Skip to main content
Skilnaður

Geta aðstoðað barnabörnin við skilnað

60plus

Tíðni hjónaskilnaða hefu aukist síðustu áratugi og skilnaðir hafa mikil áhrif á börn og foreldra þeirra. En stundum upplifa afar og ömmur einnig að samband þeirra við barnabörnin breytist þegar foreldrar þeirra skilja. Þegar börnin eru aðra hvora viku hjá hvoru foreldri, þýðir það þá líka að afar og ömmur hafi einungis samband við þau aðra hvora viku, eða þá vikuna sem þau eru hjá þeirra „barni“? Þannig þarf það ekki að vera.

Erfitt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi hefur sérhæft sig í stjúptengslum. Hún gerði könnun fyrir tveimur árum, en í henni kom fram að um 40% fráskilinna forelda þætti ekki alltaf auðvelt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra um aðstoð með börnin. Það kom einnig fram í könnuninni að fólki þótti heldur ekki auðvelt að biðja eigin foreldra um aðstoð með stjúpbörn, þar sem þeim er til að dreifa.

Reyna að fókusera á barnabörnin

„Það er tilhneiging í þá átt að stuðningsnet fjölskyldunnar gisnar við skilnað og ný stjúptengsl geta gert það enn götóttara en áður“, segir Valgerður. Hún segir að ástæðurnar fyrir þessu geti verið margvíslegar en það sé mikilvægt að blanda sér ekki í deilur fólks sem er að skilja og reyna að fókusera á börnin. „Afi og amma geta skapað mikilvæga festu og samfellu í lífi barna sem eru að fara í gegnum skilnað foreldra sinna og það gerir þeim gott“.

Ekki láta samskiptin „frjósa“

Og Valgerður heldur áfram „Besta leiðin til að tryggja aðkomu að barnabörnum er að halda sig fyrir utan deilur og vera í góðu sambandi bæði við eigin börn og fyrrverandi tengdabörn. Þau stýra aðkomu að barnabörnunum. Þó það sé ákveðið umrót í kringum skilnaði og ýmislegt sé látið flakka er mikilvæg að láta samskiptin ekki „frjósa“ í áratugi, eða taka upp þykkjuna fyrir hönd eign barna og skera á samband við fyrrum tengdabörn, þó eðlilega breytist það . Það er alltaf hægt að bæta samskipti“, segir hún.

Eldri kynslóðin þarf að sýna frumkvæði

Hún segir að eldri kynslóðin þurfi líka að eiga frumkvæði og bjóða fram aðstoð og stuðning með barnabörnin, þar sem fyrrum tengdabörn eigi oft í erfiðleikum með að biðja um hann. Það þurfi að taka umræðuna um þetta, en það sé afar mikilvægt fyrir afa og ömmur að fara ekki frammúr eigin börnum. Það sé rétt að segja þeim frá því að ætlunin sé að hafa samband við fyrrverandi maka þeirra, fá barnabörnin í heimsókn, bíltúr og svo framvegis. Þetta sé sérstaklega mikilvægt ef mikið ósætti sé á milli foreldra barnabarnanna .

 

 

Instagram