Skip to main content

Ertu hjá pabba þínum eða mömmu um helgina?“ spurði Anna Helgu vinkonu sína sem svaraði því til að hún yrði hjá pabba sínum frá föstudegi til fimmtudags. Anna gat ekki leynt vonbrigðum sínum og spurði hvort hún yrði að fara. „Já þetta er vikan hans pabba“ svarði Helga sem hlakkaði til að hitta hann, en hún vildi líka leika við Önnu. Hún þekkti engan í nýja hverfinu hans pabba en hann hafði kynnst konu sem átti börn og vildi hún ekki flytja úr sínu hverfi. Það gekk vel hjá börnunum hennar í skólanum og svo bjó pabbi þeirra líka í sama hverfi.

Ástin spyr ekki um skólahverfi

Ástin spyr ekki um skólahverfi barnanna en hún getur flækt veruleiki barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum. Fyrir utan þá staðreynd að þau sjálf þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum þá þurfa vinir þeirra að gera það líka. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir vinina og foreldra þeirra að átta sig á hvar þau eru frá dag til dags eða við hvern á að hafa samband þegar á þarf að halda. Eiga þeir að tala við báða foreldra eða á að vera í sambandi við stjúpforeldrið – annað eða bæði?

Vinátta er mikilvæg 

Vinátta er börnum mikilvæg. Vinir eru ekki eingöngu uppspretta skemmtunar, þeir eru líka ómetanlegur stuðningur þegar á móti blæs. Þó vináttusambönd grunnskólabarna eru sterk eru þau ekki alltaf þau áreiðanlegustu. Til að vinatengslin haldi þarf sífellt að endurnýja þau. Meiri hætta er á að besti vinurinn snúi sér eitthvað annað ef aðeins er hægt að leika eftir skóla aðra hvora viku, með tilheyrandi sorg og vanlíðan. Að vera útundan í vinahópnum er vond tilfinning – en hún er líka algeng í stjúpfjölskyldum í fyrstu. Það er því mikilvægt að foreldrar styðji börn sín og auðveldi þeim að hitta reglulega vini sína óháð því hvort vinirnir eru í pabbahverfi eða mömmuhverfi. Aðeins hluti barna búa í göngufæri við báða foreldra sína en í rannsókn á íslenskum ungmennum frá 2008 kom í ljós að aðeins 20% barna bjó í göngufæri við báða foreldra sína, 45% í 10-30 mínútna akstursfjarlægð og 35% í mikilli fjarlægð.

Sum hætta íþrótta- og tómstundastarfi

 

Fjarlægðir kalla á að báðir foreldrar séu tilbúnir stundum til að skutla börnum sínum á milli hverfa og að þeir kenni þeim á strætó þegar þau hafa aldur til. Séu heimilin opin fyrir vinum barnanna og þeim stundum boðið með í heimsókn og ferðir, auðveldar það þeim að halda vináttunni gangandi og aðlögun í nýjum aðstæðum. Það þarf líka að tryggja að börn komist áfram í tómstundir og í íþróttir óháð hvar þau eru hverju sinni. Rannsóknir benda til að meiri líkur eru á því að börn hætti íþróttastarfi hafi vinir þeirra hætt að mæta svo hér hafa allir foreldrar og börn óháð fjölskyldugerð, hagsmuna að gæta.

Við þurfum að taka höndum saman. Það eru ekki bara skólar, íþróttafélög eða foreldrar sem hafa plön – börn hafa þau líka. Spurningin er hvort við áttum okkur alltaf á því?

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram