins og henni var breytt með lögum 61/2012 og lögum 144/2012, skal sýslumaður bjóða aðilum forsjármála, lögheimilismála, umgengnismála, dagsektamála og aðfararmála sáttameðferð.
Foreldrar geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna.
Áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför er skylt að hafa leitað sátta samkvæmt 33. gr. a og skulu foreldrar mæta sjálfir til þeirra sáttafunda sem sáttamaður boðar til.
Settar hafa verið reglur til bráðabirgða um sáttameðferð, samanber lokamálsgrein 33. gr.a og hafa þær verið birtar á vef dómsmálaráðuneytisins.
Markmið
Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Foreldrar skulu mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til. Veita skal barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig við sáttameðferð nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins.
Sáttamaður skal gæta þess að vera hlutlaus í máli og leitast við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geta til þess að máli verði lokið með sátt.
Ef foreldrum tekst ekki að gera samning gefur sáttamaður út vottorð um sáttameðferð. Heimilt er að gefa út vottorð um sáttameðferð ef foreldrar mæta ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis.
Í vottorði um sáttameðferð skal gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum barnsins.
Vottorð um sáttameðferð er gilt í sex mánuði eftir útgáfu. Ákvæði þetta gildir einnig um aðra en foreldra sem geta gert kröfu um forsjá, umgengni eða dagsektir.
Hvað gerist ef ekki næst sátt hjá sáttamanni?
Þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns sker dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist m.ö.o. lausnin er ákveðin af dómara en ekki foreldrum barnsins/barnanna sjálfra.
Ef foreldrar leita skilnaðar fyrir dómi leysir dómari um leið úr ágreiningi um forsjá eða lögheimili
Kostir
Sáttamiðlun veitir ákveðið frelsi við lausn ágreinings og eru aðilar ekki bundnir við sömu málsmeðferðarreglur og gilda fyrir dómstólum. Jafnvel þó málsmeðferð fyrir dómi sé hafin getur dómar ákveðið að málið fari í sáttamiðlun, telji hann það vænlegt til árangurs.
Með sáttamiðlun geta aðilar máls komist hjá langdregnum og kostnaðarsömum dómsmálum. Áhersla er lögð á samtal foreldra þar sem þeir leitast við að finna sameiginlega lausn með hagsmuni barnins/barna þeirra að leiðarljósi. Horft er til framtíðar.
Sáttamenn
Sáttamenn eru sérmenntaðir og fara eftir siðareglum. Sáttamiðlarar hafa oft á tíðum mikla reynslu af lausn ágreiningsmála og hafa bæði fræðilega og hagnýta reynslu sem hjálpar aðilum að sjá ágreininginn frá fleiri sjónarhornum.