Skip to main content
Börn og ungmenni

Af hverju er dóttir mín ósátt við stjúpmóður sína?

Geir, pabba Selmu fannst hún koma allt of sjaldan til þeirra Tinnu, þau sem höfðu átt svo gott samband. Áður en hann kynntist Tinnu borðuðu þau feðginin stundum snemma kvöldmat og fóru síðan í „náttfatasund“. Um helgar áttu þau kósíkvöld og horfðu á heilu sjónvarpsseríurnar. „Games of Throne” var þeirra uppáhald. Í fyrstu náðu Selma og Tinna vel saman og Geir elskaði að vera með „báðum konunum sínum, ekkert ves eins og víða“.

Hann þurfti auðvitað að taka meira tillit til Tinnu þegar þau fóru að búa saman. Í ljós kom t.d. að henni leiddust ævintýramyndir þótt hún hafi látið sig hafa það þegar þau voru að kynnast. Auk þess fannst henni það ekki ganga lengur að vera í náttfatasundi á kvöldin í miðri viku, „Selmu vegna“. Hún þyrfti sinn svefn. Innst inni langaði Tinnu líka til að eiga meiri tíma með Geir á kvöldin, en kunni ekki við að segja það eða vissi ekki hvort henni mætti finnast það. Henni þótti hins vegar vænt um að Geir tók tillit til óska hennar og gerði þær breytingar sem hún bað um.

Geir fannst Selma orðin svo pirruð þegar hann reyndi að ræða við hana um stöðuna. Hún sagðist ekki nenna lengur að tala við pabba sinn, þar sem hann „hlustaði ekki á hana“ og „hann skildi ekki neitt. Allt snerist um þessa Tinnu, Tinnu, Tinnu“. Geir gat ekki skilið af hverju Tinna fór svona í taugarnar á Selmu. Hún sem var svo yndisleg. Hann lagði sig því fram við að segja Selmu hversu fín kona Tinna væri og að hún vildi henni svo vel. Það virkaði hins vegar bara eins og að hella olíu á eld. Líklega hafði Tinna rétt fyrir sér, að Selma væri „bara afbrýðisöm“ og það ætti ekki að vera hlaupa eftir slíku. Geir fannst staðan hins vegar kolómöguleg, en hvað átti hann að gera?

Venjulega hafa börn og einhleypir foreldrar mótað sér venjur og hefðir eins og aðrar fjölskyldur sem geta hentað þeim vel, hvað svo sem öðrum kann að finnst um þær. Ósjaldan fá börn að gista uppi í hjá foreldri sínu, ráða hvað sett er í innkaupakerruna eða hvað sé gert í fríinu, sem er í góðu lagi. Hins vegar er óvíst að stjúpforeldri sé sátt við að deila rúmi með stjúpbarni sínu eða að makinn eigi meira samráð við barnið en það sjálft um innkaupin á heimilið eða annað. Það er því mikilvægt fyrir einhleypa foreldra að íhuga hvaða hefðir og venjur eru á heimilinu. Hversu auðvelt eða erfitt það yrði fyrir nýjan maka að verða hluti af því eða fyrir barnið að taka þeim breytingum sem fylgja stjúpforeldri. Þessar pælingar geta verið gagnlegar, sérstaklega í ljósi þess að flestir einhleypir foreldrar fara í samband fyrr en síðar. Hvernig við aðlögumst lífinu sem einhleypir foreldrar getur haft töluvert um það að segja hvernig aðlögun í stjúpfjölskyldunni verður. Það hjálpar því að þekkja til áskorana stjúpfjölskyldna svo sýna megi uppbyggileg viðbrögð.

Það kann að hljóma vel og spara tíma fyrir foreldri að gera „allt saman“ en líklegt er að bæði stjúpforeldri og barnið verið ósátt til lengdar. Það virkar því sjaldnast að reyna að sannfæra barnið um ágæti stjúpforeldrisins í þeim tilgangi að reyna að breyta viðhorfum þess, þegar það upplifir að það hafi misst tíma og athygli foreldrisins. Né gera lítið úr líðan barnsins og afgreiða það „bara afbrýðisamt“. Börn upplifa erfiðar tilfinningar sem ber að virða. Að upplifa sig út undan, á hvaða aldri sem er, er vond tilfinning, og skemmandi sé ekki brugðist vel við. Allir þurfa sinn tíma, bæði börn og fullorðnir. Breytingar þarf að gera í áföngum. Að gefa tíma, maður á mann samskipti og jákvæð athygli virkar vel. Smám saman geta þau upplifað að stjúpforeldri þarf ekki að vera ógn við tengsl þess við foreldrið, heldur góð viðbót í lífi þess.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Af hverju er dóttir mín ósátt við stjúpmóður sína?

 

Instagram