Skip to main content
Börn og ungmenni

Þú mátt ekki skamma mig – samband stjúpmæðra og dætra

Í BA rannsókn í félagsráðgjöf komu fram vísbendingar um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína.

Rannsóknina gerðu þær Jónína Rut Matthíasdóttir og Valgerður Rún Haraldsdóttir vorið 2015. Leiðbeinandi þeirra var Valgerður Halldórsdóttir aðjúnkt.

Ritgerðin ber heitið  „Þú mátt ekki skamma mig“ í félagsráðgjöf fjallar um upplifun stjúpdætra af sambandi sínu við stjúpmæður sínar. Hún er byggð á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtöl voru tekin við sex ungar konur í Háskóla Íslands sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið stjúpdætur. Aðstæður kvennanna voru að mörgu leyti frábrugðnar og kom því rannsakendum á óvart í hversu miklum mæli þær höfðu svipaða reynslu og sögu að segja. Rannsóknin gefur vísbendingu um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína, og væri því áhugavert að skoða það nánar. Samband stjúpmæðra og stjúpdætra er flóknasta samband innan stjúpfjölskyldunnar og niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að stjúpdætur á unglingsaldri eiga erfiðara með að mynda góð tengsl við stjúpmæður sínar heldur en þær sem yngri eru. Áhrif stjúp- og hálfsystkina spila einnig stóran þátt í upplifun stjúpdætra á að finnast þær tilheyra fjölskyldunni og sambandi þeirra við feður sína. Þátttakendurnir voru allir sammála um að helsta orsök þess að sambandið þróaðist á neikvæðan hátt mætti rekja til þess að stjúpmæðurnar reyndu of fljótt að gegna foreldrahlutverki í þeirra lífi og nálguðust þær ekki á þann hátt að mynda vinatengsl og traust í byrjun. Þær gagnrýndu það harðlega þegar stjúpmæður þeirra reyndu að fara inn á yfirráðasvæði mæðra þeirra.

Hér má lesa ritgerðina í heild sinni

http://skemman.is/stream/get/1946/21386/49430/1/%C3%9E%C3%BA_m%C3%A1tt_ekki_skamma_mig_lokaeintakpdf.pdf

Instagram