Ég er mjög ung stjúpmamma finnst mér. Ég kynntist manni rétt eftir tvítugsafmælið mitt og við fórum að hittast … ég ætlaði nú samt aldrei að enda með honum, því að, ég meina, hann var fimm árum eldri en ég og átti barn og ég vissi það.
Ég hitti hann í tæpt ár án þess að hitta barnið nokkurn tímann. Við ákváðum það í sameiningu að best væri að dóttir hans myndi ekki vita af mér fyrr en við vissum hvað við vildum.
Svo kom að því að við byrjuðum að búa og rétt áður en það skall á hitti ég stelpuna hans nokkrum sinnum. Ég hélt að þetta yrði ekkert mál og vissi ekki að hann væri ekki með það fastsett hvenær hann væri með barnið og hvenær ekki. Hann vinnur mjög lengi í einu og er í burtu í nokkrar vikur í senn og þegar hann er heima þá er hann með barnið eða eins og ég upplifði það framan af, hvenær sem barnsmóðirin þurfti pössun.
Og aðalvandamálið í mínu tilviki hefur verið barnsmóðirin. Hún getur ekki sætt sig við að ég sé komin til að vera. Eftir að ég kom til sögunnar þá getur hún ekki fengið pössun og pening hvenær sem er. Maðurinn borgar auðvitað meðlag og tekur barnið meira en helgarpabbar gera, þó að lengra líði á milli. Hún hefur margoft gengið upp að mér og sagt mér að hún þoli mig ekki og hún hefur sent honum sms og hótað honum að hann fái ekki barnið aftur ef hann hættir ekki með mér.
Ég veit að þetta hljómar núna eins og ég sé vond við barnið og einhver sorastelpa en ég hef ekkert gert rangt. Mér er vel við barnið og hún dýrkar mig. Hún leitar meira í mig en pabba sinn þegar hún er hjá okkur. Ég hef reynt að gera allt rétt en alltaf þarf barnsmóðirin að gera mér lífið leitt.
Þetta hefur haft þau áhrif á mig að ég er farin að bremsa mig af í samskiptum við barnið og ég reyni að halda því frá mér svo að mamman verði ekki öfundssjúk því að barnið kemur stundum til okkar og segist ekki mega þykja vænt um mig því að mamman banni það og að hún megi ekki hlýða mér því að ég ráði engu.
Þetta hefur líka þau áhrif á samband mitt við manninn minn að ég fer alltaf í fýlu þegar hún hringir og ég verð alveg brjáluð ef skipulagið riðlast ……
Svar:
Komdu sæl, unga stjúpa
Það hvarflar ekki að mér að þú sért „sorastelpa“ eins og þú orðar það sjálf. Frekar ung kona sem tekst á við verkefni sem hún er ekki búin undir og að reyna bregðast við eftir bestu getu. Annars hafa viðbrögð þín ekkert með aldur þinn að gera, fólk á öllum aldri bregst við með þeim hætti að draga sig í hlé, þegar aðstæður verða þeim erfiðar.
Samskipti við X
Samskipti við fyrrverandi maka ganga oft ekki þrautalaust. Mörgum finnst erfitt að sleppa því sem þeir telja sig einhvern tíma hafa átt. Í þínu tilviki bitnar það bæði á ykkar sambandi og barninu. Mér sýnist þið hafa reynt að taka tillit til tilfinninga barnsins með því að blanda því ekki inn í samband ykkar fyrr en þið vissuð sjálf hvað þið vilduð. Þú virðist hafa náð góðum tengslum við barnið, það sést best á því að það leitar til þín þegar það er í umgengni.
Það er nokkuð ljóst að framkoma móðurinnar gerir hvorki þér né barninu auðvelt fyrir. Ætla má að því fylgi mikil streita fyrir barnið að fá þau skilaboð frá móður sinni að það megi hvorki hlýða þér né þykja vænt um þig, sem það virðist þó gera. Hvernig á það eiginlega að haga sér í þessum aðstæðum? Barnið getur orðið bæði óöruggt og kvíðið í samskiptum við ykkur. Ég efast hinsvegar um að það hafi verið ætlun móðurinnar, líklega hugsunarleysi og/eða vanþekking.
Vertu þú sjálf
Hvað getur þú gert? Þú segist hafa valið þá leið að bremsa þig af í samskiptum við barnið til að móðirin verði ekki öfundsjúk. Það er erfitt fyrir þig að stýra því hvað móðirin upplifir. Hinsvegar getur þú ráðið miklu um hvernig þú bregst við. Til lengdar er óásættanlegt að standa sífellt á bremsunni, það græðir enginn á því. Hættu því, hugsaðu um sjálfa þig, samband þitt og barnið. Haltu áfram að vera þú sjálf, sú sama og barnið náði tengslum við og líkaði við. Sú leið virðist hafa skilað ykkar sambandi góðum árangri hingað til.
