Skip to main content
Stjúpforeldrar

Nýr stjúppabbi – með ungling

Að taka saman við manneskju sem á stálpaðan ungling er að mörgu leyti frábrugðið því að taka saman við manneskju sem á ungt barn. Unglingur sem er á mörkum þess að vera fullorðinn eða er orðinn það lögum samkvæmt, er eðli máls orðinn sjálfstæðari.

Hann vill ráða því hvenær hann vakar og sefur, hvenær hann er heima í mat og setur kannski fram kröfur um að tiltekið morgunkorn eða annað matarkyns eigi að vera til og þar fram eftir götunum. Vill vera barn þegar það hentar og fullorðinn þegar það hentar og getur verið fyrirferðarmikill á heimili á annan hátt en lítil börn.

Allt eru þetta mál sem margir foreldrar unglinga þekkja af eigin raun en í stjúptengslum er staðan snúnari. Nýr maki blóðforeldrisins stendur utan við uppeldið, sem á þessu stigi máls er langt komið og siðir unglingsins og venjur orðin ansi fastmótuð, en nýi makinn vill setja ýmsar reglur á sínu heimili sem unglingurinn á jafnvel ekki að venjast. Hvað á svo að segja við ungmenni sem vill fá lánaðan bíl eftir þörfum „þið ætlið hvort eð er bara að vera heima“ eða biður um uppáskrift vegna láns? Slíkt varðar fjármál stjúpforeldris með öðrum hætti en þegar ung börn eiga í hlut og stjúpforeldrið er e.t.v. óviljugra að taka slíkar áhættur en með eigin börn. Þá er oft til umræðu hvenær rétt sé að afkvæmi flytji að heiman. Er rétt að ýta við þeim sem orðin eru fullorðin eða eiga þau að hafa sína hentisemi? Eiga þau að borga heim? Sumir vilja styrkja þau til náms með því að leyfa þeim að búa á heimilinu á meðan þau eru í námi og þar fram eftir götunum.
Sé unglingurinn orðinn átján ára er hann fullorðinn í skilningi laga, en í slíkum tilfellum hafa umgengnissamningar t.d. ekkert gildi og möguleiki á því að unglingurinn fari til hins foreldrisins ef hann er óánægður eða flytji að heiman fyrr en ella. Slíkt getur eðli máls samkvæmt spillt nýja sambandinu.
Þetta eru ekki einföld mál og erfitt að ráðleggja hvernig vinna skal með þau en eins og alltaf er gott að ræða málin, bæði að parið ræði sín á milli um hvaða grunnreglur þau vilja halda í heiðri og eins getur verið gott að tengja unglinginn meira við ákvarðanatökuna t.a.m. með fjölskyldufundum.

Aðsend grein frá stjúppabba

Instagram