„Ég hef reynt margar áskoranir stjúpfjölskyldna á eigin skinni, bæði sem uppkomið stjúpbarn og stjúpmóðir. Ég hélt dagbók þegar ég varð stjúpa á sínum tíma og þegar ég lít til baka sé ég að vandamálin sem ég og mín fjölskylda vorum að glíma við voru fremur hversdagsleg fyrir stjúpfjölskyldur, en þau reyndu verulega á okkur á þessum tíma þar sem við kunnum ekki að takast á við þau,“ segir Valgerður Halldórsdóttir, fjölskyldu- og félagsráðgjafi, sem í dag veitir stjúpfjölskyldum ráðgjöf, en hún heldur úti heimasíðunni www.stjuptengsl.is.
Valgerður segir að þegar kemur að því að stofna stjúpfjölskyldu skipti mestu máli að taka því rólega, kynnast vel og ná tengslum. Hún segir jafnframt að mikilvægt sé að rækta tengslin við eigin börn, auk þess að gefa sér tíma til að kynnast stjúpbörnunum vel. En skyldi hún luma á einhverjum ráðum sem geta einfaldað fólki lífið?„Fólk heldur gjarnan að þegar það er að búa til fjölskyldu þurfi það að eyða öllum stundum saman sem hópur. Það er ekki vænleg leið þegar mynda á tengsl við hvern og einn og kynnast vel. Maður á mann samskipti skipta mestu máli til að kynnast. Fjölskyldan þarf því bæði að eyða tíma saman og gefa sér tíma fyrir hvern og einn. Parið verður líka að gefa sér tíma fyrir sambandið,“ segir Valgerður og bætir við að þegar vandamál geri vart við sig komi oft upp úr dúrnum að fólk þekkist ekki nægilega vel.
„Það er nokkuð algengt að börn hafa aldrei eytt tíma með stjúpforeldrum sínum þótt fólk sé orðið meðvitaðra um mikilvægi þess. Eða að foreldrar hafi ekki gefið sér tíma með börnunum sínum án maka eða stjúpsystkina. Sum börn upplifa því mikla sorg og missi sem stundum er mistúlkað sem frekja og stjórnsemi. Jafnvel að hitt foreldrið sé að reyna að stjórna og hindra umgengni þegar þau vilja ekki fara á milli heimila þar sem þeim finnst þau ekki tilheyra öðru heimilinu.“
Valgerður segir enn fremur að fólk átti sig ekki alltaf á því hvernig sé best að undirbúa tilvonandi sambúð.
„Sem betur fer gefa margir sér góðan tíma til þess að kynnast áður en þeir kynna börn til sögunnar. Margir átta sig oft ekki á þeim sérstöku verkefnum sem stjúpfjölskyldur þurfa að takast á við umfram aðrar fjölskyldur. Það getur því reynt verulega á í fyrstu. Í stað þess að skilja að vandamálin sem tengjast sérstöðu stjúpfjölskyldna, eins og að upplifa stjórnleysi, vera út undan, eða upplifa óvissu eða flækju í agamálum, eru þau persónugerð. Til dæmis er hætta á að barn sem fer á milli heimila, eða er í engri umgengni við hitt foreldrið, lendi í hlutverki blórabögguls og sé kennt um ástandið. Eða þá að stjúpforeldri, eða foreldri úti í bæ, sé kennt um vandann. Þetta eru allt vandamál sem er vel gerlegt að leysa, en fólk þarf að skilja hvernig fjölskyldan virkar,“ segir Valgerður og bætir við að algengasta umkvörtunarefni barna sé einmitt að hlutirnir gangi of hratt fyrir sig.
„Börnunum getur líkað ágætlega við stjúpforeldri sitt, en samt upplifað ákveðinn missi. Foreldrar gleyma gjarnan að þegar þeir hafa verið einhleypir í einhvern tíma fara þeir að taka alls kyns ákvarðanir með börnunum sínum. Svo verða þeir ástfangnir og fókusinn fer allt annað. Þá er hætt við að foreldrið gleymi sér og hætti að sinna hlutum sem það og barnið gerðu saman áður. Svo skilja foreldrarnir ekkert í því af hverju börnin eru svona fúl.“
Börn þurfa mörk og ramma
Valgerður segir að margar þær áskoranir sem stjúpfjölskyldur þurfa að kljást við stafi af venjum sem foreldrar tileinkuðu sér þegar þeir voru einhleypir.