Sjónarhorn barnsins
Margir stjúpforeldrar hrökkva í baklás og upplifa mikla höfnun þegar þeir fá neikvæð skilaboð í gegnum börnin, finnst þeim vera misboðið og verkefni þeirra vanþakklátt. Annarsvegar sé ætlast til að þeir komi fram við börnin eins og þau væru þeirra eigin, hinsvegar megi hvorki þeir né stjúpbörn þeirra tengjast tilfinningalega eða sýna gagnkvæma væntumþykju.
Mikilvægt er að horfa á málið í dálítilli fjarlægð og út frá sjónarhorni barnsins. Heimurinn getur orðið ruglingslegur þegar fullorðna fólkið, sem annast það, hegðar sér á óskiljanlegan hátt. Barnið áttar sig áreiðanlega ekki á hvaða áhrif orð þess hafa á þig. Ætlun þess hefur tæplega verið að hrinda þér frá sér.
„Má ekki þykja vænt um þig“
En hverju er hægt að svara þegar barnið segir að því megi ekki þykja vænt um stjúpforeldri sitt eða hlýða því? Mikilvægt er fyrir barnið að hinir fullorðnu sýni ábyrga hegðun og nálgist það út frá því sem barninu er fyrir bestu. Það hefur ekkert upp á sig að fara út í umræður eða deilur við 4 ára barn um hvað mamma þess eða pabbi segir eða sagði. Ef við erum ósátt við þau skilaboð sem barnið kemur með inn á heimilið, þá ræðum við það við maka okkar og reynum að finna einhvern flöt á málinu.
Sjálfsagt er hægt er að svara barninu á marga vegu, eins og eftirfarandi dæmi sýnir. Lítil stúlka reyndi að átta sig á aðstöðu sinni eftir að foreldrar hennar skildu og pabbi hennar tók saman við aðra konu. Hún lýsti því yfir við stjúpu sína að hún væri ekki „í fjölskyldunni hennar“. „En má ég vera vinkona þín?“ spurði stjúpan. Þannig náðu þær að tengjast. Agamál má nálgast út frá aðstæðum sem barnið þekkir annars staðar: „Hér á heimilinu eru reglur, sem verður að fylgja, eins og t.d. á leikskólanum þínum ….“ o.s.frv. Hvað varðar aga almennt í stjúpfjölskyldum eru börn yfirleitt ekki tilbúin til að hlýða fyrr en vinátta og virðing hefur myndast. Æskilegt er að kynforeldrarnir sjá um agamálin í upphafi.
Þú getur verið mikilvægur stuðningsaðili fyrir barnið, verið því góð fyrirmynd, eins og hver annar fullorðinn, með því sem þú segir og gerir. Ekki grafa undan sjálfri þér og sambandinu með afskiptaleysi. Vertu þú sjálf!
Makasambandið mikilvægt
Í lok bréfs þíns segirðu að þú farir alltaf í fýlu núorðið þegar barnsmóðir mannsins þíns hringir. Ég geri ráð fyrir að fýlan valdi árekstrum á heimilinu. Ég held að það sé mikilvægt að þú lítir ekki á þennan vanda sem einvígi milli þín og barnsmóður hans um manninn þinn. Þú getur ekki frekar en hann borið ábyrgð á hennar hegðun. Þið getið eingöngu ráðið því hvernig þið sjálf bregðist við.
Í sjálfu sér þarf ekkert að vera óeðlilegt við að kynforeldri óski eftir aukinni umgengni eða fjárframlögum. Að vera einn á vakt með barn eða börn er oft afar krefjandi og því er mikilvægt að hægt sé að leita til kynforeldris barna sinna um stuðning. Æskilegt er að hafa reglu á umgengninni en það þarf líka að vera hægt að sýna sveigjanleika þegar við á.
Hinsvegar tel ég það eðlilegt að maðurinn þinn beri slíkar ákvarðanir undir þig og hafi þig með í ráðum. Þið þurfið að geta rætt þessi mál af hreinskilni og ef til vill þarf hann að breyta sinni hegðun sinni gagnvart barnsmóður sinni. Gefur hann henni skýr skilaboð? Setur hann henni eðlileg mörk?
Hvað varðar framkomu hennar við þig, hefur þú um nokkrar leiðir að velja. Ef ég á að ráðleggja eitthvað í þeim efnum myndi ég segja: Láttu hana ekki draga þig inn í átökin og reyndu að vera kurteis, þú hagnast mest á því.
Mundu að allar fjölskyldur lenda einhvern tíma í erfiðleikum, en það sem greinir m.a. á milli sterkra fjölskyldna og hinna er hvernig þær takast á við vandamál sem upp koma. Standið saman í þessu í stað þess að láta vandann stía ykkur í sundur.
Gangi þér vel og með bestu kveðju Valgerður Halldórsdóttir ,