Hæ Valgerður.
Foreldrar mínu skildu þegar ég var 19 ára og fóru bæði fljótlega í ný sambönd. Ég var upptekin af vinum og skólanum á þessum tíma. Ég kynntist síðan núverandi manninum mínum um tvítugt og var mikið heima hjá honum. Þannig að ég kynntist stjúpforeldrum mínum lítið, annað var með yngri systkyni mín sem voru að fara á milli heimila. Mér líður í dag eins og hafi verið einhvernvegin „skilin eftir“ og er pirruð út í foreldra mína, sérstaklega pabba og konuna hans. Það er ekki gert ráð fyrir mér eða mínum börnum.
Kveðja, E
Komdu sæl E.
Það er vond tilfinning að upplifa sig útundan, sama á hvaða aldri maður er. Það virðist því miður koma fyrir að foreldrar átti sig ekki á mikilvægi sínu í lífi eldri barna sinna við skilnað og myndun nýrrar stjúpfjölskyldu, það er þeirra sem ekki teljast börn lengur í lagalegum skilningi. Afskiptaleysi þeirra, sem og stjúpforeldra, er oft réttlætt með því að börnin séu orðin svo stór eða fullorðin og að þau þurfi ekki á þeim að halda. Í sumum tilvikum virðist vera litið svo á, að stóru börnin séu „miklu eldri“ en jafnaldrar þeirra sem búa með báðum foreldrum sínum eða stjúpbörnin sem teljast búa á heimili þeirra.
Yngri börn lúta oftast einhverju umgengnisfyrirkomulagi sem tryggir þeim regluleg samskipti við báða foreldra eftir skilnað og ná að viðhalda nauðsynlegum tengslum við þá. Eigi þau stjúpforeldri, stjúpsystkinu og/eða hálfsystkini fá þau á sama tíma tækifæri til að kynnast og mynda tengsl. Það getur því verið auðvelt að upplifa að „vera skilninn eftir“ sé ekki passað upp á tengslin við eldri börnin. Systkini þín eru orðin hluti af fjölskyldu sem þér finnst hvorki þú né börnin þín tilheyra. Mögulega að þið fáið ekki þann stuðning sem þið þarfnist. Sjá framhald hér.