„Þeir fara að taka alls kyns ákvarðanir með börnunum sínum, eða sleppa því að setja þeim heilbrigð mörk vegna þess þeir finna til með þeim eftir skilnaðinn. Stundum þjást foreldrar af samviskubiti, en stundum eru þeir eðlilega bara þreyttir. Börnin þurfa nefnilega bæði mörk og ramma. Líka þegar foreldrarnir eru einhleypir. Þegar fólk fer síðan aftur í sambúð vill nýr maki til dæmis ekki þurfa að eiga samráð við ungt barn um hvað á að vera í kvöldmatinn,“ segir Valgerður og bætir við að agamálin geti reynst snúin.
„Stjúpforeldrar, og þá kannski sérstaklega stjúpmæður, upplifa gjarnan mikinn vanmátt og stjórnleysi í lífinu. Börnin eiga það til að taka völdin því foreldrarnir eru óöruggir í hlutverki sínu. Auk þess eru foreldri og stjúpforeldri ekki alltaf sammála um hvað telst vera eðlilegur agi. Til að mynda fer gjarnan óskaplega í taugarnar á stjúpforeldrinu þegar barn er látið komast upp með ókurteisi, það getur reynst erfitt að búa til tengsl þegar kurteisi skortir í samskiptum. Gott skipulag er einnig hjálplegt. Það er algengt að foreldrar vinni mikið þegar barnið er hjá hinu foreldrinu, en hætti síðan snemma þá daga sem börnin eru á heimilinu. Þá getur stjúpforeldrið upplifað að það sé aldrei tími fyrir það eða sambandið. Pör þurfa því að læra að tileinka sér jafnvægi og gefa sér tíma með hvort öðru,“ segir Valgerður, en lumar hún á góðum ráðum þegar kemur að samskiptum við stjúpbörn. Er eitthvað sem stjúpforeldrar ættu alls ekki að gera?
„Það er ekki hægt að gera kröfu um ást, en fólk ætti fyrst og fremst að sýna barninu kurteisi og virðingu. Líta á sig sem fullorðinn vin og ekki rjúka í agamálin þótt þeir telji þörf á því. Það þarf að vinna hlutina á ákveðinn hátt og gagnlegt er að koma á námskeið um stjúptengsl. Fólk ætti svo auðvitað ekki að tala illa um hitt foreldrið í eyru barnsins. Margir stjúpforeldrar, sérstaklega stjúpmæður, hafa miklar áhyggjur af áliti annarra. Sumir bíða einnig eftir viðurkenningu frá börnum eða foreldrum úti í bæ. Það er þó fyrst og fremst makinn sem á að sýna stjúpforeldrinu þakklæti fyrir framlag sitt og mikilvægt að muna það,“ segir Valgerður.
Ekki lengur feimnismál
Valgerður segir að stjúpforeldrar í dag séu ófeimnir við að leita sér aðstoðar ef hlutirnir gangi ekki sem skyldi.
„Það er afar skemmtilegt að vinna með stjúpfjölskyldum vegna þess að það er svo mikil von í þeim. Í dag finnst mér flestir tilbúnir að takast á við vandann, frekar en að hlaupast frá honum. Það þykir nefnilega ekkert feimnismál lengur að leita sér ráðgjafar,“ segir Valgerður.
„Auðvitað er þetta mismikil vinna, en stundum þarf að vinda ofan af ranghugmyndum sem vinna gegn fjölskyldunni. Yfirleitt gengur það þó vel fái maður góðan tíma. Það geta þó að sjálfsögðu komið upp dæmi sem ekki er hægt að leysa. Stundum hafa mjög harkalegir atburðir átt sér stað í fjölskyldulífinu, og erfitt að vinda ofan af þeim. Oftast er hægt að vinna með tengsl og bæta samskipti. Við verðum líka að vera raunsæ og læra að bregðast við á uppbyggilegan máta. Stjúpfjölskyldur geta verið jafn góðar og gefandi og aðrar fjölskyldur ef við vitum hvernig á að bregðast við áskorunum þeirra.“
https://www.mbl.is/smartland/born/2017/10/01/sorg_og_missir_mistulkad_sem_frekja/