„Það getur verið erfitt að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir, jafnvel þótt það sé búið að útbúa sérherbergi með góðum vilja og hvaðeina,“ segir fjölskyldu- og félagsráðgjafinn Valgerður Halldórsdóttir sem prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni.
„Það getur meira að segja verið erfitt fyrir foreldrið að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir og kannski upplifir það sig aldrei eiga fullkomlega heima þar sjálft. Stundum er líka krafist aðlögunar í aðra áttina. Við konur segjum líka oft: „Á mínu heimili …“ og börnin velta þá fyrir sér hvort þau og pabbi þeirra eigi heima þar líka. Þau fá það á tilfinninguna að stjúpmóðirin ráði öllu, sem stundum er raunin. Stundum eru foreldri og stjúpforeldri ekki sammála um hvort barnið eigi heima á heimilinu eða hvort það sé gestur. Þegar barn segir: „Mér finnst ég ekki eiga heima hérna“ eða: „Ég er ekki í fjölskyldunni“ er algengt að það sé leiðrétt og látið vita að víst eigi það heima þarna eða auðvitað sé það í fjölskyldunni í stað þess að svara tilfinningu þess. Hvað þarf að gera til að barninu líði eins og heima hjá sér eða til að því líði eins og það tilheyri fjölskyldunni?“
Óumbeðin uppeldisráð stjúpforeldris óvinsæl
Blaðamaður hugsar upphátt og spyr Valgerði hvort nauðsynlegt sé að foreldri, þ.e. fyrrverandi maki, og stjúpforeldri hafi einhver samskipti sín á milli en hún hristir höfuðið. „Ég held að það sé ekki nauðsynlegt að hafa mikil samskipti, það er nóg að geta hist og að vera kurteis í samskiptum í aðstæðum eins og afmælum, útskriftum og þess háttar. Stundum vill fólk ekki vera í neinum samskiptum og það getur truflað fyrrverandi maka að stjúpforeldrið sé inni í öllum tölvupóstssamskiptum foreldra. Hann hafi hvorki áhuga á að tala við viðkomandi né veita tilvist hans einhverja sérstaka viðurkenningu. Gæti jafnvel ekki verið meira sama. Ég ráðlegg fólki að hætta að reyna að fá viðurkenningu frá fyrrverandi maka sé hann ekki tilbúinn að veita hana. Besta viðurkenningin er í rauninni sú að finna það að barnið vilji vera hjá þér og að þið séuð í góðum tengslum.“
Blaðamaður nefnir dæmi úr nærumhverfi sínu þar sem stjúpmóðir sendi móðurinni óumbeðin uppeldisráð og spyr hvort það sé eitthvað sem vert sé að leggja sig fram við. „Nei,“ svarar Valgerður hlæjandi, „ég myndi aldrei mæla með því. Maður fer ekki að senda einhverju fólki sem maður er í engum tengslum við óumbeðin uppeldisráð. Hins vegar gæti verið óskað eftir samtali um eitthvað, til dæmis vandamál varðandi tölvunotkun sem ætti auðvitað að vera sjálfsagt. En óumbeðin uppeldisráð eru ekki til þess fallin að slá í gegn og skapa engar vinsældir.“
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.