„Ég veit ekki hvort og þá hvað á að gefa dóttur Selmu, nýju kærustu Kela í jólagjöf. Ég er ekki viss hvort hún teljist sem barnabarn eða ekki, en hún er orðin 12 ára og á bara sínar ömmur. Hvað finnst þér?“, sagði Sigrún í áhyggjufullum tón við Helgu vinkonu sína í þeirra reglulegu kóvít göngu í Elliðaárdalnum.
Sigrún fann hvað það gerði henni gott að hitta vinkonu sína reglulega á röltinu og spjalla. Satt að segja þá öfundaði hún Helgu pínulítið af því að eiga engin fyrrverandi tengdabörn né aukabörn sem fylgdu nýjum tengdabörnum. Skilnaður Kela, sonar hennar hafði breytt miklu varðaði aðgengi hennar barnabörnunum. Þau voru nú í viku hjá honum og svo viku hjá Fjólu, mömmu sinni. Keli var á móti því að Fjóla leitaði til mömmu hans með pössun eða væri að koma til hennar í heimsókn “í tíma og ótíma“ en Sigrúnu sjálfri hafði þótt vænt um það. Barnabörnin voru alltaf barnabörnin hennar, óháð því hjá hvoru foreldrinu þau voru hverju sinni. En Kela fannst það „ekki í lagi að þau Selma væru kannski að hitta Fjólu hjá henni“. Sigrún beið ekki eftir svari Helgu og bætti við „Finnst þér ég þurfi að gefa dóttur Selmu gjafir eins og mínum eigin barnabörnum?“
Óhætt er að segja að skilnaður uppkominna barna hristir oft upp í tilveru afa og ömmu . Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin sem eiga tvö heimili í stað eins, og nýjar spurningar vakna. Má bjóða þeim í mat eða á skauta þegar þau eru hjá fyrrverandi tengdadóttur eða bara þegar þau eru hjá syninum? Mega þau gista eins og áður? Í sjálfu sér þarf eldri kynslóðin ekki leyfi uppkominna barna til að bjóða fyrrverandi tengdadóttur eða -syni í mat með barnabörnin, eða hvort hún megi leyfa þeim að gista að beiðni fyrrverandi tengdadóttur. Hinsvegar á meðan sumum kann að finnast það bara skemmtileg og góð hugmynd, finnst öðrum uppkomnum börnum það vera svik við sig og vilja að haft sé samráð við þau varðandi börn þeirra og samskipti við fyrrverandi maka. Sérstaklega ef samskipti þess við hitt foreldrið eru ekki góð. Það þarf því að finna einhverjar leikreglur sem allir eru sáttir við, en er það efni i annan pistil. En skapist mikill ágreiningur milli uppkominna barna og foreldra er hætta á að samskiptin verða minni við barnabörnin, jafnvel engin í sumum tilvikum. Sem er mikill missir fyrir alla.
Ný tengdabörn með börn
Flestir samgleðjast uppkomnum börnum sínum þegar þeir finna sér nýjan maka, en sumir telja að hlutirnir gerast oft ansi hratt. Stundum eru kröfur gerðar um skjóta aðlögun að nýjum tengdabörnum með börn, á sama tíma og tengsl við eigin barnabörn hafa jafnvel minnkað. Það þurfa allir tíma, bæði börn og fullorðnir til að aðlagast nýjum aðstæðum og til að viðhalda eldri tengslum og búa til ný tengsl. Það er því alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa og faðma stjúpömmu eða -afa bless eins og hin barnabörnin gera eða amma og afi vilji eyða meiri tíma með stjúpbarnbarni en barnabarni. Gefa þarf eldri kynslóðinni tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, og stundum að hrista hópana saman. Þegar fólk hefur myndað tengsl við stjúpbarnabörnin er sjaldnast efi í huga þess hvort það eigi að gefa þeim gjafir eða ekki.
Viðurkenning virkar vel – bæði á fullorðna og börn
Það þarf engin að gefa jólagjafir eða aðrar gjafir, en flestum langar til að gefa barnabörnum sínum gjafir hvort sem þau búa á einu eða tveimur heimilum. Hvað varðar stjúpbarnabörnin, þá er það ekki nokkur vafi í huga margra að þau eigi að fá gjafir eins og hin börnin í fjölskyldunni en aðrir er óvissir, sérstaklega þegar tengsl eru lítið sem engin. Sumum kann að finnast það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, jafnvel þótt börnin eigi sameiginlegt hálfsystkini. Hætta er á að slík viðhorf geti ali á afbrýðisemi í systkinahópnum og deilum milli uppkomins barns og maka þess, sem og milli þess og foreldra.
Ræðum saman
Séum við óviss, má ræða málið við uppkomið barn og tengdabarn. Slíkt samtal gæti mögulega afhjúpað þeirra eigin óvissu um hvort þau/þær/þeir ætli að gefa börnum hvors annars saman eða sitt í hvoru lagi. Jafnvel áfram með hinu foreldrinu „eins og þau hafa alltaf gert“.
Allt er í sjálfu sér „leyfilegt“ en með því að gefa stjúpbarnabarni gjöf, felst viðurkenning á tilvist þess í fjölskyldunni, sem okkur öllum er mikilvægt. Deili börnin jólunum saman er vænlegra að hafa gjafirnar af svipuðum toga. Þegar mikill aldursmunur er á börnunum er ekki víst að stjúpbörnin ætlist til að fá gjafir eða sambærilegar gjafir og hin börnin frá nýjum stjúpöfum og -ömmum.
Besta gjöfin er hinsvegar sú að einsetja sér að gefa stjúpbarnabörnum tíma og athygli, sem og eigin barnabörnum á komandi ári- og þessar áhyggjur eru frá um næstu jól!
Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi, Birt á Mannlif.is