Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi starfar m.a. sem sáttamaður sýslumanns í málefnum barna og segir deilur foreldra valda mikilli streitu hjá börnum. Fagdeild félagsráðgjafa í sáttamiðlun heldur námstefnu föstudaginn 1. mars í samstarfi við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu en Valgerður er ein þeirra sem starfa fyrir Sýslumannsembættið sem sérfræðingur í málefnum barna og sem sáttamaður í forsjár-, lögheimilis-, umgengnis-, dagsekta- og aðfararmálum með það að markmiði að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu.
Valgerður segir að flestum foreldrum takist að leysa smám saman ágreining sem gjarnan fylgir skilnaði eða sambúðarslitum en margir leiti sér ráðgjafar varðandi börnin þegar að skilnaði kemur. „Oft áttar fólk sig ekki á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þegar börnin eiga tvö heimili og stundum stjúpforeldra á þeim báðum. Það sem kallaðist gott foreldrasamstarf þegar foreldrar voru einhleypir getur skapað ágreining í nýju sambandi t.d. þegar ekki er haft samráð við stjúpforeldri um breytingar á umgengni. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að lífið bæði hjá foreldrum og börnum tekur eðlilega breytingum sem geta haft áhrif á foreldrasamstarf með börn á tveimur eða fleiri heimilum. En samskipti við barnsföður eða -móður á hinu heimili barnsins er algengt ágreiningsefni í stjúpfjölskyldum. Það eru ákveðnar vísbendingar um að stór hluti foreldra sem eiga mál inni hjá sýslumanni er kominn í ný sambönd og deilur því ekki endilega í öllum tilvikum tengdar sambúðarslitum eða hjónaskilnaði. En þetta þarf að kanna miklu betur. Tölur hjá sýslumanni sýna hins vegar að þau mál sem þar eru til meðferðar varða á milli 600 og 650 börn ári.“ Lesa má viðtalið í heild sinni hér.