Aðsend grein
Ég er stjúpmamma tveggja stálpaðra stelpna og maðurinn minn er stjúppabbi sonar míns. Saman eigum við lítinn tveggja ára gleðigjafa. Við hjónin erum því bæði að glíma við allt sem því fylgir að vera stjúpforeldri og börnin auðvitað að glíma við það líka.
Maður hefur lært mikið á þessu ferli – það kom mér á óvart að jafnvel eftir nokkur ár, þá er alveg ljóst að við munum aldrei líta á stjúpbörnin sem okkar eigin börn. Þetta er mikið álag á sambandið og hefur orðið enn meiri eftir að litli sonur okkar fæddist, þar sem við höfum minni tíma aflögu fyrir stóru krakkana okkar og auðvitað fyrir hvort annað. Helstu ágreiningsefni okkar hjónanna tengjast uppeldi stjúpbarnanna – þ.e. mér finnst hann láta allt eftir sínum börnum og honum finnst ég láta allt eftir mínu barni. Með okkar sameiginlega barn er ekki svona mikil togstreita á milli okkar, þó við séum auðvitað ekki alltaf sammála. Mikið hefur gengið á og er enn í gangi, maður spyr sig hreinlega stundum hvort þetta sé hægt? Ofan á allt glímir eitt barnið við veikindi sem taka verulega á heimilislífið. En auðvitað eru líka góðar stundir, maður má ekki gleyma því þó að oft finnist okkur þær slæmu vera fleiri. Ég get alveg tekið undir það að vera stjúpforeldri sé erfiðasta og vanþakklátasta hlutverk sem maður fær. Oft líður mér eins og heimilisþræli, sérstaklega gagnvart stjúpdætrum mínum því það verður ekki litið framhjá því að maður er fórnfúsari gagnvart sínu eigin holdi og blóði.
Það væri gagnlegt að heyra sögur annarra í sömu sporum, hvernig aðrir takast á við vandamál sem koma upp og hvað hefur hjálpað.
Við spjöllum saman á http://www.facebook.com/stjuptengsl.is?ref=hl