Skip to main content
Börn og ungmenni

Er blóraböggull í fjölskyldunni?

Mér finnst óþægilegt þegar stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu, ekki hjálpar mamma hans til með illu umtali.

Það er nú flestum kunnugt að baknagg og langvarandi ágreiningur  foreldra og er ekki eingöngu til ama og leiðinda, hann er líka börnum beinlínis skaðlegur og flækir líf þeirra stundum langt fram á fullorðins ár. Geta þeir verið á sama tíma í afmæli barnabarnanna þegar þar að kemur?

Við skilnað hafa foreldrar ekki lengur sömu yfirsýn yfir líf barna sinna og áður, séu deilur á milli þeirra verður hún enn minni. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“ með umræðum um hvað eigi sér stað á hinu heimili þeirra.  Þó hlutirnir lagist eitthvað upplifa sum að þeim er ekki trúað. En hann var frekar daufur drengurinn sem var þreyttur á því að þurfa sífellt vera verja mömmu sína, þegar pabbi hans og stjúpa sögðu hana tala illa um þau.  „Það er ekki satt, ekki lengur“ sagði hann brostinni röddu. Mamma hans hafði talað illa um þau í fyrstu en hún var löngu hætt því og hvatti hann frekar en latti að fara til pabba síns.  Þeir feðgar  höfðu alltaf átt gott samband og fannst mömmu hans sorglegt að pabbi hans virtist sjaldan gefa sér tíma fyrir son sinn eftir að hann fór í nýtt sambandi.  Mamma hans hafið reynt að ræða um það við pabba hans en hann tók því illa og sagði hana ekki geta unnt sér þess að hann væri ástfangin. Hún yrði að hætta að beita syni þeirra gegn honum.  Strákurinn fann sig ekki lengur heima hjá pabba sínum eftir að hann fór í nýtt samband. Stjúpan hafið verið mjög skemmtilegt fyrst og pabbi hans glaður,  en nú var andrúmsloftið þrungið spennu þegar hann var hjá þeim.

Streitan og áreitið sem fylgir erfiðum samskiptum foreldra,  veldur líka ósjaldan kvíða og pirringi hjá stjúpforeldrinu. Koma stjúpbarna á heimilið, sem í fyrstu fylgdi eftirvænting og áhugi, breytist gjarnan í kvíðahnút á mánudegi sé von á þeim á föstudegi. Sé samstarf foreldris og stjúpforeldrisins á heimilinu ábótavant, fylgir veru barnanna  enn meiri streita og kvíði.  Börn, rétt eins og fullorðnir reyna að forðast slíkar aðstæður sé ekkert að gert.

Áður en fyrrverandi er kennt alfarið um að börn séu ósátt á heimilinu eða vilja ekki koma er ástæða til að skoða með opnum huga hvort framkoma okkar sjálfra ýti undir deilur,  sem og aðstæður barna/stjúpbarna á heimilinu.

Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, ekki sé gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli barna og þau fái litlar upplýsingar.  En efinn um ást foreldris og að það muni standi með því þegar á þarf að halda,  reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Sé lítill skilningur á stöðu þeirra og þeim fullorðnu skortir „verkfæri“ til að leysa málið á uppbyggilegan máta,  lenda sum hver í hlutverki blórabögguls á heimilinu.   Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum,  um að eitthvað sé að barninu.  Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn vandans“,  felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið.

Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum má hafa í huga að þau hafa upplifað margvíslegan missi og sum óttast að missa enn meira.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram