Skip to main content
Fjölskylda

Fjölskyldustefna innan – sem utan heimilis

Þegar fólk er komið á efri ár er það gjarnan beðið um að líta yfir farin veg og segja hvað það hefði viljað gera öðruvísi í lífinu ef það fengi tækifæri til að lifa því upp á nýtt.  Ýmislegt er týnt til. Margir segjast hafa viljað ferðast meira, verið óhræddari við að standa með sjálfu sér eða hafa átt meiri tíma með fjölskyldunni og unnið minna.  Óhætt er að segja að sumir eiga fárra kosta völ og neyðast til að vinna mikið, jafnvel langtímum saman fjarri fjölskyldu sinni til að geta séð fyrir sér og sínum.  Margir Íslendingar þekkja vel þungar greiðslubyrðar af lánum.  Aðrir kjósa að helga sig vinnunni  og láta fjölskyldu og vini mæta afgangi vegna“ aðkallandi verkefna“ sem engan enda virðist taka.

Bæði ríki og mörg sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir hafa komið sér upp fjölskyldustefnu og sýnt vilja til að reyna koma á móts við þarfir foreldra á vinnumarkaði s.s. með samræmdum starfsdögum í leik- og grunnskóla og með sveigjanlegum vinnutíma sem er hið besta mál.

Stundum geta þó ákvarðanir þessara aðila skapað vanda fyrir fjölskyldur sem hafa þá lítið svigrúm til að ákveða hvað hentar þeim sjálfum.  Nefna má sem dæmi þegar fólk er skikkað í sumarfrí á ákveðnum tíma, sumarlokanir leikskóla og ákvarðanir íþróttafélaga, stundum án samráðs  við foreldra um að keppa eigi á Selfossi um helgina og svo á Seltjarnarnesi helgina þar á eftir.  Auðvitað er allt gott og blessað við að börn fái sumarfrí og taki þátt í íþróttum  en þurfi allir að vera í fríi á sama tíma og af hverju þarf allar þessar keppnir, sérstaklega fyrir yngri deildirnar?  Eins og með annað finnst sumum þessar keppnir bæði ómissandi og bráðskemmtilegar og sumarfrístíminn hentar þeim vel sem og sumarlokanir leikskóla.  Aðrir hafa minni áhuga og langar að gera eitthvað allt annað með börnunum um helgar eða taka frí á öðrum tíma með þeim,  en láta sig hafa það að taka þátt og þegja þunnu hljóð af ótta við að vera álitnir fremur lélegir foreldrar.

Flestir foreldrar vera með börnum sínum í sumarfríi og hvetja þau áfram í íþróttum eða í tómstundum en vilja hinsvegar fá að hafa eitthvað um það að segja hvar og hvenær. Það er ekki sjálfgefið að foreldrar, stjúpforeldrar eða fósturforeldrar geti fengið sumarfrí eða mætt á mót á þeim tíma sem bæjarstjórn eða íþróttafélagið ákveður hverju sinni.  Fjölskyldur þurfa að geta átt meira val um hvernig þær ráðstafa tíma sínum og peningum. Með reglulegum könnunum er hægt að  komast að hvað hentar – og hvernig er hægt að koma á móts við ólíkar þarfir fólks.   Ólíklegt er að hægt sé að koma á móts við þær allar – en það er gott að geta átt val og taka þann kost sem hentar best.

Stundum virðist okkur líka skorta fjölskylduvæna stefnu á heimilinu sem gerir ráð fyrir óskiptri athygli fjölskyldumeðlima og þar er lítið við aðra að sakast nema þá  okkur sjálf.  Víða eru mörkin milli einkalífs og starfs  óljós. Við getum látið sem við séum að taka þátt í samræðum eða að horfa á sjónvarpið með fjölskyldunni með því að muldra reglulega „aha“  og brosað en verið í raun andlega fjarverandi – á kafi í  excelskjalinu eða verið að svara „aðkallandi“ tölvupóstum.  Fólk getur líka verið andlega fjarverandi á heimili þó það sé ekki á kafi í vinnu en auðvelt er að týna sér í feisbúkk, kandíkruss eða tölvuleikjum vanti sjálfsstjórn.

Samkeppni barna um óskipta athygli foreldra og  foreldra um athygli barna sem og maka getur því stundum verið hörð vanti stefnu á heimilinu um tölvunotkun.   Mörgum hefur reynst vel að ákveða saman  í fjölskyldunni hve miklum tíma fólk  ver í  tölvunni og þá hvar og hvenær. Svo getur verið hjálplegt að hver og einn segi til um hvernig hann vilji láta minna sig á  – hafi hann gleymt sér.   Í stað þess að líta á umkvartanir sem nöldur sem vert er að reyna leiða hjá sér –  má líta á þær sem tækifæri til umbóta. Upphaf að einhverju nýju.   Fjölskyldustefna er því ekki bara eitthvað sem aðrir eiga að sjá um – hún er líka í höndum okkar sjálfra.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram