Skip to main content

Trúnaður og persónuupplýsingar

Persónuupplýsinga og trúnaður 

Áhersla er lögð á trúnað við notendur þjónustunnar við öflun og meðferð persónuupplýsinga. Farið er eftir Lögum um félagsráðgjöf nr. 95/1990, Barnaverndarlögum nr. 80/2002, Siðareglum Félagsráðgjafa og Lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Úr Lögum um félagsráðgjöf nr. 95/1990:

Félagsráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti af starfi.

Úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002:

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Úr Siðareglum Félagsráðgjafa:

Félagsráðgjafi rækir starf sitt án manngreinarálits og virðir réttindi hverrar manneskju. Félagsráðgjafi kemur fram við skjólstæðing af heiðarleika, virðingu og leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust.

Félagsráðgjafi upplýsir skjólstæðing um réttindi hans og skyldur, einnig um úrræði og hjálparmöguleika. Félagsráðgjafi gerir sér far um að virða og verja rétt hvers einstaklings til einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar, svo fremi að það valdi öðrum ekki skaða. Geti skjólstæðingur ekki sjálfur gætt hagsmuna sinna, ber félagsráðgjafa að gæta þess að réttur hans sé ekki fyrir borð borinn.

Félagsráðgjafi gætir trúnaðar um þau mál sem hann verður áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn.

Félagsráðgjafi gerir skjólstæðingi grein fyrir trúnaðarskyldu, upplýsingaöflun, skráningu máls og hvernig farið er með gögn. Félagsráðgjafi sér um að einstaklingur eigi jafnan aðgang að því sem skráð er í máli hans.

Félagsráðgjafi aflar ekki upplýsinga um skjólstæðing frá öðrum án samþykkis hans, nema þar sem lagaskylda býður að það sé gert. Þá skal einungis afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að vinna að málinu. Sé tekið upp á segulband eða myndband verður að afla skriflegs samþykkis skjólstæðings. Heimilt er að víkja frá trúnaðarskyldu, ef skjólstæðingur fer skriflega fram á að ákveðin persóna eða stofnun fái upplýsingar.

Ef skjólstæðingi er gert að þiggja þjónustu félagsráðgjafa gegn vilja sínum skal félagsráðgjafi upplýsa hann um hver réttur hans er og útskýra markmið vinnu sinnar og afleiðingar, eftir því sem við verður komið.

Úr Lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000:

II. kafli. Almennar reglur um vinnslu persónuupplýsinga.

7. gr. [Meginreglur um gæði gagna og vinnslu.]1)

Við meðferð persónuupplýsinga skal allra eftirfarandi þátta gætt:

1. að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga;

2. að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, en frekari vinnsla í sagnfræðilegum, tölfræðilegum eða vísindalegum tilgangi telst ekki ósamrýmanleg að því tilskildu að viðeigandi öryggis sé gætt;

3. að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar;

4. að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta;

5. að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.
[Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli ávallt ákvæði 1. mgr.]1)

Instagram