Lýsing
Fjallað verður um helstu umkvartanir barna í stjúpfjölskyldum og það auka álag sem það getur verið fyrir börn að tilheyra tveimur heimilum og eignast stjúpforeldri/a og stundum stjúpsystkini og hálfsystkini á báðum heimilum á sama tíma. Álag sem oft er ekki veitt nægjanleg athygli. Að pakka og muna hvað þarf að taka með á milli heimila, hvað gerist ef eitthvað gleymis? Tryggja tengsl við vini og mæta á réttum tíma í skóla og tómstundir þegar langt er á milli heimila. Muna ólíkar reglur og upplifa breytingar á eigin foreldrum. Breytt systkinaröð, minni fyrirsjáanleiki og sum upplifa sig sem gest fremur en heimilismenn, svo eitthvað sé nefnt. Þau þurfa að vita hjá hverjum þau eiga að setjast eða heilsa fyrst að loknum íþróttakappleik eða hvort það megi hringja á hitt heimilið þegar það er í umgengni. Mætir stjúpforeldri á skólasýningu eða leik, og hvað finnst hinu foreldrinu um það?
Aðstæður sem geta verið mjög kvíðavekjandi fyrir börn. Þau láta í ljós líðan sína en það er ekki alltaf á þeirra hendi að leysa vandann. Mikilvægt er að barnaverndarstarfsmenn, náms-og starfsráðgjafar, skólafélagsráðgjafar, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk þekki algeng umkvörtunarefni barna og geti veitt eða vísað aðstandendum í viðeigandi ráðgjöf. Börn þurfa á aðstoð fullorðinna!
Námskeiðið er ætlað fagfólki en er opið öllum áhugasömum um áskoranir barna í stjúpfjölskyldum.
Kennari: Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi.
KL. 14.30 til 17.30